Landgræðslustörf bænda

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 16:41:57 (1988)


[16:41]
     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég tel ástæðu til þess að þakka hæstv. landbrh. fyrir þessi svör og fyrir það sem gert hefur verið, því að þetta finnst mér vera jákvætt og ástæða til þess að þakka það. Þarna hafa bændur fengið ný verkefni sem svo sannarlega veitir ekki af í sveitum landsins með samdrætti í hefðbundnum landbúnaði. En eins og kom fram í hans svari þá er komin fram ósk frá Landgræðslunni um aukið fjármagn á næsta ári til þess að geta fjölgað þeim bændum sem vinna að þessum störfum í samvinnu við Landgræðsluna. Farið er fram á 18 millj. til viðbótar, ef ég heyrði rétt, í fjárlögum næsta árs, þannig að hægt sé að fjölga bændum sem taka þátt. Og óskir hafa komið fram um það að fjölga þeim allt að því um helming, þannig að áhuginn er alveg gífurlegur hjá bændum á þessu málefni. Þetta tel ég líka vera mjög áhugavert og jákvætt fyrir uppgræðslu- og landgræðslustörf almennt í landinu auk þess, eins og ég nefndi í minni fyrri ræðu, hvað þetta hefur jákvæð áhrif í þjóðfélaginu gagnvart bændum og bætir ímynd þeirra og eflir sjálfbæra þróun í landbúnaði. Mér finnst því að það eina sem ég gæti kannski ítrekað hér í minni seinni ræðu, gagnvart hæstv. ráðherra, væri það hvort hann muni ekki beita sér fyrir því að aukið fjármagn fáist á fjárlögum þannig að fleiri bændur geti tekið þátt í þessum uppgræðslustörfum. Og að allra síðustu þetta, ég heyrði hæstv. ráðherra segja það í útvarpsviðtali í fyrra að hann teldi þetta vera gæluverkefni, þessi uppgræðslustörf. Ég er sannfærð um að þar hefur hann verið að tala af fljótfærni og gef honum tækifæri til þess að taka þau orð aftur hér.