Skattlagning aflaheimilda

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 17:09:58 (1920)


[17:09]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e. vil ég segja örfá orð. Ekki ætla ég að verja málflutning hv. 3. þm. Vesturl., fjarri fer því svo fráleitur sem hann er, ekki síst þær forsendur sem hann lagði fyrir þessari umæðu allri. En það sem ég vildi gera að umræðuefni eru fullyrðingar hv. 5. þm. Norðurl. v. um að það geti verið einhver hagkvæmni í því fólgin að flytja óunninn fisk úr verstöðvunum á Snæfellsnesi norður í land. Ef fyrirtækin í Skagafirði hagnast svo mjög á þeim flutningi hlýtur það að byggjast á því að verðið sem þau fyrirtæki greiða fyrir fiskinn sé eitthvað óvenjulega og ég vil segja óeðlilega lágt. Og hvers vegna skyldi það vera óeðlilega lágt? Jú, það er vegna þess að það eru nauðungarsamningar sem þarna eiga sér stað. Ég vil lýsa því hér yfir að ég get alls ekki tekið undir það með hv. þm. að það sé eðlilegt að flytja óunninn afla úr verstöðvum sem liggja vel við miðum og flytja hann í önnur byggðarlög með ærnum tilkostnaði og byggja það allt saman á hagkvæmni sem byggir hins vegar á því að það gerist vegna þess að viðkomandi hafi yfir að ráða kvótanum. Ég get ekki tekið undir þennan málflutning og lýsi því yfir að ég hlýt að hallast að því að hagkvæmast sé að vinna aflann sem næst veiðistöðvunum, ekki síst af bátafiski. Bátaútgerð t.d. við Breiðafjörð er auðvitað mjög hagkvæm. Hún hlýtur að vera hagkvæmust ef aflinn er unninn sem næst miðunum.