Skattlagning aflaheimilda

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 15:55:06 (1901)


[15:55]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla bara að minna á að atkvæðagreiðsla með nafnakalli fer fram í heyranda hljóði. Það á ekki að vera neitt vafamál hvernig þingmenn greiða atkvæði í heyranda hljóði. Þegar þessi atkvæðagreiðsla fór fram var hv. þm. Guðrún Helgadóttir forseti þingsins. Og skyldi það virkilega hafa gerst að forsetinn sjálfur hafi greitt öðruvísi atkvæði en þingtíðindi herma? Því trúi ég ekki.
    Ég vænti þess að hv. þm. hafi gert skattframtal og allir þeir sem hafa gert skattframtal vita það að þar verða menn að telja sér til eignar leigulóðarréttindi, þ.e. lóðir sem eru í eigu annarra en þeirra sjálfra. Það verða menn að færa sér til tekna á skattframtali og menn vita það a.m.k. hér í Reykjavík að þá þurfa menn að gjalda ákveðið afgjald til Reykjavíkurborgar, þ.e. gatnagerðargjöld o.fl., fyrir að fá þessum byggingarlóðum úthlutað sem þeir greiða síðan afgjald af þó að þeir eigi þær ekki. Þannig að ég trúi því ekki að þingmaður sem væntanlega er búinn að telja fram í mörg ár til skatts, sem hefur setið á Alþingi Íslendinga í mörg ár, gegnt hér forsetastörfum, setið í fjárln. viti ekki hver er munur á eign í skattalegum skilningi og eign í eignarréttarlegum skilningi.