Fundur í Þingvallabænum 1. desember

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 13:39:53 (1999)


[13:39]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Embættisbústaðir á Íslandi eru mjög margir og yfirleitt er það ekki dregið í efa að heimilt sé að halda þar fundi. Ég hygg að sé horft á jafnræðisreglu sem samþykkt var í stjórnsýslulögum hljóti það að vera svo að alla embættismenn á Íslandi yrði að leggja að jöfnu hvað þetta snertir.
    Nú er það svo að fundafrelsi er ein af grundvallarreglum lýðræðisins og mér finnst að það sé ekki hægt að jafna því saman hvort embættismaður leyfir fund á sínu heimili eða hvort menn taki Stjórnarráðið sem slíkt sem opinberan fundarstað fyrir stjórnmálaflokk. Ég hygg að um þetta megi að sjálfsögðu deila eins og margt fleira, en ég vildi engu að síður koma þessum skoðunum mínum á framfæri.