Aðgerðir fyrir ungmenni sem hafa flosnað upp úr skóla

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 15:47:11 (1969)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Við ræddum fyrir stuttu tillögur nefndarinnar sem falið var að gera tillögur um málefni Reykjanesskóla við Djúp. Ég ætla ekki að endurtaka neitt af því sem ég sagði þá, en það er misskilningur hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni þegar hann segir að það hafi verið ákvörðun menntmrn. eða menntmrh. að slá af tillögur nefndarinnar. Það sagði ég ekki. Ég sagði að ráðuneytið væri ekki tilbúið að fallast á tillögurnar, þær þyrftu frekari athugunar við og væru liður í þeirri stefnumótun sem nú er unnið að af hálfu nefndarinnar sem er að endurskoða bæði grunn- og framhaldsskólalöggjöfina. Það liggur því engin ákvörðun fyrir um að þessum tillögum hafi endanlega verið hafnað. Það er misskilningur.
    Um verk- og listgreinar vil ég aðeins segja að það er fullur skilningur á því að það þarf að auka námsframboðið og það er sérstakt áhersluatriði einmitt í starfi menntastefnunefndarinnar og lögð sérstök áhersla á að kennsla í verk- og listgreinum verði aukin.
    Að lokum um hvernig fylgst verði með þeim unglingum sem flosna upp úr skóla, þá er treyst þar á bætt skráningarkerfi sem ég gat um áðan að væri verið að koma upp í skólunum og fræðsluskrifstofum landsins.