Snjómokstur

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 16:07:00 (1975)


[16:07]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Hæstv. samgrh. boðar hér endurskoðun á snjómokstursreglum síðar í vetur. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra að taka þar stórt á, því snjór er fyrirstaða sem kemur vegfarendum jafnilla sem annað og hefur auðvitað kostnað í för með sér. En það er hin raunverulega þjónusta sem máli skiptir, að leiðirnar séu opnar.
    Sú bragarbót er boðuð frá því sem var í fyrravetur að Vopnafjarðarheiði verði opnuð í tengslum við mokstur um Möðrudalsöræfi og það er vissulega vel.
    Varðandi aðrar leiðir á Austurlandi þá er Breiðdalsheiði einn þröskuldurinn. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til þess að marka um það reglur sem rýmki frá núverandi horfi, þannig að þessi fjallvegur verði opinn þegar yfirleitt eru ekki mikil snjóþyngsli. Eins og oft háttar til má með litlum tilkostnaði opna þann fjallveg. Síðan eru það Fjarðarheiði og um Oddsskarð sem kallað er. Þar liggur það nú fyrir eftir miklar vegabætur að unnt er að halda þessum leiðum opnum alla daga vikunnar með litlu meiri tilkostnaði heldur en það er að opna þar þrisvar í viku og af því hljóta menn að draga ályktanir. Ég vona að það endurspeglist í ákvörðunum ráðherrans síðar í vetur.