Skattlagning aflaheimilda

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 16:02:20 (1905)


[16:02]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta er rangt. Dómurinn er um skattamál. Dómurinn er um það hvort heimilt sé að gjaldfæra kaupverð aflaheimilda á sama ári og kaupin fara fram eða hvort eigi að gjaldfæra þau í áföngum á fimm árum. Þar er eingöngu um að ræða dóm um skattalega meðferð máls.
    Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan og vitna aftur í það sem í dómsforsendum stendur. Hér segir: ,,Þeir sem þeirra njóta [þ.e. aflaréttindanna] hafa ekki að lögum tryggingu fyrir því að þeir geti síðar notað aflahlutdeildina til tekjuöflunar en á grundvelli reynslu og spár um hvað verða muni í fiskveiðum eru kaup engu að síður gerð eins og þetta dómsmál sýnir.``
    Með öðrum orðum, þó að eignarréttindin hafi enga lögvernd, þó að rétturinn til aflaheimilda hafi enga vernd í lögum og menn hafi enga tryggingu fyrir því í lögum að geta nýtt hann eins og aðra eign sína, þá eiga viðskiptin sér stað engu að síður. Annað segir þessi forsenda ekki, hún vekur athygli á því að viðskiptin eigi sér stað þó svo að það sé engin trygging fyrir því að þá ,,eign`` sem verið er að kaupa sé hægt að nýta með hverjum þeim hætti sem menn ætli sér vegna þess að hvenær sem er geta menn breytt þessu stjórnkerfi, fellt kvótakerfið úr gildi án þess að nokkrar skaðabætur komi fyrir þá ,,eign`` sem menn hafa þarna verið að kaupa.
    Ég ítreka það að þeir sem styðja það sjónarmið að 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða tryggi þjóðinni eign á þessari auðlind, komi í veg fyrir það að útgerðarmenn geti krafist skaðabóta verði stjórnkerfinu breytt, eiga ekki að leika þann leik að grafa undan trausti almennings á Íslandi á þessum afdráttarlausu ákvæðum, því það eru engin rök fyrir því.