Forvarnir í skólum

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 15:52:30 (1971)


[15:52]

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Samkvæmt aðalnámsskrá grunnskóla frá 1989 ber grunnskólum að sinna fíknivörnum og er sú fræðsla liður í heilbrigðisuppeldi innan skólanna. Í aðalnámsskránni er lögð áhersla á forvarnastarf sem beinist að því að gera einstaklinginn hæfari til þess að lifa í nútímaþjóðfélagi. Þannig er t.d. lögð áhersla á færni í mannlegum samskiptum, að auka sjálfstraust og stuðla að góðri sjálfsmynd hvers og eins svo hann sé betur í stakk búinn til að standast þrýsting frá jafnöldrum um að neyta vímuefna.
    Þá segir einnig í aðalnámsskrá að hlutverk skólans sé að efla félagslegan og siðferðilegan þroska nemenda, m.a. með því að nemendur temji sér samskiptareglur sem byggja á tillitssemi, umhyggju, kærleika og sáttfýsi. Kennsluefni sem byggist á því að styrkja nemendur þannig að þeir taki sjálfir ákvarðanir sem varðar líf þeirra er afar mikilvægur þáttur í forvarnastarfi. Árið 1990 kom út hjá Námsgagnastofnun námsefnið ,,Að ná tökum á tilverunni``, oft kallað Lions Quest, ætlað 12--14 ára nemendum. Námsefnið var þýtt úr ensku og gefið út að tilstuðlan Lions-hreyfingarinnar og menntmrn. og fellur mjög að þeim áherslum sem birtast í aðalnámsskrá. Á vegum Lions og menntmrn. eru haldin sérstök sumarnámskeið fyrir kennara sem hyggjast nota efnið í kennslu. Alls hafa 615 grunnskólakennarar sótt námskeið. Menntmrn. veitir kennurum sem sótt hafa námskeið ýmsa þjónustu auk þess sem það kostar verkefnisstjórn sem lýtur að námsefninu og notkun þess hér á landi. Um 4.500 nemendur í 72 grunnskólum vinna með efnið Lions Quest skólaárið 1993--1994, en efnið er nú notað í yfir 20 þjóðlöndum.
    Styrkur einstaklinga til þess að standast þrýsting annarra byggist að einhverju marki á samskiptahæfni þeirra. Kennsluefni sem tekur slíkt til umfjöllunar er vel fallið til forvarnastarfs. Á síðasta ári gaf Námsgagnastofnun út námsefnið ,,Samvera`` eftir Sigrúnu Aðalbjarnardóttur og Árnýju Elíasdóttur, byggt á rannsóknum Sigrúnar á samskiptahæfni barna. Efnið hentar 7--12 ára börnum. Eitt af markmiðum þess er að hlúa að samskiptahæfni skólabarna, þ.e. hæfni þeirra til að setja sig í spor annarra og rækta með þeim tillitssemi og virðingu bæði fyrir náunganum og sjálfum sér. Í námsefninu ,,Samvera`` og ,,Að ná tökum á tilverunni`` er lögð rík áhersla á þátttöku foreldra í námi barna sinna og samvinnu þeirra við skólann. Það er og grundvallaratriði í aðalnámsskrá frá 1989 að fíknivarnir í grunnskóla skuli byggja á samstarfi heimila og skóla. Agi, reglur, takmarkanir, almennir mannasiðir, góð dómgreind og náungakærleikur svo að eitthvað sé nefnt eru þættir mannlegrar tilveru sem eiga að hafa vettvang innan fjölskyldunnar. Skólinn einn og sér getur aldrei komið í stað heimilanna hvað þetta varðar.
    Mikilvægt er að leggja enn frekari áherslu á uppbyggingu jákvæðrar sjálfsmyndar nemenda innan skólakerfisins og að auka samskiptahæfni grunnskólabarna. Slíkt er ógerningur án náins samstarfs við heimilin.
    Nefnd um mótun menntastefnu sem nú vinnur að lokaskýrslu um endurskoðun skólalöggjafarinnar hefur lagt áherslu á að efla samstarf heimila og skóla. Menntmrn. hefur þegar átt gott samstarf við foreldrasamtök í landinu, en betur má ef duga skal. Aukið samstarf og bættur skilningur milli heimila og skóla er eitt stærsta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir í málefnum grunnskólans. Það er afar vandasamt að ala upp fólk til flókins samfélags tæknialdar og íslenskri þjóð veitir ekki af að sameina krafta allra ábyrgra aðila til að leysa það verkefni sem best úr hendi.