Skattlagning aflaheimilda

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 18:39:45 (1940)


[18:39]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu sem hefur farið hér fram í dag þó að mér finnist heldur vera farið að þynnast á bekkjum hér í hv. Alþingi þegar þetta mál er til umræðu. Ég vil byrja á því að tala um þá gagnrýni sem sumir hv. þm. hafa sett hér fram um það að ég hafi verið að tala um eitthvað annað en dóm Hæstaréttar. Ég valdi þann kostinn að tala um afleiðingar af í fyrsta lagi lögunum um stjórn fiskveiða sem eru þær að menn hefur greint á um eignarrétt á veiðiheimildunum á fiskimiðunum í kringum landið síðan þessi lög voru sett, og um áhrifin á þessi atriði vegna dóms Hæstaréttar.
    Ég taldi það ekki þjóna miklum tilgangi að vera að ræða í þaula ákvarðanir Hæstaréttar því að þeim verður ekki mótmælt. Það er tilgangslaust fyrir ráðherra og það er tilgangslaust fyrir þingmenn að ræða það eða setja það fram hvort þeir eru sammála eða ósammála Hæstarétti. Það er niðurstaða Hæstaréttar sem gildir. Vilji menn hafa aðrar skoðanir, þá er þeim það frjálst, en lögunum verður að breyta ef það á að verða einhver önnur niðurstaða en sú sem Hæstiréttur hefur kveðið upp úr með. Og það er þess vegna sem ég áleit að það ætti fyrst og fremst að kalla til umræðunnar hæstv. sjútvrh. vegna þess að afleiðingar af þessum lögum heyra undir hann. Það er hann sem ber ábyrgð á framkvæmd laganna um stjórn fiskveiða. Og ég taldi það gagnlegast fyrir hv. Alþingi að umræðan um þessi mál yrði látin snúast um afleiðingar dómsins og um það að fá það á hreint hvort hæstv. ríkisstjórn ætlaði sér að gera breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða í kjölfarið á þessum dómi, hvort hún ætlaði að huga eitthvað að stöðu þessara mála eins og þau eru nú þegar það liggur fyrir að að er yfirvofandi sjómannaverkfall nákvæmlega vegna þessa atriðis sem við erum hér að ræða í dag.
    Ég taldi það gagnlegast fyrir hv. Alþingi að ræða málin út frá þessum grunni. Ég set ekkert út á það og tel það líka eðlilegt að menn ræði um dóminn og afleiðingar hans vegna skattamála. En ég vil taka það fram, sérstaklega vegna orða hæstv. viðskrh., að ég er ekki á þeirri skoðun að þessi dómur gefi útgerðaraðilum í landinu rétt á skaðabótum þó að það verði breytt um fiskveiðistjórnun. Ég er ekki á þeirri skoðun. En ég geri mér grein fyrir því að það mun fara mjög eftir því með hvaða hætti hv. Alþingi breytir lögunum. Ef hv. Alþingi breytir lögunum með mjög skömmum fyrirvara og gefur enga möguleika til aðlögunar að nýrri skipan, þá er ég ekki viss um að menn muni ekki eignast skaðabótarétt á ríkið eftir þennan dóm. Og ég er ekki einn af þeim sem halda því fram að menn eigi að slá striki yfir hið liðna og gera ekkert til þess að deyfa afleiðingarnar af því að breyta þessu. En ég segi það alveg eins og er að ég undrast ræður hv. alþm. sem hafa mætt hér í ræðustólinn og ekki fundið önnur vopn til að berjast með heldur en þau að ég og aðrir hv. þm. annarra flokka, sem hér hafa mætt til að ræða þessi mál, séum að tala þvert á það sem einhverjir þingmenn fyrir okkar flokk hafi gert eða sagt fyrir árum síðan. Á það að vera þannig að hv. alþm. eigi að burðast með fortíðina á bakinu endalaust? Eiga þeir að erfa skoðanir foringjanna? Eiga þeir að ganga með hugmyndir fyrirrennara sinna endalaust? Eiga þeir að játast undir það að einhverjar ákvarðanir sem hafa verið teknar hér í hv. Alþingi eigi bara að blíva um aldur og ævi vegna þess að einhverjir menn úr flokknum hefðu, vær så god, þó að búið sé að grafa þá núna, samþykkt þetta? Ég er ekki á þeirri skoðun.
    Ég held að hv. Alþingi væri sæmra að horfast í augu við það að ekki er eðlilegt að taka þetta mál fyrir á pólitískum grundvelli. Það þarf að vera þverpólitísk meðferð þessa máls hér á Alþingi. Og það er nákvæmlega það sem Alþb. hefur þrátt fyrir allt bent á. Þótt Alþb. sé klofið í þessu máli og hefur verið, þá höfum við lagt fram tillögur hér í þinginu um það að tekið verði sameiginlega á þessu máli á þverpólitískum grunni. Við höfum verið spottaðir fyrir þessa afstöðu okkar hérna, en við verðum auðvitað að þola það. Ég er jafnsannfærður um að það er rétt afstaða. Við eigum að vinna þannig að þessu máli. Við eigum ekki að burðast með fortíðina og við eigum ekki að láta einhverja ríkisstjórn sem situr við völd notfæra sér aðstöðu sína á þann hátt sem þessi hæstv. ríkisstjórn ætlar að gera. Hún ætlar að reyna að handjárna sína þingmenn og þá sem styðja hana með einhverjum hætti við þessar hugmyndir tvíhöfða nefndarinnar sem hafa verið hér til umræðu í hv. Alþingi. Hún er að reyna að kaupa menn úr ýmsum örmum beggja stjórnarflokkanna til fylgilags við þessa hugmynd, þó að það sé ekki vafamál að það er flestum mjög nauðugt að styðja þetta frv. eins og það liggur fyrir.
    Ég endurtek það sem ég sagði áðan að ég tel að það hefði verið að mörgu leyti gott ef hæstv. fjmrh. hefði getað verið við umræðuna. Ég óskaði ekki eftir því vegna þess að ég taldi mikilvægara að hæstv. sjútvrh. væri hér. Það kann vel að vera að ég hefði átt að óska eftir því að þeir yrðu hér báðir og eftir á sé ég að það hefði verið til bóta fyrir málið.
    Hv. 5. þm. Norðurl. v. játaði það hér í stólnum að hann væri skíthræddur, hann orðaði það svona, hann væri skíthræddur vegna þess að það væri greinilega hér í Alþingi fjöldi þingmanna sem ekki skildi þessi mál, þeir væru of heimskir, þeir skildu þetta ekki. ( Gripið fram í: Heilt fjall.) Það væri heilt fjall af heimsku hér í Alþingi. Hann taldi að það þyrfti að afskrifa kvótann strax, helst í dag vegna þess að það væri svo mikil heimska í Alþingi, heilt fjall. Ég vona að satt reynist. Hann hélt annars ræðu sem ég hef heyrt sumt úr áður, heyrði það á fundum tvíhöfða nefndar sem ég mætti á til þess að meðtaka boðskap þeirrar nefndar þegar hún var í hringferðinni kringum landið og ætla ekki að endurtaka neitt úr hans ræðu hér. En ég held að sú ræða hafi að mörgu leyti verið góð og hafi menn hlustað á hana af athygli, þá þarf ég engu við það að bæta sem hv. þm. sagði einfaldlega vegna þess að sjómennirnir og fólkið sem býr í sjávarútvegsbyggðunum allt í kringum landið hefur skilið mjög vel hvar fiskur lá undir steini. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er hreinskilinn maður. Hann hefur látið það koma mjög skýrt fram að hann telji það eðlilega viðskiptahætti að menn notfæri sér kvótann til þess að pína þá sem þeir fá í viðskipti við sig til þess að láta fiskinn af hendi fyrir sem allra lægst verð og þeir hafa verið alveg ótrúlega sniðugir við þetta á Sauðárkróki. Hann lýsti því á fundi tvíhöfða nefndar hvað þetta hefði tekist sérstaklega vel á þeim stað. Og þeir hefðu í stjórn þess fyrirtækis sem hann hefur verið í stjórn hjá og er líka staðsett á Sauðárkróki verið alveg óskaplega öfundsamir út í Fiskiðju Sauðárkróks því að þeim hefði tekist þetta svo miklu betur heldur en stjórn fyrirtækisins sem hann átti sæti í. Ég held að hann hafi komið þessu mjög vel til skila.
    Á eftir honum mætti í ræðustól hv. 1. þm. Vesturl. og hann kom hér til þess að segja það mjög skýrt og ákveðið að hann teldi þessa viðskiptahætti óásættanlega og ég er sannfærður um að það eru miklu fleiri í Sjálfstfl. sem eru sömu skoðunar og hann. Og ég er satt að segja farinn að vonast til þess að það sé möguleiki hér í hv. Alþingi til þess að gera breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða þannig að það verði ekki hægt að fara að sjómönnum og kvótalitlum útgerðum í landinu með sama hætti og gert er. Og að menn horfist í augu við þær röksemdafærslur sem voru hafðar þegar var verið að narra menn til fylgilags við kvótalögin á sínum tíma, að það ætti að tryggja með kvótalögunum hagkvæmni í útgerðinni. Þegar menn gætu verslað með þessar veiðiheimildir eða skipt á þeim, þá mundi þessi veiðiréttur safnast til þeirra útgerða þar sem hagkvæmnin væri mest og menn mundu fá veiðiheimildir til viðbótar þangað til þeir væru komnir með bærilega gott fyrirtæki, hagkvæmt fyrirtæki, nægilegar veiðiheimildir til þess að hagkvæmnin væri í góðu lagi. Þetta var verið að selja mönnum þegar kvótalögin voru sett. En hvað gerist núna? Nú gerist það að menn safna meiri og meiri veiðiheimildum að sér sem hafa þær mestar fyrir og geta engan veginn og hafa aldrei ætlað sér að veiða fiskinn vegna þess að þeir láta aðra veiða hann fyrir sig á miklu lægra verði en þeir geta veitt sjálfir. Þeir neyða menn í þessi viðskipti með því að láta þá hafa miklu lægra fiskverð heldur en er á markaðnum á hverjum tíma.
    Hæstv. sjútvrh. hefur setið þolinmóður yfir þessari umræðu þrátt fyrir að hann hafi þá skoðun að það hefði annar maður átt að vera mættur hér í salnum til þess að taka þátt í umræðunni. Ég vil einungis endurtaka það að ég tel að þessi umræða eigi að snúast um afleiðingar af lögunum um stjórn fiskveiða og afleiðingarnar af dómi Hæstaréttar fyrst og fremst, en hún á auðvitað líka að snúast um skattatæknileg efni eins og menn svo smekklega orðuðu það þegar þeir voru að lýsa því hér í dag, sumir hv. þm. og hæstv. ráðherrar að þetta væri nú ekki merkilegra en það, þetta væri svona bara skattatæknilegt atriði. Ja, sér er nú hvað.
    Ég er sannfærður um að það gengur illa að fá þjóðina í þessu landi til þess að meðtaka það að einhver eign sem menn borgi skatt af sé ekki þeirra eign. Og ég endurtek það að ég er á þeirri skoðun að þó að lögunum um stjórn fiskveiða verði breytt og menn eignist ekki skaðabótarétt á ríkið, þá muni í framkvæmdinni fara eins og menn hafa hér lýst, t.d. lögfræðingur hjá LÍÚ. Menn munu framkvæma þessa hluti í framhaldinu eins og þeir eigi þetta. Það dettur nákvæmlega engum útgerðarmanni í hug eftir þennan dóm að hann eigi ekki að geta nýtt sér aflaheimildir sínar til þess að hafa af þeim allan þann arð sem markaðurinn gefur möguleika á á hverjum tíma, sem segir okkur það að viðkomandi útgerðarmaður muni ekki láta fiskverðið koma til skipta fyrr en hann er búinn að láta draga kvótaleiguna sína frá. Hann þarf ekki annað en færa aflann á milli fyrirtækja, stofna sér annað hlutafélag eða fara í samvinnu við annað fyrirtæki og skipta við það á veiðiheimildunum, þá er allt fallið í ljúfa löð. Þá eru menn búnir að kaupa og selja allt saman ( ÓÞÞ: Og fá 20% afskriftarheimild.) og fá 20% afskriftarheimild. Þetta getur gerst á einu ári, hæstv. sjútvrh. Það er hægt að taka fiskverðið á landinu niður um sem svarar kvótaverðinu á einu ári. Það er hægt að kaupa og selja allar veiðiheimildir í landinu með þessum hætti.
    Það var ekki um þetta sem hæstv. sjútvrh. talaði. Hann talaði heldur ekki neitt um hvað væri fram undan í þessum málum, hann forðaðst það. Hann talaði um hvað væri að baki, talaði um það að Alþb. hefði ekki haft samstöðu í þessu máli eins og það væri eitthvert aðalatriði í málinu.
    Síðan mætti hv. 1. þm. Vesturl. hér í pontu og lýsti yfir algerri andstöðu við hæstv. sjútvrh. Hann sagði að þetta væru gersamlega óásættanlegir viðskiptahættir, þessi fína uppfinning, tonn á móti tonni, sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hefur dásamað svo mikið hvað væru skemmtileg viðskipti og fín uppfinning. Ég held að hæstv. sjútvrh. ætti að gá að samstöðunni í sínum eigin flokki, en hann forðaðist að tala um hana. Og hann forðaðist að segja okkur hvers vegna hann hefur ekki getað komið þessum málum í gegnum þingið, hvað það er sem stendur á, hvort það er bara þetta 1% sem hæstv. umhvrh. talaði um að vantaði upp á að hann gæti stutt þetta mál eða hvort það er eitthvað annað, hvort það er andstaða hv. 1. þm. Vesturl. og ýmissa fleiri við grundvallaratriði í kvótakerfinu sem er eignarrétturinn á veiðiheimildunum, nákvæmlega það mál sem Hæstiréttur var að kveða upp sinn dóm um.
    Ég get vel tekið undir það með hæstv. sjútvrh. að það má örugglega heyra önuglyndi í mínu máli þegar ég ræði þessi sjávarútvegsmál. Ég kann ekki að stjórna þannig tilfinningum mínum að það komi ekki fram í máli mínu þegar ég tala um þetta mál því að þannig hafa hv. alþm. farið með sjávarútvegsbyggðirnar í landinu, farið með marga sjómenn og reyndar hafa sjómenn í stórum hópum orðið að þola það að greiða þetta auðlindagjald til útgerðarinnar í landinu eða þeirra sem hafa verið að kaupa og selja veiðiheimildir og við sjáum fyrir okkur heilu byggðarlögin sem eru að falla í rúst. Það er engin fiskvinnsla í mörgum byggðarlögum vegna þess að veiðiheimildirnar eru það litlar á þessum svæðum að útgerðarmennirnir þar selja allan afla sinn með því að fara í þessi viðskipti, tonn á móti tonni á lágu verði í burtu af stöðunum.
    Ég held að þegar menn ræða svona mál, þá hljóti þeir að verða annaðhvort kátir eða pínulítið sorgmæddir eftir því á hvaða stað þeir búa. Og það getur vel verið að þeir sem búa á tiltölulega mjög afmörkuðum stöðum á landinu geti verið nokkuð kátir með þessa niðurstöðu vegna þess að þar séu fyrirtæki sem hafa dregið aflaheimildir til sín og notfæra sér þessa þokkalegu aðferð sem menn hafa lögfest, að það megi kaupa og selja veiðiheimildir, a.m.k. fara menn sínu fram með það hvort sem það er nú í raun

og veru leyft með lögum eða ekki.
    Ég sagði það hér áðan að ég vildi tala um afleiðingarnar, ég vil ekki tala um fortíðina. Ég tel að við verðum að horfast í augu við það hvernig málin standa í dag. Og mér finnst það satt að segja neðan við virðingu okkar hér á hv. Alþingi að togast á um það og leita eftir því í skjölum hvað það er sem menn hafi gert í fortíðinni. Á sama tíma og jörðin brennur undir fótum hæstv. sjútvrh., þá er hann að spekúlera mest í því hvort Alþb. hafi verið klofið í þessu máli eða ekki. Ég held að það væri nær fyrir hæstv. ráðherra að leita nú samstöðu með þingmönnum í þessu máli og ég skora á hann að svara því hér á eftir, hvort ekki sé að verða kominn tími til þess að hv. Alþingi taki þetta mál að sér og hv. sjútvn. fái að fjalla um málið óáreitt fyrir einhverjum hugmyndum sem tvíhöfða nefndin hefur sett fram. Og ég spyr: Hvað á þjóðin lengi að bíða eftir því að þetta mál komi hér með einhverjum hætti til umfjöllunar í hv. Alþingi? Væri hægt að fá svar við því á eftir, hæstv. ráðherra? Og ég spyr: Hvað á þjóðin lengi að bíða eftir því að þetta mál komi hér með einhverjum hætti til umfjöllunar í hv. Alþingi? Væri hægt að fá svar við því á eftir, hæstv. ráðherra?
    Ég ætla að segja það til viðbótar að mér finnst að menn hafi að sumu leyti verið að deila um keisarans skegg, hvort það sé nákvæmlega einhvers konar rétt lögskýring á því að menn eigi veiðiheimildirnar eða eigi þær ekki. Það skiptir í raun og veru ekki máli. Að óbreyttum lögum er farið með þessar veiðiheimildir eins og eignir manna. Ætli Alþingi að hafa lögin áfram óbreytt þá er framkvæmdin nákvæmlega sú að menn eiga þetta í framkvæmd hvort sem menn fallast á lögskýringarnar eða ekki. Það breytir engu að þetta er meðhöndlað sem eignir. Og þá hlýtur Alþingi að þurfa að gera það upp við sig: Ætlar hv. Alþingi að sætta sig við það að svona verði framtíðin? Ég er þeirrar skoðunar að við megum ekki gera það og ég tel að það sé hægt að finna leiðir út úr þessu vandamáli.
    Ég hef forðast að draga umræðuna út fyrir efnið að því leytinu til að ég tel að ég hafi talað hér fyrst og fremst um afleiðingar þessa ákvæðis laganna um stjórn fiskveiða sem um er að ræða og afleiðingar dómsins sem Hæstiréttur kvað upp. Ég ætla ekki að fara að eyða tíma þingsins í það að ræða einhvers konar aðrar hugmyndir um stjórn fiskveiða. Ég tel að það verði að bíða betri tíma en ég er auðvitað tilbúinn í þá umræðu.
    En ég krefst þess að hæstv. sjútvrh. geri þjóðinni kunnugt hvað er fram undan. Er það meiningin að halda áfram að róa á skerinu? Ætlar hann að bíða eftir sjómannaverkfallinu? Verður hæstv. ríkisstjórn að hnoðast með frv. um stjórn fiskveiða fram yfir þessi áramót líka? Ég vil fá svar við því.
    Ég vil svo vekja athygli þingmanna á því að ekkert af því sem ég rakti í minni fyrri ræðu af afleiðingum þessa kvótakerfis hefur verið hrakið hér í umræðunni, ekki neitt. Menn hafa ekki einu sinni lagt í að reyna það. Menn hafa farið í að tala um fortíðina. En það er nákvæmlega svona sem þetta kerfi virkar og því hafa ýmsir hv. þm. lýst til viðbótar hér í dag. Og það að menn skuli taka heilan dag í umræðu hér í hv. Alþingi án þess að það sé hægt að hrekja þá lýsingu sem ég fór yfir hér í upphafi fundarins hlýtur að segja sína sögu. Það segir sína sögu líka hvernig menn bregðast við. Hæstv. umhvrh. taldi sér skylt að fara í vörn fyrir hæstv. sjútvrh. og hélt því fram að ég væri einhver kjarkmaður að þora í umræðu við hæstv. sjútvrh. um þessi mál. Mér finnst nú ekki þurfa kjark til þess. Ég tel að þetta mál sé þannig að það þurfi kjark til að verja það frekar en kjark til þess að setja út á þær aðferðir sem eru notaðar við stjórn fiskveiða. Og satt að segja verð ég að segja eins og er að í ræðu hæstv. sjútvrh. var nú ekki margt sem menn þurftu að óttast í umræðunni og mér finnst að ég þurfi í sjálfu sér ekki að svara miklu þar um. Mér finnst að það eina sem ég hefði gjarnan viljað fara yfir með honum væru útlistanir hans á því hvernig væri hægt að stjórna fiskveiðum sem hann fékk út að lokum að væri ekki nokkur möguleiki að gera nema með kvótakerfinu. En eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að fara út í nánari umræðu um það hér núna.
    Hæstv. umhvrh. sagði að ég hefði kallað hér til vitnis Kristján Ragnarsson og Jónas Haraldsson frá LÍÚ og gert mikið með þeirra niðurstöðu á málinu. Ég lýsti mig ekki samþykkan þeirra útlistunum á dómi Hæstaréttar. Það gerði ég ekki. En ég tel að það sé athyglisvert að hlusta á þessa forsvarsmenn stórútgerðarinnar í landinu þegar þeir segja sína skoðun á niðurstöðu Hæstaréttar og það var nákvæmlega ekki hægt að misskilja hvað þessir menn voru að segja. Þeir sögðu að niðurstaða Hæstaréttar væri sú að útgerðarmenn ættu kvótann. Ég ætla ekki að endurtaka það í smáatriðum sem ég sagði áðan að vitanlega munu útgerðarmenn með þessa niðurstöðu í vasanum ekki láta segja sér það tvisvar að heimta arðinn af því að eiga kvótann.
    Hæstv. umhvrh. lýsti því með ýmsum orðum hér í upphafi ræðu sinnar hvernig hefði verið farið með mig í umræðum hér. Ég gef ekki mikið fyrir það. Ég endurtek einungis það að svo lengi sem ég verð hér á hv. Alþingi mun ég ekki láta neinar umræður um það sem hefur gerst í fortíðinni aftra mér frá því að taka upp umræður um mál eins og þetta.
    Ég held að það sé kominn tími til þess að hæstv. ríkisstjórn og sérstaklega hæstv. sjútvrh. átti sig á því að það er komið að endimörkum þessa tímabils. Það er ekki hægt að stinga höfðinu lengur í sandinn. Það skellur á sjómannaverkfall hér um áramót. Og það er nákvæmlega krafan um að tekið verði á því máli sem hér er til umæðu. sem er fyrsta krafa sjómannanna. Samt situr hæstv. sjútvrh. hinn rólegasti á frumvörpunum sínum, kemur þeim ekki fram, enda veit hann að það þýðir ekkert að leggja þau hér fram. Það þýðir ekki að leggja fram frumvörp sem eru með þeim ákvæðum sem gefa útgerðinni í landinu veiðileyfi á sjómennina í landinu með þeim hætti sem gert er núna.

    Ég held að hæstv. sjútvrh. ætti að viðurkenna það að hann hafi farið villur vegar í þessu máli. Hann valdi ranga hesta til að veðja á sem voru foringjar tvíhöfða nefndarinnar. Hann hefur ekki sinnt neinum aðvörunum. Hann hefur fengið aðvaranir úr öllum áttum. Hann hefur fengið aðvaranir úr greininni. Hann hefur fengið aðvaranir frá sínum eigin flokksmönnum. Hann hlustar ekki. Hann hefur ekki hlustað fram á þennan dag. En vonandi er nú að koma að því því að ég efast ekkert um það að hann neyðist til að hlusta þegar sjómennirnir í landinu eru búnir að ákveða það að flotinn sigli ekki út eftir áramótin.