Skattlagning aflaheimilda

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 16:56:50 (1919)


[16:56]
     Vilhjálmur Egilsson :
    Virðulegur forseti. Málshefjandi, hv. 3. þm. Vesturl., kom hér upp og lýsti með sínum hætti ferð tvíhöfða nefndar víða um land. Á þessum fundum voru haldnar ýmsar ræður og af mismiklu viti og skynsemi en ég hygg að þær hafi allar verið fluttar af meiri skynsemi heldur en ræða hv. þm. hér áðan.
    Íslenskur sjávarútvegur á við það böl að etja að margir aðilar og áhrifamiklir svo sem hv. 3. þm. Vesturl. rísa alltaf upp á afturlappirnar ef eitthvað er að gerast í atvinnugreininni sem er hagkvæmt. Það er eins og það sé þannig að ef eitthvað kemur upp sem borgar sig í sjávarútvegi vilji hann og hans skoðanabræður grípa til sérstakra aðgerða til að koma því fyrir kattarnef. Hann kemur hér og agnúast yfir því að fyrirtæki í sjávarútvegi geti orðið stór. Hann agnúast yfir því að það séu viðskipti með veiðiheimildir og jafnvel viðskipti með fisk, að það megi ekki flytja fisk sem veiddur er á Snæfellsnesi norður í Skagafjörð svo dæmi sé nefnt. Hann kemur hér hvað eftir annað og agnúast út af frystitogurum. Hann kemur hér líka og vill gera sérstakar ráðstafanir til að hækka það verð sem sjávarútvegurinn þarf að greiða fyrir viðgerðir og skip. Og það er undantekningarlítið þannig að ef eitthvað kemur upp sem dregur úr hagkvæmni í sjávarútveginum eða eykur kostnað við sjávarútveginn þá er hv. þm. fyrsti maður til að rétta upp hönd og standa með slíku og tala fyrir því.
    Við verðum hins vegar að hafa það í huga að sjávarútvegurinn er eina atvinnugrein Íslendinga sem getur flokkast sem alþjóðlega samkeppnishæf. Og lífskjör þjóðarinnar fara eftir því hvort okkur tekst að efla stöðu sjávarútvegsins sem alþjóðlega samkeppnishæfrar atvinnugreinar.
    Við skulum líta til helstu viðskiptaþjóða okkar og skoða nokkrar atvinnugreinar sem eru alþjóðlega samkeppnishæfar og hvaða lögmál gilda í sambandi við stefnumótun í málefnum þeirra. Við skulum líta á bandaríska flugvélaiðnaðinn sem stendur undir 6% af útflutningi Bandaríkjanna. Við skulum líta á

framleiðslu úra í Sviss sem stendur undir 5% af útflutningstekjum þeirra. ( ÓÞÞ: Hvað er á dagskrá, forseti?) Við skulum skoða trjá- og pappírsiðnaðinn í Svíþjóð sem stendur undir 15% af útflutningstekjum þar og japanska bílaiðnaðinn sem stendur undir 20% af útflutningstekjum Japans. Hvernig ætli við mundum spá fyrir þessum stórkostlega sterku atvinnugreinum ef í þessum löndum væri til umræðu löggjöf sem takmarkaði hagkvæmni á kostnað hagsmuna tiltekinna hópa starfsmanna? Við vitum hvaða afleiðingar það hefði fyrir bandarískan flugvélaiðnað ef takmarkanir væru settar á það hvar fyrirtækin mættu kaupa vélarhluti og tæki. Við vitum hvaða afleiðingar það hefði fyrir framleiðslu úra í Sviss ef þeir settu kvóta á hversu mörg úr mætti framleiða í Bern, Luzern eða Genf og við vitum hvaða afleiðingar það hefði fyrir sænska trjáiðnaðinn ef því væri stjórnað frá Stokkhólmi hversu margar stórar eða litlar vélsagir væru notaðar til að saga niður trén. Við vitum hvaða afleiðingar það hefði fyrir japanska bílaiðnaðinn ef hömlur væru settar á útbreiðslu og notkun ,,róbóta``. En það er eins og hv. þm. sé gersamlega fyrirmunað að skilja hvaða áhrif það hefur fyrir íslenskan sjávarútveg ef á hann eru sett bönd sem draga úr hagkvæmni í honum og stendur þó íslenskur sjávarútvegur undir 70--80% af vöruútflutningi þjóðarinnar og stendur nánast undir því lífskjarastigi sem þjóðin býr við.
    Það hefur mikið verið fjallað hér um þjóðareign á fiskimiðunum. Þjóðareignin felur það eitt í sér að þjóðin getur sett þær leikreglur sem hún kýs um nýtingu miðanna og Alþingi setur þessar leikreglur í umboði þjóðarinnar. Í því felst eignarrétturinn að fiskstofnarnir séu sameign þjóðarinnar. Það er hægt að setja slíkar leikreglur með ýmsum hætti. Það er hægt að setja á veiðileyfagjald sem er svo hátt að það eitt og sér stjórni því hversu mikið menn sækja sjóinn og með hvaða hætti. Það er hægt að hafa veiðileyfagjald t.d. svo hátt að þeir einir komast á sjó sem hafa efni á að borga sitt gjald og þá þarf engan kvóta. En ef menn setja aðgangstakmarkanir að veiðunum þá er nákvæmlega sama hvernig það er gert, þær takmarkanir skapa rétt sem verður að verðmæti í viðskiptum. Það er sama hvort það er aflakvóti sem er ekki framseljanlegur eða framseljanlegur aflakvóti, hvort sem það er sóknarmark eða hvaða aðferð það er önnur. Svo lengi sem reglurnar takmarka aðganginn að miðunum verður þessi réttur að verðmæti sem hlýtur alltaf að endurspeglast með einhverjum hætti í verði í viðskiptum.
    Menn spyrja núna: Af hverju má ekki og á ekki að takmarka viðskipti með kvótann? Algengust viðskipti með kvóta er færsla milli skipa innan sömu útgerðar í þeim tilgangi að það sé hægt að halda þeim til veiða eftir því sem hentar. Ég fullyrði að í flestum slíkum tilvikum er verið að auka aflaverðmæti og tekjur viðkomandi skipa. Þetta er öllum í hag.
    Önnur tegund viðskipta eru skipti þar sem óskyldir aðilar skiptast á kvóta, af einni tegund fyrir kvóta af annarri. Í slíkum tilvikum er samið um skiptihlutfall milli tegundanna eftir eins konar markaðsvirði hverju sinni. Ég vil líka fullyrða að þessi skipti auka hagkvæmni í útgerð og gefa viðkomandi skipum möguleika á að veiða þar sem hentar best á þeim tíma sem skiptin eru gerð. Engum er í hag að banna þessa tegund viðskipta.
    Þriðja tegund viðskipta er svokallað tonn á móti tonni þar sem samið er um fiskkaup og kvótaviðskipti í einum pakka. Þá er algengt að fiskkaupandinn útvegi útgerðaraðilanum eitt tonn af kvóta á móti hverju einu tonni af kvóta sem kemur frá útgerðaraðilanum. Fiskverð í þessum viðskiptum endurspeglar svo líka kvótaviðskiptin. Þessi viðskipti eru öllum í hag sem í hlut eiga. Í stað þess að togarar á Norðurlandi séu að berjast um á þorski fara þeir á karfa eða rækju. Það eyðir tiltölulega minni kvóta í þorskígildum talið og því fellur til umframkvóti sem notaður er til að leggja fram í viðskiptunum.
    Einn rækjufrystitogari er að veiðum utan landhelgi. Rækjukvótinn er fluttur yfir á aðra togara fyrirtækisins en þorskkvótinn veiddur á bátum víðs vegar. Hver tapar á þessu? Eru það sjómennirnir og rækjufrystitogararnir sem gera það gott utan landhelgi? Nei. Þeir hafa sjálfsagt aldrei haft það betra. Eru það sjómennirnir sem fara og veiða rækju á ísfisktogaranum? Nei. Þeir þéna betur á rækjunni en á þorskinum. Eru það sjómennirnir á togaranum sem liggur í karfa og grálúðu sem selt er til útlanda í gámum eða siglingum? Nei, því aflaverðmæti þessara skipa snarhækkar miðað við það að halda þeim á þorski. Eru það sjómennirnir á bátunum sem geta langt í tvöfaldað þann afla sem þeir veiða? Nei, því þeir fá möguleika til þess að bæta verulega við tekjur sínar og úthald bátanna lengist að mun. En hvað þegar togararnir vilja fara að veiða svo aftur þorsk? Sitja bátarnir þá ekki uppi verkefnalausir? Nei. Þá hefur þorskkvótinn í heild aukist á nýjan leik. Þessi viðskipti eru því öllum í hag sem í hlut eiga. Þeir sem eru á móti þessum viðskiptum verða að skýra það út fyrir öllum þeim sjómönnum sem í hlut eiga af hverju þeir eiga að verða af hagkvæmum kostum til þess að auka tekjur sínar. Þeir þurfa líka að skýra út fyrir öllum þeim sem vinna í landi og eiga allt sitt undir því að halda stöðugleika í aðstreymi af hráefni af hverju það þarf að dæma það fólk til stopullar vinnu. Þeir þurfa líka að skýra það út fyrir þeim byggðarlögum og fyrirtækjum sem eru að reyna að standa sig á nyrsta hjara landsins af hverju þau mega ekki leita að fyllstu hagkvæmni í rekstri og hámarka verðmætasköpun úr aflanum. Þeir þurfa að skýra það út af hverju þau vilja hverfa aftur á vit gamla tímans og gengisfellinganna.
    Svo koma menn og tala um að það eigi að banna viðskipti með veiðiheimildir og telja það eitt og sér hafi einhver áhrif á viðskipti með fisk sem er kominn upp úr sjó. Hvílíkt aftakarugl. Og það sýnir kannski best hvað hv. 3. þm. Vesturl., sem hóf þessa umræðu, ber í raun lítið skynbragð á viðskipti í sjávarútvegi og kannski viðskipti yfirleitt að hann skuli ekki sjá það og hafa orðið var við það að þeir sem hann hefur verið hér m.a. að gagnrýna, þau fyrirtæki sem hafa stundað þessi viðskipti, tonn á móti tonni,

hafa líka verið aðsópsmest á fiskmörkuðum og keypt fisk jafnvel á fiskmarkaði á Snæfellsnesi, flutt norður í Skagafjörð og unnið hann þar og gert það með hagnaði. ( Gripið fram í: Ég hef ekki gagnrýnt það.) Og jafnvel þótt viðskipti með veiðiheimildir yrðu bönnuð, þá mundi slíkt halda áfram þannig að það er algerlega tvennt ólíkt.
    Hv. þm. hóf þessa umræðu á spurningunni um afskriftaregluna á keyptum kvóta. Dómur Hæstaréttar byggist á því að skera úr hvað séu gildandi lög og hvort eigi að fara eftir gildandi lögum. Það er hins vegar hlutverk Alþingis að ákveða hvernig þessar reglur eigi að vera og hvort menn vilja breyta þeim. Ég hefði talið eðlilegast að langtímakvótinn, aflahlutdeildirnar yrðu ekki afskrifanlegar þegar keypt er til lengri tíma. Ég tel að það sé vegna þess að þær séu þess eðlis að nýtingarrétturinn eyðist ekki við notkun sem er grundvöllur fyrir því hvernig farið er með þessa hluti í skattalögum. Og ef skynsemi réði hér á hv. Alþingi, þá mundi slík regla vera lögfest. En hins vegar vil ég segja það að eftir því sem maður hlustar á fleiri ræður hér inni og þá sérstaklega hv. málshefjanda, hv. 3. þm. Vesturl., þá er maður skíthræddur og vildi helst leggja til að kaup á varanlegum aflaheimildum yrðu afskrifuð að fullu um leið. Og ég vona það að það fjall af óskynsemi sem hv. þm. hefur flutt inn í þennan sal, fái aldrei brautargengi hér á Alþingi því að ef það fær brautargengi, þá fer illa fyrir sjávarútveginum og þá fer illa fyrir þjóðinni.