Skattlagning aflaheimilda

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 16:33:12 (1914)


[16:33]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Sá sem hefur góðan málstað þarf ekki að byggja málflutning sinn á því að vísa til mismælis í máli hugsanlegs andstæðings og það breytir engu um kjarna málsins.
    Ég þarf ekki að endurtaka þær röksemdir sem ég fór með, en þessi þáttur málsins er nákvæmlega svona: Menn hafa verið að tala um auðlindaskatt og menn hafa fært rök gegn honum en þeir menn láta þess yfirleitt ógetið að auðlindaskatturinn er þegar greiddur. Auðlindaskattur er eðli málsins samkvæmt greiðsla fyrir aðgang að auðlind. Það fara fram viðskipti eins og ég sagði og það hefur leikið nokkuð á tveim tungum hversu mikil þau eru. Ég hef þá tölu einfaldlega eftir einum hv. þm. að þau megi áætla 3 milljarða kr. en jafnframt að þau taki til þess að skipti hafi orðið á veiðiheimildum milli fyrirtækja á Íslandi um allt að 70.000 þorskígildistonn. Þetta eru auðvitað risavaxin viðskipti og byggja á þeim kjarna málsins að aflamarkskerfi er óframkvæmanlegt, gengur ekki upp nema um sé að ræða frjáls viðskipti. Viðskiptin fara fram. Það sem við erum hér að ræða er túlkun á lögum um eignarrétt og annars vegar túlkun á skattalegri meðferð þessara fémætu réttinda. Þeir sem eru andstæðingar veiðileyfagjalds, sem fer nú fækkandi að sjálfsögðu, þeir sem þekkja til mála í greininni, vita að veiðileyfagjaldið er þegar komið á. Munurinn er hins vegar sá að það fer fram í viðskiptum milli aðila í greininni og það er auðvitað í þversögn við og í blóra við hvað er verðlagt á markaðsverði. Þeir sem eru að tala um veiðileyfagjald eru hins vegar að tala um lágmarksgjald fyrir aðgang að auðlindinni og auðvitað kemur þetta í sama stað niður.
    Menn viku að sjávarútvegsfrumvörpum hæstv. sjútvrh. Eitt af því er frv. um þróunarsjóð. Þróunarsjóðurinn er hugsaður sem sjóður til þess að hraða fjárhagslegri endurskipulagningu í sjávarútvegi og byggir á svokölluðu þróunargjaldi. Það ber allt að sama brunni. Það falla öll fljót til Dýrafjarðar. ( ÓÞÞ: Það voru vötnin sem féllu.)