Forvarnir í skólum

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 15:49:22 (1970)

[15:49]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir fsp. sem er að finna á þskj. 247, um forvarnir í skólum. Hún er einnig frá Guðrúnu J. Halldórsdóttur. Mér þykir miður að hún skuli ekki hafa getað mælt fyrir fsp. sjálf, en mun reyna að koma því efni til skila sem hún ber fyrir brjósti. Fyrirspurnin er svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hefur ráðherra hugsað sér að auka forvarnir í skólum til þess að hamla gegn neyslu vímugjafa og vinna móti auknu ofbeldi?``
    Virðulegi forseti. Ég vil enn vísa til þeirrar tillögu sem samþykkt var á Alþingi, þetta eru náskyld mál. Þarna er í rauninni verið að takast á við það á hvern hátt skólarnir eru í stakk búnir til þess að glíma við vanda þeirra sem minnst mega sín í skólakerfinu.
    Ég vil í fyrsta lagi geta þess að forvarnastarf í skólum er mjög mikilvægt til þess að stemma stigu við því að ungmenni flosni upp úr skólum.
    Í öðru lagi getur það haft örlagarík áhrif á samfélagið á hvern hátt tekst til í skólum og ég vil sérstaklega geta þess að það eru ekki mjög góð teikn á lofti um samdrátt í forvarnastarfi í skólum. Má m.a. nefna námsefnið ,,Að ná tökum á tilverunni`` sem hefur verið kennt með býsna góðum árangri á undanförnum árum, einkum í efri bekkjum grunnskóla. En vegna samdráttar í skólakerfinu hafa æ fleiri haldið að sér höndum. Þarna hefur í rauninni þurft að treysta á skilning sveitarfélaga, svo og getu og tíma kennara til þess að takast á við þetta erfiða en mæta kennsluefni. Ég vil einnig minna á tillögu sem hv. þm. Jón Helgason var 1. flm. að á 115. löggjafarþingi, um velferð barna og unglinga. Sú tillaga var samþykkt þann 9. maí 1992 og var um þetta sama efni og hér er spurt um, hvernig verði hægt að grípa til forvarna vegna vaxandi ofbeldis hjá unglingum og aukinni neyslu vímugjafa.