Aðgerðir fyrir ungmenni sem hafa flosnað upp úr skóla

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 15:43:02 (1967)


[15:43]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þegar við ræðum um hvað sé hægt að gera í málefnum ungmenna sem hafa flosnað upp úr skóla þá er Reykjanesskólinn vissulega einn af þeim möguleikum sem nefnd, sem hefur unnið að því máli, hefur bent á. Ég vil einnig nefna það að í þessari úttekt sem síðasti ræðumaður minntist á að nefndin hefði skilað til félmrn. er rætt um vandað framboð verk- og listgreina og það er einmitt eitt af þeim atriðum sem ekki hefur verið unnið að. Það hefur ekki verið sú stefnumótun í gangi að það væri hægt að bjóða fram verk- og listgreinar í meira mæli heldur en verið hefur, heldur hefur samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar, með samdrætti í þessum málum, þá hefur það einmitt bitnað á verk- og listgreinum. Þannig að þrátt fyrir fögur orð þá er sífellt dregið úr því sem gæti talist vera framboð í þessum skólum í verk- og listgreinum.