Aðstæður fatlaðra í skólum

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 15:25:15 (1961)


[15:25]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Spurt er hvernig ætlunin sé að bæta aðstæður fatlaðra í grunn- og framhaldsskólum landsins til þess að þeir geti stundað nám til jafns við ófatlaða. Í núgildandi lögum um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er kveðið á um að fatlaðir nemendur skuli stunda nám við hlið ófatlaðra. Ýmislegt hefur verið gert til að bæta aðstæður fatlaðra í grunn- og framhaldsskólum á undanförnum árum. Fatlaðir eru afar fjölbreytilegur hópur og þörf er margs konar aðgerða til að bæta aðstæður þeirra í skólum. Til þessa hefur verið unnið að bættum aðstæðum fatlaðra í skólum, annars vegar með tilliti til aðgengis að húsnæði skólanna og hins vegar með því að aðlaga kennsluhætti og skipulag náms að ólíkum þörfum fatlaðra.
    Sú krafa er almenn að fatlaðir stundi nám með ófötluðum nemendum eftir því sem kostur er. Framkvæmd blöndunar fatlaðra barna og ófatlaðra er oft og tíðum vandasöm og mikilvægt að faglega sé að henni staðið. Í þessu sambandi má benda á að nýtt fyrirkomulag hefur verið tekið upp í Noregi þar sem ráðgjafar- og greiningarstöðvar gegna mikilvægu hlutverki þegar verið er að ræða ákvarðanir um skólagöngu fatlaðra. Brýnt er að fylgjast með því hvernig til tekst og taka mið af reynslu þeirra í þeim efnum.
    Æ fleiri grunnskólar taka við fötluðum nemendum og kenna þeim ýmist í almennum bekkjum eða í sérstökum stoðdeildum sem stofnaðar hafa verið fyrir fatlaða nemendur innan einstakra grunnskóla. Sérdeildir á unglingastigi eru nú víða í grunnskólum þar sem greindarskertir nemendur sækja almenna skóla. Einnig hefur verið sett upp sérstök deild fyrir blinda nemendur í Álftamýrarskóla í Reykjavík þar sem blindir nemendur njóta sértækrar þjónustu til að geta stundað nám með sjáandi börnum.
    Í Hlíðaskóla í Reykjavík er sérdeild fyrir hreyfihamlaða nemendur. Í öllum fræðsluumdæmum eru sérdeildir fræðsluumdæma sem eru í tengslum við almenna grunnskóla og taka á móti og kenna þeim nemendum sem eiga við alvarlega fötlun að stríða. Fötlun krefst mismunandi lausna í húsnæðismálum eftir því hvers eðlis hún er. Ekki er allt skólahúsnæði hannað með þarfir fatlaðra í huga, en þó hefur orðið mikil breyting á síðustu árum.

    Á undanförnum árum hafa komið fram margar tækninýjungar sem notaðar hafa verið í þágu fatlaðra. Nýir textasímar fyrir heyrnarlausa, talgervlar, blindraskjáir og prentarar fyrir blinda auðvelda fólki með sértæka fötlun að stunda nám. Einnig er til tölvubúnaður af ýmsu tagi sem nýtist nemendum með verulega fötlun og opnar þeim nýja möguleika til náms í grunn- og framhaldsskólum.
    Í 13 af 28 framhaldsskólum eru nú fatlaðir nemendur. Víða er þar unnið frumkvöðulsstarf í þjónustu við fatlaða sem vísa mun veginn fram á við í málefnum þeirra í framhaldsskólum. Í Menntaskólanum við Hamrahlíð hefur verið tekin upp sérstök þjónusta við líkamlega fatlaða nemendur sem hyggja á stúdentspróf. Mjög brýnt er að bæta enn frekar aðstöðu sem þar hefur verið byggð upp og beinist að því að aðstoða nemendur við námið með öllum færum leiðum og við athafnir daglegs lífs. Ljóst er að aukin þjónusta við fatlaða nemendur í framhaldsskólum er stórt verkefni sem vinna verður markvisst að á næstu árum. Þegar hefur fengist dýrmæt reynsla í skólunum og mikilvægt er að byggja á henni við áframhaldandi þróunarstarf á þessu sviði.
    Í boði er nám innan framhaldsskólans sem sérstaklega er ætlað greindarskertum og seinfærum nemendum. Starfsdeild sem starfað hefur í Iðnskólanum í Reykjavík um árabil er ætluð nemendum sem til skamms tíma hlutu eingöngu þjónustu í sérskólum á borð við Öskjuhlíðarskóla. Þetta starf lofar góðu og er í raun orðið stefnumarkandi í þjónustu við slíka nemendur. Hliðstæðri deild var komið á við Iðnskólann í Hafnarfirði á þessu hausti og fleiri fjölbrautaskólar hafa sett upp svipaðar deildir. Slíkar starfsdeildir eru með námstilboð sem gera nemendum með greindarskerðingu og seinfærum nemendum kleift að afla sér þekkingar sem nauðsynleg er til sjálfstæðrar búsetu á fullorðinsárum, en veita einnig undirbúning fyrir einföld störf á almennum vinnumarkaði. Mikil aukning hefur orðið á námstilboðum af þessu tagi og í nýju frv. til laga um framhaldsskóla mun það fest enn frekar í sessi.