Einkavæðing embættis húsameistara ríkisins

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 15:16:01 (1956)

[15:16]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin lýsti yfir í hvítbók sinni að unnið yrði að breytingum á embætti húsameistara ríkisins og ákveðnir þættir þess tengdir framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins og Fasteignum ríkisins. Endurskoðun á hlutverki stofnunarinnar hefur staðið yfir í forsrn. og líkt og fram kemur í greinargerð með fjárlagafrv. fyrir næsta ár er þess að vænta að verulega dragi úr starfsemi embættisins í kjölfar þeirrar endurskoðunar. Í meginatriðum miða fyrirhugaðar breytingar að því að embættið hætti eiginlegri fullhönnunarvinnu, sem felur í sér að verkefni sem embættið hefur haft með höndum færast til sjálfstætt starfandi aðila. Það má því segja að ríkisstjórnin hyggist færa stóran hluta starfseminnar til markaðarins.
    Hins vegar er ljóst að embættið mun ljúka þeim hönnunarverkefnum sem það hefur skuldbundið sig til að ljúka. Þar er m.a. um að ræða verkefni sem taka munu nokkurn tíma svo sem endurnýjun mannvirkja á Bessastöðum, mannvirkjagerð á landspítalalóð og framkvæmdir vegna Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.
    Í tilefni þessara breytinga mun reglugerð um embætti húsameistara ríkisins, nr. 259/1973, sem raunar er úrelt, verða endurskoðuð. Framtíðarhlutverk embættisins mun m.a. felast í eftirliti og umsjón með ýmsum byggingum sem þykja menningarsögulega verðmætar. Dæmi: Embættisbústaður forseta Íslands, Alþingishús, Safnahús við Hverfisgötu, Stjórnarráðshúsið, Þjóðleikhúsið, svo og með faglegri ráðgjöf við forsrn. vegna skrifstofuhúsnæðis Stjórnarráðsins. Endanleg afstaða til þessara breytinga mun að öllum líkindum liggja fyrir í lok næsta mánaðar.