Skattlagning aflaheimilda

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 16:39:20 (1917)


[16:39]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki út af fyrir sig séð að það sé mikill munur á því hvort áhætta þess sem fær hlutinn til eignar sé vegna ríkisaðgerða eða vegna aðgerða markaðarins. Ég sé ekki að hér sé mikill munur á og ég tek fram að alla vega undir stjórn núverandi hæstv. ríkisstjórnar er mikil áhætta á mörgum eignum, m.a. launatekjum þar sem menn eru sviptir eignum sínum alveg miskunnarlaust með álagningu skatta t.d. Út af fyrir sig sé ég ekki að þetta sé eitthvert einstakt dæmi þótt ég tengi það ekki við líkingu mína um hlutabréf. En mér finnst það standa eftir að hér er um að ræða hlut í verðmæti hvort sem það er fyrirtæki eða aflinn í kringum landið. Það er ekki hægt að tryggja að þessi hlutur haldi verðmæti sínu, hann getur jafnvel orðið verðlaus. Áhættuþátturinn er bundinn við aðgerðir ríkisins. Ríkið hefur verið með aðgerðir sem hafa valdið sviptingum á verðbréfamarkaði þannig að jafnvel þar er hægt að tala um ákveðna líkingu líka. Líti menn á hlutabréf sem eign --- sem ég geri ráð fyrir að þeir geri --- þá held ég að það sé varla hægt annað en líta á þennan hlut í okkar sameiginlegu auðlind sem annað en eign og þar af leiðandi er 1. gr. laga um stjórn fiskveiða með þessum dómi gerð æðimarklaus eins og við kvennalistakonur höfum einatt bent á.