Skattlagning aflaheimilda

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 17:24:48 (1926)


[17:24]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég sakna þess að hæstv. viðskrh. er ekki hér í salnum. Ástæðan er sú að hæstv. ráðherra hefur löngum verið drjúgur að sverja af sér alla ábyrgð á kvótakerfinu og allt samfélag við þá sem á því bera ábyrgð. Ég vona að hann mæti hér í salinn, en ég get ekki látið hjá líða að geta þessa því það er óhjákvæmilegt annað en gera hans málflutning að umræðuefni.
    Hæstiréttur hefur kveðið upp dóm sem er á þann veg að þó að Alþingi Íslendinga geti vissulega breytt þessum lögum, þá er það siðlaus aðgerð að segja fyrst í fjmrn.: Þetta er eign sem þið hafið til næstu fimm ára og megið afskrifa á fimm árum, þó að Alþingi hafi samþykkt að taka það af ykkur innan árs. Það er þetta sem gerir það að verkum að þessi umræða hlýtur að fara fram. Annaðhvort er Hæstiréttur svona sannfærður um að kvótakerfið verði óbreytt áfram eða er að búa til með þessum dómi þá niðurstöðu að lögin um stjórnun fiskveiða séu á þann veg að það verði illa aftur snúið frá því kerfi sem sett hefur verið á laggirnar.
    Það er nú svo að við höfum búið við leyfisgjöld af ýmsu tagi. Við vorum með leyfi fyrir innflutningi á bílum. Þau leyfi áttu að veita mönnum rétt til þess að flytja bílana inn í landið og svo fóru menn að selja þessi leyfi. Sá sem gat selt leyfin hafði stóra peninga fyrir. Þetta vita allir. Þetta var gerspillt kerfi í reynd.
    Í dag standa málin þannig að hin rökrétta niðurstaða eigenda Hrannar, að færa kvótann ekki sem langtímaeign heldur afskrifa hann sem rekstrarkostnað á einu ári, er í samræmi við það að þeir líti svo á að það sé ekkert öryggi í því að hér sé um eign að ræða heldur aðeins möguleika sem sé allt annars eðlis en önnur eign.
    Það eru tvær greinar í stjórnarskránni sem helgast af þessum lögum og það er viss línudans á milli þessara tveggja greina sem lögin byggja á. Annars vegar er það 67. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um að eignarrétturinn sé friðhelgur og hins vegar 69. gr. sem segir að engin bönd má leggja á atvinnufrelsi manna nema almenningsheill krefjist, enda þarf lagaboð til. Ég las ekki upp hina greinina alla. Menn kannast flestir við það að heimilt er að almannalögum, heimilt ef almenningsálitið eða almenningsheill krefst þess, réttara sagt, þá er ríkisvaldinu heimilt að þjóðnýta eignir, enda komi fullt verð fyrir. Við réttlættum þessi lög á sínum tíma með því að það væru hagsmunir almennings að ofveiði ætti sér ekki stað. Það er forsendan fyrir því að hægt sé að setja þess lög. En það er ekki þar með sagt, þó að þetta hafi verið gert, að við séum í stakk búnir til þess í dag að sópa þessum lögum út af borðinu án þess að hægt sé að segja að aðgerðin væri lögleg en siðlaus. Það er sá kaldi veruleiki sem blasir við.
    Við skulum segja að það sé nýstofnað hlutafélag. Hlutafélagið hefur keypt skip. Hlutafélagið hefur keypt aflaheimildir. Ef þetta nýstofnaða hlutafélag fengi það svo á trýnið að það væri búið að afnema kvótakerfið, þá væri eignarréttur þess á kvótanum þar með horfinn og fyrirtækið orðið gjaldþrota. En það er ákveðinn hópur manna í þjóðfélaginu sem hefur séð við þeim leka, að réttindin sem voru þeim fengin með kvótakerfinu verða aldrei af þeim tekin, þau verða aldrei af þeim tekin aftur hvaða aðferðir sem við ætlum að nota, og hvers vegna? Af því að þeir hafa selt þessi réttindi og fært fjármunina í aðra atvinnustarfsemi. Svo einfalt er það mál. Sá sem fékk þessi réttindi í hendur á sínum tíma og seldi þau, sá til þess að fjármunirnir sem hann fékk verða ekki af honum teknir með breytingu á fiskveiðilögunum. Í reynd var hann að selja óumdeilanlega eign, ekki aðeins í skattalegum skilningi heldur í eignalegum skilningi. Og það er umhugsunarefni ef maður les 67. gr. að það eru engin ákvæði um að það sé tvenns konar eign til í landinu, annars vegar skattaleg eign og hins vegar einhver önnur eign. Hugtakið er ekki til í stjórnarskránni. Það er bara talað um eignarrétt í þessari grein. En það sem blasir við sem staðreynd í dag og það er ástæðan fyrir því hve reiður og hræddur hv. 5. þm. Norðurl. v. var. Ég hef ekki séð hann svona reiðan eða hræddan í þessum ræðustól áður. Hann gerir sér grein fyrir því að það er að skella á styrjöld út af þessum málum í landinu.
    Sjómenn Íslands búa í dag við tvenns konar kjör. Þeir búa við þau kjör hjá útgerð sem á sinn kvóta að þeir hafa 20--30% betri skiptakjör heldur en hjá útgerð sem ekki á sinn kvóta. Og hvað hafa þeir útgerðarmenn sagt í dag sem eiga sinn kvóta og skipið líka? Ef þetta verður ekki stoppað, þá munum við að sjálfsögðu spila sama leikinn. Hvað eru þeir að segja? Þeir eru að segja að þeir muni stofna tvö hlutafélög, annars vegar um bátinn og hins vegar um kvótann. Hvers vegna? Vegna þess að þá geta þeir lækkað laun sjómannanna um 20--30% alveg eins og hinir hafa gert. Og það er þetta sem er að gerast, sem er tímasprengjan undir stól hæstv. sjútvrh. Og hæstv. ráðherra gerir sér grein fyrir þessu. Hann fór að gá. Spurningin er bara þessi: Er það tilfellið að það sé aðeins þegar kosningar eru í nánd sem Alþfl. íslenski meinar eitthvað með sinni umræðu um kvótakerfið?

    Hér er sagt af hæstv. umhvrh., sem er lærðasti maður Alþfl., eins og allir vita, að það gerist líka stundum rétt eftir kosningar að þeir veifi þessu. Svo gleyma þeir því. Og hér var í stólnum hæstv. viðskrh., barði sér á brjóst eins og faríseinn forðum í helgidómnum og sagði að hann væri ekki eins og þessir ranglátu menn sem hefðu komið þessu kerfi á. Hæstv. viðskrh. situr í góðum stól í félagsskap með þessum mönnum sem hann taldi að hefðu staðið að lagasetningu sem væri mjög ósæmileg. Hæstv. viðskrh. unir því vel að þau lög séu í gildi og hreyfir sig ekki úr stólnum. Hann nýtur félagsskapar hæstv. sjútvrh. Hann nýtur félagsskapar allra þeirra sem hafa staðið að lagasetningunni. En vestur á fjörðum telur hann að það eigi að helga heilt blað hjá Skutli fyrir kosningar því einu að ef þeir kjósi Framsfl. þar, þá séu þeir að kjósa Halldór Ásgrímsson á þing. ( Forseti: Hv. þm.) Hæstv. fyrrv. ráðherra, svo við höldum nú öllu til haga og nú staðsettan á þingi Sameinuðu þjóðanna.
    Hér er aftur á móti boðað að þessi krossfari á móti ætli að sitja rólegur í stólnum við óbreyttar reglur. En það þarf enginn að efa að fyrir næstu kosningar, ef hann gefur kost á sér, þá mun söngurinn hefjast aftur og það eina sem hann trúir á að afli sér kjörfylgis er að boða það að hann muni aldrei styðja ríkisstjórn sem styðji kvótakerfið, það komi ekki til greina. Og svo mikill er sannfæringarkrafturinn að presturinn í kirkjunni á Ísafirði hefur ekki nema helming af því sem þá birtist, því svipurinn verður svo heiðarlegur að jafnvel þótt kolsvartamyrkur bresti á í salnum, þá skín andlitið í gegn. Og út á þetta er búið að boða kosningar, boða að menn eigi að kjósa Alþfl. á Ísafirði ár eftir ár. Það er orðið tímabært að þetta lýðskrum verði stöðvað og annað tveggja gerist: Að hæstv. umhvrh. taki nú af skarið og lýsi því yfir hvort hugsanlegt sé, þar sem hann er nú lærðastur allra þingmanna og ráðherra Alþfl. með traust minni ( Sjútvrh.: Hann hefur nú ekki lært til forseta í dag) og þess vegna líklegri en aðrir til að muna eftir þessu, ekki bara fyrir kosningar og rétt eftir kosningar heldur einnig á milli kosninga, að hann boði nú stefnuna. Hver er stefna Alþfl.? Hvernig mun frv. sem á að leggja fram um stefnuna í sjávarútvegsmálum líta út? Er ekki sanngjarnt að þeir sem eru núna að fara út í kvótakaupin og sjómennirnir sem eru að afla sér verkfallsheimilda til að fara í verkfall fái að vita þetta? Getur það verið leyndarmál fyrir íslenskri þjóð, hver stefna flokksins er sem kemur í veg fyrir það að hæstv. sjútvrh. leggi fram frv. um stjórnun fiskveiða? Hafa þeir þrátt fyrir hreinsanirnar miklu í ríkisstjórninni, 50% mannfall af ráðherrum, afskrifaðir sem óhæfir og sendir til annarra starfa. Getur verið að þrátt fyrir þessar hreinsanir sé ekki hægt að koma fram stefnu í málinu? Er það hugsanlegt? Ef hæstaréttardómurinn verður ekki til þess að þeir geri sér grein fyrir því að það er komin upp sú staða að það verður að leggja til þær breytingar á kerfinu að sjómenn fái sömu kjör á skipunum hvort heldur þeir eru á skipum sem eiga kvótann eða á skipum sem ekki eiga kvótann. Það er enginn millivegur til í þeim efnum.
    Ég veit að hæstv. umhvrh. er kjarkmikill. Það sýndu aðgerðirnar þegar hann var að glíma við rjúpnaskytturnar og hafði sigur. ( Gripið fram í: Og ísbjörninn.) Að maður minnist ekki á viðureignina við ísbjörninn. ( IP: Hann var nú dauður.) Hann hafði meira að segja hræið af Bolvíkingum suður eins og frægt er. Þá vantaði ekki kjarkinn. Hann taldi að það hefðu nú ekki verið kaldir karlar sem hengdu björninn þó hann léti eins og vitleysingur við borðstokkinn. Auðvitað stendur hæstv. umhvrh. upp og lýsir því yfir hver sé stefna Alþfl., þegar hæstv. utanrrh. er horfinn til annarra starfa og hæstv. viðskrh. hefur svo mikið að gera að hann hefur ekki tíma til að vera í salnum.
    Herra forseti. Ég sé að rauða ljósið blikkar og ég ætla að ljúka máli mínu.