Skattlagning aflaheimilda

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 18:01:51 (1933)


[18:01]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er rétt að hnykkja á því fyrst svo verkast að ég er næsti ræðumaður á eftir andsvörum, að það sem ég nefndi síðast, að það stæði hvergi í lögunum sem hæstv. umhvrh. hafði fullyrt að væri heimilt samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða að selja kvóta, það er ekki rétt. ( Umhvrh.: Jú.) Ég bið þá hæstv. umhvrh. að koma hér upp og lesa það í lögunum sem heimilar það. (Gripið fram í.) Hann má mín vegna lesa hvort sem hann finnur það í einstökum greinum laganna, athugasemdum með frv. eða einstökum greinum þess eða framsöguræðu ráðherra eða framsöguræðu nefndarmanns fyrir áliti fyrsta minni hluta í því máli. Hvergi finnur hann neitt um það að löggjafinn hafi ætlast til þess að kvótinn væri seldur. Hann sér einungis orðið framseldur, sem þýðir að flytja á milli. Og skyldi það fela í sér þann skilning að menn ætli að flytja á milli gegn gjaldi? Nei, það felur það ekki í sér vegna þess annars vegar að það er ekki tekið fram í lögunum um stjórn fiskveiða að heimilt sé að framselja kvóta gegn gjaldi og vegna

þess í öðru lagi að það er tekið fram í lögunum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins að þar sé sjóðnum heimilt að framselja hluta af því sem hann hefur til umráða, framselja gegn endurgjaldi. Þar er að sérstaklega tekið fram að þann hluta má framselja gegn endurgjaldi. Einföld ályktun þýðir að annars staðar þar sem það er ekki tekið fram, er ekki heimilt að framselja kvóta gegn endurgjaldi. Að öðrum kosti stæði það í lögunum.
    Þá vil ég nefna það sem mér finnst alvarlegast við þennan dóm. Menn hafa alla tíð frá upphafi umræðu um kvótakerfið lagt á það áherslu sem höfuðatriði að veiðiheimildir og skip væru óaðskiljanlegir hlutir. Dómurinn aðskilur veiðiheimildina frá veiðitækinu, hann aðskilur það gersamlega. Eftir þennan dóm sé ég ekki betur en menn geti haft eitt hlutafélag um skipið og annað hlutafélag um veiðiréttindin. Og svo kyrfilega er þetta aðskilið í dómi Hæstaréttar að hann er með mismunandi afskriftarprósentu á þessum hlutum til að undirstrika að þeir séu ekki tengdir saman. Skip og skipsbúnaður samkvæmt lögum á að afskrifast um 8% á ári. Kvótinn á að afskrifast um 20% á ári. Undirstrikað að hér eru óskyldir hlutir að mati dómsins sem ég tel eðlilegt af því að dómstóllinn er að dæma í ljósi þess sem menn eru að gera. Dómurinn dæmir á grundvelli viðskipta sem eiga sér stað. Hann dæmir ekki á grundvelli þess sem stendur í lögunum. Það er það sem er alvarlegt, að hv. alþm. á sínum tíma sem börðust fyrir þessu kerfi voru ekki að segja satt. Þeir voru að setja lög um annað en þeir þóttust vera að setja lög um.
    Við skulum aðeins rifja upp hvernig kjarninn í þessu kvótakerfi, flutningur veiðiheimilda eða framsal hefur þróast. Það er ekki fyrr en með lögunum 1988 að það er veitt heimild til að sameina aflaheimildir skipa, en það var þá með því skilyrði að það skip sem aflaheimild var flutt frá yrði tekið af skrá og yrði ekki lengur tæki til að veiða fisk. Þessu var breytt með lögunum 1990 þannig að menn máttu flytja heimildina frá skipinu til annars skips og hafa skipið áfram á skrá sem veiðitæki með eitt tonn eða 100 kg. Hvað þýðir þetta? Hvað eru menn að opna fyrir með þessu?
    Ég tel, virðulegi forseti, að dómurinn sé í fullu samræmi við þá þróun sem verið hefur í reynd og þróun sem sjá má í löggjöfnni um meðferð á framsali aflaheimilda ef menn skoða þau lög en það sem stingur í stúf er málflutningur þeirra sem töluðu fyrir kerfinu og orðalag í einstökum greinum þar sem menn vilja láta almenning halda annað heldur en í reynd er verið að gera. Og einn mesti misskilningurinn sem uppi er um þetta kerfi er að það sé kerfi til að stjórna fiskveiðum. Það er einn mesti brandarinn sem uppi er um þessar mundir að lögin um stjórn fiskveiða séu um stjórn fiskveiða. Þau eru að sjálfsögðu ekki um það. Lögin um stjórn fiskveiða eru um ráðstöfun verðmæta, þau eru um ráðstöfun auðlinda hafsins og hverjir eigi að nýta þær og hverjir geti selt þær. Um það snýst málið. Og þessi lög eru fyrst og fremst í þágu þeirra sem áttu þau tæki á sínum tíma sem menn notuðu til að veiða fisk og í þágu þeirra sem áttu þær skuldir sem þessi fyrirtæki báru. Það eru bankastofnanir landsins sem hafa mestan hag af því að lögin um stjórn fiskveiða skuli vera útfærð eins og raun ber vitni. Það er það sem er á bak við.
    Ég er ekki viss um að allir alþingismenn muni viðurkenna í reynd og þora að segja við sína kjósendur að þeir styðji þessa löggjöf sem býr til sérstaka stétt hér á landi, að stéttskipta þessu þjóðfélagi. Annars vegar þeir sem eiga og hins vegar þeir sem ekki eiga. Að koma upp leiguliðakerfi eins og hér hefur verið lýst. Er það vilji Framsfl. eða Sjálfstfl. eða Alþfl. eða Alþb. að setja lög sem hafa í för með sér að ákveðin stétt manna á það á hættu að verða gerð að leiguliðum og á ég þar við sjómenn? Og það eru ekki bara sjómenn sem eiga sitt undir því heldur líka þeir sem í landi eru, þeir sem búa í þeim byggðarlögum sem hafa atvinnu sína af því að stunda sjóinn, sem verða leiguliðar hjá þeim sem eiga þennan kvóta og mega selja hann og ráðstafa honum eins og þá lystir. Er það slíkt þjóðfélag sem við viljum hafa? Ég segi nei við því. Ég segi nei við því að koma upp þjóðfélagi þar sem menn á Sauðárkróki geta gert menn í Grundarfirði að leiguliðum sínum. Það er ótækt. Og ganga síðan á laun vinnuaflsins til að ná sér í hagnað að flytja á milli landshluta. Ég held að útgerðarauðvaldið ætti að snúast á sveif með okkur hinum á móti þessu kerfi áður en það sturtar því öllu fyrir borð. Menn eru kannski ekki allir búnir að átta sig á því sem teljast til útgerðarauðvaldsins að það verður þjónn í þessu kerfi líka, þeirra sem eiga peningana því að ekki munu þeir eiga peningana. Svo mikið er víst.
    Mig undrar það stórlega af því að höfuðvarnirnar sem hér hafa verið framreiddar af hálfu ráðherra í þessari hæstv. ríkisstjórn eru þær að dóminn beri aðeins að skoða í skattalegu tilliti og hann kveði aðeins á um meðferð málsins gagnvart sköttum. Hvers vegna er ekki að finna orð um það sem þarf að gera til að bæta úr því sem á vantar að hafa einhver ákvæði um þetta í skattalöggjöf landsins? Hér var í dag verið að útbýta frv. til laga um breytingar í skattamálum. Það er ekki orð um það hvernig beri að skattleggja þessa hluti. Er ekki rétt að setja lög um þessa hluti fyrst það vantar algerlega í skattalögin ákvæði um hvernig beri að fara með kaup og sölu aflaheimilda í skattalegu tilliti? Eða ætla menn að láta hæstarétt landsins setja þau lög með tíð og tíma? Ég trúi því vart. Ég held að menn hljóti að taka mark á Hæstarétti og vinda sér þá í það að setja löggjöf um þetta. Eða er það eitthvað eðlilegt að fyrna veiðiheimildir á fimm árum?
    Ég tel nauðsynlegt, virðulegi forseti, að hæstv. fjmrh. verði kvaddur til þessarar umræðu og svari spurningum um það hvenær þess er að vænta að ríkisstjórnin leggi fram þau ákvæði sem á vantar í skattalögum til að skattstjórar landsins geti lagt skatta og skyldur á þessa hluti sem aðra. Og ég fer fram á það, virðulegi forseti, að hæstv. fjmrh. verði kvaddur hingað til að svara þeim spurningum og gera grein fyrir því hvers vegna ekki sé orð að finna um ákvæði í þessu nýútbýtta þskj. um breytingar í skattamálum um

skattalega meðferð þessara hluta. Og ég spyr hæstv. forseta, hvenær mun vera von á hæstv. fjmrh.?
    ( Forseti (VS) : Forseti vill benda hv. þm. á að þegar þetta þingmál kemur á dagskrá þá fær hann tækifæri til þess að ræða það við hæstv. fjmrh. Forseti verður ekki við því nú að biðja hæstv. fjmrh. um að koma á fundinn.)
    Ég bendi hæstv. forseta á það að meira að segja sjálfur hæstv. sjútvrh. benti á það að nær hefði verið að hæstv. fjmrh. væri hér til að svara þessu máli. Og ég tel það ótækt, virðulegi forseti, ef forseti neitar að kveðja hér til ráðherra. Ég veit ekki betur en á síðasta kjörtímabili hafi það verið viðtekin venja að forseti varð við því og bið forseta að spyrja hæstv. samgrh. hvort það sé ekki rétt að ráðherrar hafi hér verið kvaddir til þingfundar jafnvel um miðjar nætur að kröfu hans. ( ÓÞÞ: Eiga þeir ekki að vera á þingfundunum?) Ég spyr hæstv. forseta, kveða lög ekki á um að menn eigi að vera á þingfundi?
    ( Forseti (VS) : Forseti vill taka fram vegna orða hv. þm. að hæstv. samgrh. er ekki í landinu þannig að það er erfitt að bera upp við hann spurningar nú. Þar sem þessi beiðni er mjög seint fram komin og umræðan snýr að hæstv. sjútvrh., þá vill forseti ekki verða við þessari beiðni hv. þm.)
    Virðulegi forseti. Ég ítreka beiðni mína og rökstyð hana eins og fyrr með málsvörn þriggja ráðherra hér í ríkisstjórn Íslands sem hafa varið sig með því að þetta mál beri að skoða í skattalegu tilliti. Það eru því þrír ráðherrar í ríkisstjórn Íslands sem hafa beint málinu þangað og því er ekki annað hægt en að sá ráðherra sem fer með þann málaflokk svari þá fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum fyrst þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa gert það að eigin frumkvæði. Það var ekki að frumkvæði málshefjanda eða mín.
    ( Forseti (VS) : Forseti vill taka fram að það var á valdi hv. 3. þm. Vesturl. að eiga þessa umræðu við hæstv. fjmrh. ef hann hefði óskað eftir því. Það var ekki óskað eftir því og þess vegna hefur forseti úrskurðar og mun ekki biðja hæstv. fjmrh. að koma hér á fundinn.)
    Ég spyr hæstv. forseta, hefur hæstv. fjmrh. fjarvistarleyfi?
    ( Forseti (VS) : Nei.) Og ég spyr hæstv. forseta, er það ekki í þingskapalögum að þingmönnum sé skylt að mæta á þingfundi?
    ( Forseti (VS) : Forseti kann heldur illa við það að eiga hér orðastað við hv. þm. á þennan hátt og getur þó svarað því að lokum að það eru ákvæði um það í þingskapalögum að þingmönnum sé skylt að mæta á þingfundi.)
    Virðulegi forseti. Ég uni því illa að forseti neiti því að kveðja til ráðherra til umræðu, sérstaklega þegar ítrekað hefur verið vísað málsvörn í umræðunni yfir á málasvið og forræði þess ráðherra. Ég tel að öll rök hnígi að því að sá ráðherra taki til máls í umræðunni og ég hef óskað eftir því að hann verði kvaddur til fundar og ég mun ekki hvika frá því. En forseti verður auðvitað að ráða sínum úrskurði, en það verður þá að skoðast með þeim hætti sem tilhlýðilegt er þegar að því kemur.