Snjómokstur

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 16:08:30 (1976)


[16:08]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svörin, en vil koma aðeins nánar að nokkrum atriðum í svörum hans. Ég vil hvetja til þess varðandi endurskoðun snjómokstursreglna að þeim verði hraðað svo að þær nýju reglur taki gildi að vetri en ekki að sumri. Það er til lítils gagns ef þessar reglur taka ekki gildi fyrr en einhvern tíma seinni partinn í vetur, þannig að það er nauðsynlegt að hraða þeirri endurskoðun sem er í gangi og er vel að hún er í gangi.
    Ég vil nefna það sérstaklega að einmitt opnunin um Möðrudalsöræfi í fyrravetur, sem var góðra gjalda verð og er mikill fengur að, kallar auðvitað á kröfur um opnun t.d. á fjallvegi eins og Breiðdalsheiði, sem styttir vegalengd milli Egilsstaða og Hafnar um 60 km. Auðvitað kallar opnun á vegi eins og Vopnafjarðarheiði einnig á veginn um Hellisheiði, sem er miklu styttri, styttir leiðina um eina 80 km. Það kemur auðvitað krafa um að opna þessar stuttu leiðir sem stytta ferðatímann svo verulega. Þá er ég að tala um í venjulegu árferði eða þegar snjóalög eru ekki mjög mikil.
    Ég vil einnig minna á það sem kom fram í upphafsorðum mínum að það hafa orðið miklar vegabætur, bæði á Fjarðarheiði og Oddsskarði, sem kallar auðvitað á endurskoðun þessara snjómokstursreglna og endurmat, því það er ekki um sama hlut að ræða núna og var fyrir tveimur árum, sem betur fer.