Útboð í landpóstaþjónustu

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 16:22:36 (1982)

[16:22]
     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Í september sl. fór fram útboð á landspóstaþjónustu í Barðastrandar- og Rauðasandshreppum. Útboðið var á vegum Pósts og síma í Vestfjarðaumdæmi. Útboðsfrestur var til 18. okt. sl. og voru tilboðin sem bárust opnuð þann sama dag. Í útboðslýsingu segir að gera skuli samning til tveggja ára frá 1. des. 1993 til 30. nóv. 1995 að báðum dögum meðtöldum.
    Þegar tilboðin voru opnuð kom í ljós að lægsta tilboð í verkið átti Sigríður Sigurðardóttir til heimilis á Patreksfirði. Tilboðið hljóðaði upp á 5 millj. 720 þús. kr. Næstlægsta tilboð átti Guðni Jónasson í

Miðgarði í Örlygshöfn og var það 300 þús. kr. hærra.
    Nokkrum dögum eftir opnun tilboðanna hafði umdæmisstjóri Pósts og síma á Ísafirði samband við lægstbjóðanda og spyr hvernig hún hafi hugsað sér að leysa póstdreifingu á ófærðartímum og svarar hún því að hún hafi tryggt sér aðgang að snjósleðum ef á þurfi að halda. Hann spurði um afleysingafólk, ef um forföll væri að ræða, og hún kvað eiginmann sinn mundi leysa það. Þriðja athugasemd umdæmisstjórans var að akstursleiðirnar væru ekki við hæfi kvenfólks. Þess má geta að tilboðsgjafinn sem um ræðir er fædd og uppalin á þessum slóðum og þekkir því vegina betur en flestir aðrir.
    Í lok október fær síðan lægstbjóðandi það svar að hennar tilboði hafi verið hafnað og hærra tilboðinu tekið. Engar skýringar eru gefnar í bréfinu, en í samtali lægstbjóðanda við umdæmisstjóra Pósts og síma á Ísafirði, þegar lægstbjóðandi bað um skýringar, þá hafði hann uppi efasemdir um það að hún gæti unnið verkið þar sem hún væri kona. Í útboðsgögnum er ekki að finna ákvæði um kynferði tilboðsgjafa, enda með öllu ólöglegt að mismuna fólki á þann hátt.
    Nú vil ég að það komi skýrt fram að ég tel ekki vera neitt athugavert við þann aðila sem í þessu tilfelli var svo heppinn að tilboði hans var tekið, annað en það að hann er karlmaður. Hann getur vafalaust leyst verkið vel af hendi. En í tilefni af þessu beini ég þeirri fyrirspurn til samgrh.: Hvers vegna var ekki tekið lægsta tilboði í landpóstaþjónustu við Barðastrandar- og Rauðasandshreppa?