Skattlagning aflaheimilda

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 16:35:45 (1915)


[16:35]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Við hæstv. utanrrh. munum að sönnu ekki verða sammála um það hvernig best verði nú leyst úr því vandamáli sem vaxandi viðskipti með kvóta er. En það sem mig langar að gera hér að umræðuefni er sú staðhæfing hæstv. ráðherra að ekki sé hægt að líta á dóm Hæstaréttar sem úrskurð um að hér sé í rauninni verið að gera 1. gr. laga um stjórn fiskveiða ómerka. Það sem hann leggur áherslu á er að hér sé um fémæt réttindi að ræða, en ég vil halda til haga þeirri túlkun að hér sé hreinlega um eign að ræða og ég vil rökstyðja það með þeim hætti, þar sem ég heyri að hæstv. ráðherra er sammála hæstv. viðskrh., að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála því að hlutabréfaeign sé eign og ekkert annað. Við skulum ekki fara að tala um vandræðaganginn í kringum skattlagningu á ýmsum eignatekjum, það er annað mál. En mig langar að spyrja vegna þess að hæstv. viðskrh., sem mér heyrist að sé hæstv. utanrrh. hjartanlega sammála, tók það sérstaklega til að í dómi Hæstaréttar sé það sönnun fyrir því að ekki sé um eign að ræða að þar stendur orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þeir sem þeirra njóta hafa ekki að lögum tryggingu fyrir því að þeir geti síðar notað aflahlutdeildina til tekjuöflunar.``
    Ég sé ekki að þeir sem kaupa hlutabréf hafi neina tryggingu fyrir því að þeir geti síðar meir gert þetta að tekjum. Þarna er um ákveðna áhættu að ræða er menn kaupa eign og ég spyr því hæstv. ráðherra: Lítur hann ekki á hlutabréf sem eign og þar af leiðandi hluti í okkar sameiginlegu auðlegð?