Skattlagning aflaheimilda

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 16:00:49 (1904)


[16:00]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þegar menn eru með dómi bundnir til að bókfæra í bókhald fyrirtækis eign sem heitir aflahlutdeild þá er um eign að ræða. En ég vildi halda áfram að lesa úr dómi Hæstaréttar þar sem hæstv. viðskrh. hætti, með leyfi forseta: ,,en á grundvelli reynslu og spár um það hvað verða muni í fiskveiðum eru kaup engu að síður gerð eins og þetta dómsmál sýnir. Þegar þessi atriði eru virt er ekki varhugavert að fallast á það sem segir í héraðsdómi, að hin keyptu réttindi falli undir 73. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981. Segir þar:
    ,,Til skattskyldra eigna skal telja allar fasteignir, lausafé og hvers konar önnur verðmæt eignarréttindi með þeim takmörkunum sem um ræðir í 75. gr. og skiptir ekki máli hvort eignirnar gefa af sér arð eða ekki.`` Takmarkanir 75. gr. eiga ekki við í þessu dómsmáli.``
    Það er skýrt sem hér kom fram í tilvitnun þeirri sem ég las að hér er talað um eignarréttindi, en ekki eignarréttindi í skattalegum skilningi eða einhverjum öðrum skilningi, heldur einfaldlega eignarréttindi af því að hér er um eign að ræða. Svo einfalt er það.