Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 13:47:11 (2003)

[13:47]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. sem er á þskj. 290, þetta er 251. mál þingsins og fjallar um skattamál. Frv. þetta heyrir undir þann ættbálk sem kenndur er við bandorma, en í frv. er að finna breytingar á ýmsum skattalögum, breytingar sem eru fluttar í takt við fjárlagafrv., en enn fremur er að finna í frv. ýmsar aðrar breytingar sem teljast vera lagfæringar á skattalögum.
    Það eru einkum tvær ástæður fyrir því að þetta frv. er flutt með þessu sniði. Annars vegar reynist nauðsynlegt að flytja breytingar á ýmsum skattalögum vegna yfirlýsingar ríkisstjórnar sem gefin var út í vor þegar samningar náðust á hinum almenna vinnumarkaði og einnig vegna yfirlýsingar sem flutt var þegar kjarasamningar voru ítrekaðir og ákveðið að þeir héldu út samningstímabilið nú fyrr í þessum mánuði. Hins vegar er ástæðan fyrir þessum tillöguflutningi sú að verulegar breytingar voru gerðar fyrir ári síðan á tekjustofnalögum sveitarfélaga og skattalögum til þess að leggja aðstöðugjaldið niður. Nú er gerð tillaga um viðvarandi breytingu sem felur það í sér að aðstöðugjaldið er fellt niður --- alveg, ekki til bráðabirgða --- en í staðinn eiga sér stað tilfærslur á sköttum og tekjum, tekjustofnum milli ríkis og sveitarfélaga eins og nánar er vikið að í greinargerð með þessu frv. Það hefur raunar verið rætt áður á hinu háa Alþingi þegar til umræðu var frv. um tekjustofna sveitarfélaga.
    Það kann að vekja nokkra athygli þegar sagt er að verði þetta frv. að lögum megi gera ráð fyrir því að áhrif frv. verði á næsta ári skattalækkun upp á rúmar 1.200 millj. kr. þannig að samþykkt frv. þýðir að ríkissjóður verður af tekjum á næsta ári upp á um það bil 1.230 millj. kr. og meira þegar um heilsársáhrif er að ræða.
    Ég mun fyrst gera grein fyrir meginatriðum frv. og þeim breytingum sem tengjast kjarasamningum. Meginefni þessa frv. eru breytingar sem tengjast yfirlýsingum ríkisstjórnar vegna kjarasamninganna í maí sl. Veigamesta breytingin er tillaga um lækkun virðisaukaskatts af matvælum úr 24,5% í 14% frá næstu áramótum. Þessi breyting skerðir tekjur ríkissjóðs um 3,1 milljarð miðað við heils árs innheimtu en um 2,6 milljarða árið 1994.
    Til að vega að hluta á móti þessu tekjutapi í fjárlagafrv. er annars vegar er gert ráð fyrir að leggja sérstakan skatt á vaxtatekjur einstaklinga frá miðju næsta ári. Þessi skattlagning var að vísu talin skila litlum tekjum á því ári eða um 150 millj. kr. en árið 1995 voru skilin talin geta orðið 500--600 millj. kr. Hins vegar var gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. að lagt yrði 0,35% aukatryggingagjald eða viðbótartryggingagjald á fyrirtæki og einnig 0,5% atvinnutryggingagjald á einstaklinga. Þessi gjaldtaka var einkum ætluð til að styrkja fjárhag Atvinnuleysistryggingasjóðs. Samanlagt var talið að þessi gjaldtaka gæti skilað ríkissjóði um 1.600 millj. kr. á heilu ári, en 1.400 millj. kr. árið 1994. Til þess að draga úr áhrifum atvinnutryggingagjaldsins á afkomu tekjulægri barnafjölskyldna var einnig áformað að hækka greiðslur barnabótaauka um 150 millj. kr.
    Þegar þetta tvennt var lagt saman var talið að skatttekjur ríkissjóðs mundu lækka um 1.200 millj. kr. vegna lækkunar virðisaukaskatts af matvælum þrátt fyrir þessa viðbótartekjuöflun eins og fram kemur í greinargerð með þessu frv.
    Af hálfu launanefndar ASÍ og vinnuveitenda komu fram athugasemdir við nokkra þætti fjárlagafrv. sem ekki voru taldir samrýmast yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá í maí. Í yfirlýsingu forsrh. frá 5. nóv. sl. kemur fram að ríkisstjórnin hafi vegna athugasemda launanefndar ákveðið að breyta í nokkrum atriðum fyrri áformum um tekjuöflun til að vega upp á móti tekjutapi vegna lækkunar virðisaukaskatts af matvælum.
    Þar með er horfið frá áformum um álagningu sérstaks 0,5% atvinnutryggingagjalds á einstaklinga en í staðinn er lögð til hækkun á tekjuskatti einstaklinga um 0,35% og bifreiðagjaldi um þriðjung, heldur meira á þyngri bifreiðum en minna á hinum léttari. Jafnframt er gert ráð fyrir að lækka vörugjöld á nokkrum vöruflokkum til að koma í veg fyrir að samkeppnisstaða innlendra aðila raskist vegna röskunar virðisaukaskatts af matvælum.
    Í viðræðum milli ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins var lögð áhersla á að veruleg lækkun vaxta væri mikilvægasta aðgerðin til að örva atvinnulífið. Í lok október 1993 kynnti ríkisstjórnin viðamiklar aðgerðir til þess að stuðla að lækkun vaxta. Þessar aðgerðir hafa nú þegar skilað þeim árangri að raunvextir hafa lækkað um 2%.
    Brýnt er að raska ekki þeim forsendum sem vaxtalækkun byggir á. Þar skiptir staða ríkisfjármála og lánsfjárþörf ríkisins miklu máli. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í vaxtamálum og þær breytingar á sviði ríkisfjármála sem ríkisstjórnin hefur ákveðið eru reistar á þeirri forsendu að halli á ríkissjóði á næsta ári verði ekki meiri en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv.
    Í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sl. vor um upptöku sérstaks vaxtaskatts var skipuð nefnd til að útfæra nánar álagninguna og undirbúa framkvæmdina. Nefndin skilaði áliti sínu og drögum að frv. um miðjan október 1993 miðað við að 10% vaxtaskattur yrði tekinn upp frá miðju næsta ári. Ekki var talið fært að taka hann upp fyrr því að framkvæmda- og innheimtuaðilar þyrftu góðan undirbúningstíma.
    Í kjölfar þeirra aðgerða sem ríkisstjórn og Seðlabanki hafa beitt sér fyrir til þess að lækka vexti hafa komið fram áhyggjur af hálfu viðskiptabanka og Seðlabanka um að áformuð gildistaka vaxtaskatts á næsta ári geti jafnvel orðið til þess að hækka vexti. Kemur þetta fram í bréfi Seðlabankans sem skrifað var ríkisstjórninni af því tilefni. Ríkisstjórnin hefur af þessu tilefni ákveðið að fresta framlagningu frv. um vaxtaskatt og mun á næstu mánuðum skoða framkvæmd og útfærslu þessarar skattlagningar nánar.
    Enda þótt þær aðgerðir sem kynntar eru í þessu frv. feli í sér nokkur frávik frá þeim áformum sem kynnt voru í fjárlagafrv. er heildarmarkmið niðurstöðu fjárlaga óbreytt.
    Í nóvember 1992 gripu stjórnvöld til umfangsmikilla efnahagsaðgerða til að styrkja stöðu íslensks atvinnulífs, einkum gagnvart vaxandi erlendri samkeppni, hamla gegn auknu atvinnuleysi, skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta, aukningu arðbærrar fjárfestingar og nýsköpun. Þannig hefur verið leitast við að leggja

grunn að hagvexti á næstu árum.
    Veigamikill þáttur í efnahagsaðgerðunum var niðurfelling aðstöðugjalds, en það hafði um langt árabil veikt samkeppnisaðstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum. Niðurfelling aðstöðugjalds hafði hins mikil áhrif á fjárhag sveitarfélaga og kallaði á heildarendurskoðun á tekjustofnum þeirra. Var talið nauðsynlegt að undirbúa þá endurskoðun vandlega og leita varanlegra lausna á tekjuöflun þeirra.
    Til bráðabirgða var gripið til þess ráðs að tryggja sveitarfélögunum svipaðar tekjur og þau hefðu haft af álagningu aðstöðugjalds, með aukinni hlutdeild þeirra í tekjuskatti einstaklinga. Samkvæmt fjárlögum ársins 1993 var þessi fjárhæð talin vera um 4 milljarðar kr. og virtist sú áætlun ganga eftir nokkurn veginn. Þessi millifærsla til sveitarfélaga kallar á sérstaka tekjuöflun. Þannig var tekjuskattshlutfall einstaklinga hækkað til bráðabirgða um 1,5 prósentustig úr 32,8% í 34,3%. Jafnframt var skipuð nefnd til að gera tillögur um varanlega lausn á tekjuöflun sveitarfélaga í stað aðstöðugjaldsins.
    Sú nefnd skilaði áliti til félmrh. en hún hefur lagt fram frv. til breytinga á tekjustofnalögum og það frv. er nú til meðferðar í nefnd. Breytingarnar snerta tekjuhlið ríkissjóðs með þrennum hætti:
    Í fyrsta lagi leggur nefndin til að hámarksálagning útsvars hækki, en samhliða því lækki hlutur ríkisins í tekjuskatti einstaklinga.
    Í öðru lagi er gerð tillaga um hækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði. Jafnframt verði hætt að leggja á skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði sem hefur runnið í ríkissjóð og með því skapað aukið svigrúm fyrir álagningu sveitarfélaga á húsnæði sem eins konar fasteignaskatta.
    Í þriðja lagi leggur nefndin til að landsútsvarið verði fellt niður, en það er að stærstum hluta tekjustofn Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að tekjutapi Jöfnunarsjóðs verði mætt með beinu framlagi úr ríkissjóði sem fjármagnað verði með auknum tekjum frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og hækkun bensíngjalds.
    Frekar er gerð grein fyrir þessum áformum öllum í greinargerð með frv. og er tafla sýnd á bls. 16 í frv.
    Í því frv. sem hér er til umræðu er gert ráð fyrir tvenns konar meginbreytingum á tekjuskatti einstaklinga:
    Í fyrsta lagi er breyting á skatthlutfallinu; annars vegar er 1,5 prósentustiga lækkun í tengslum við breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga og hins vegar 0,35% hækkun til að vega upp á móti lækkun virðisaukaskatts af matvælum í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar nú í nóvember. Samkvæmt þessu lækkar skatthlutfallið um 1,15 prósentustig þegar þessar tvær tölur eru saman dregnar.
    Í öðru lagi eru breytingar á ákvæðum tekjuskattslaganna um greiðslur vaxtabóta en um þær mun ég fjalla frekar hér á eftir. Þar er um nánari útfærslu á tillögum að ræða, en í lögum sem sett voru fyrir um það bil ári síðan voru gerðar breytingar á vaxtabótunum og þær skertar að nokkru leyti. Hér er eingöngu um það að ræða að gera tillögur innan þess marks en ekki um frekari skerðingar að ræða.
    Þá eru lagðar til ýmsar tæknilegar lagfæringar á lögunum og eru þær skýrðar í athugasemdum við einstakar greinar og mun ég lítið fjalla um þær breytingar en tel ég að nefndin muni að sjálfsögðu ræða þær ítarlega.
    Í desember 1992 samþykkti Alþingi breytingar á gildandi vaxtabótakerfi eins og ég sagði áðan til þess að hamla gegn frekari útgjaldaaukningu vegna vaxtabóta næstu árin. Sú breyting leiðir til 400 millj. kr. lækkunar útgjalda til vaxtabóta á næsta ári.
    Sú nefnd sem fjallaði um þessi mál hefur skilað áliti og þær breytingar á vaxtabótum sem í frv. felast byggjast í meginatriðum á tillögum nefndarinnar. Þær eru þríþættar. Í fyrsta lagi eru tillögur um nýjar viðmiðunarreglur, í öðru lagi um ýmsar lagfæringar á lögunum til einföldunar og samræmingar og í þriðja lagi er tillaga um bætta upplýsingagjöf lánastofnana. Vegna afturvirknisjónarmiða er ekki gert ráð fyrir að þessar tillögur taki gildi fyrr en við álagningu 1995.
    Þær breytingar sem felast í þessu frv. gera ekki ráð fyrir frekari lækkun útgjalda, eins og ég áður sagði, að öðru leyti en því sem leiða kann af skilvirkara eftirliti og einfaldari framkvæmd, en það getur vissulega sparað ríkissjóði eitthvað því að öllum er ljóst að í núverandi vaxtabótakerfi er mjög örðugt að koma við eftirliti með því hvort stofninn, vextirnir sem lagðir eru til grundvallar eru til komnir vegna öflunar húsnæðis eða ekki.
    Markmiðið með þessum breytingum á vaxtabótakerfinu er að gera stuðning ríkisins við húsnæðiskaupendur markvissari um leið og tekjujöfnun kerfisins er aukin. Þannig hækka vaxtabætur einhleypra og einstæðra foreldra þegar á heildina er litið. Hækkunin kemur einkum fram í neðstu tekjubilunum. Vaxtabætur hjóna lækka að meðaltali en þó þannig að á neðstu tekjubilunum haldast þær nær óbreyttar en lækka talsvert hjá þeim sem hæstar hafa tekjurnar.
    Eins og áður hefur komið fram í mínu máli var lækkun virðisaukaskatts af matvælum úr 24,5% í 14% einn veigamesti þáttur í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninganna sl. vor. Lækkunin er talin kosta ríkissjóð 2,6 milljarða kr. frá 1994 en 3,1 milljarð miðað við innheimtu á heilu ári. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1994 lækka tekjur af virðisaukaskatti reyndar um 3,2 milljarða kr., en á móti var gert ráð fyrir hækkun vörugjalds á sælgæti og gosdrykki, um 600 millj. kr. Nú er hins vegar horfið frá því ráði en að því stefnt að virðisaukaskattur á sælgæti og gosdrykki verði óbreyttur, eða 24,5%. Jafnframt er áformað að lækka vörugjald af þessum vörum um 7%.

    Þegar á heildina er litið er talið að lækkun virðisaukaskatts af matvælum í tengslum við kjarasamningana sl. vor lækki vísitölu framfærslukostnaðar um rúmlega 1%. Um fjórðungur þessarar lækkunar kom fram þegar um mitt þetta ár, 1993, í kjölfar aukinna niðurgreiðslna á mjólkurvörum, svínakjöti, kjúklingum og eggjum. Samkvæmt upplýsingum úr neyslukönnun Hagstofu Íslands verja barnafjölskyldur að jafnaði um fimmtungi tekna sinna til kaupa á matvælum. Þetta hlutfall er hins vegar nokkuð hærra fyrir tekjulægri fjölskyldur. Hjá einstaklingum er hlutfallið talið vera nálægt 15% að meðaltali.
    Samhliða lækkun virðisaukaskatts af matvælum er gert ráð fyrir að þær endurgreiðslur/niðurgreiðslur vegna matvæla, sem nú eru í gildi, falli niður. Þessar greiðslur hafa miðast við að með þeim væri virðisaukaskattur í raun greiddur niður í 14%. Þess vegna munu þessar tilteknu vörur ekki lækka í verði um áramótin. Sérstakar reglur hafa gilt um fisk og hafa endurgreiðslurnar verið mun meiri en gilt hefur almennt um mjólkur- og kjötvörur. Þess vegna má búast við að fiskur geti hækkað þegar endurgreiðslurnar eru felldar niður. Í frv. er hins vegar gert ráð fyrir að niðurgreiðslurnar lækki í áföngum á næsta ári til þess að dreifa þessum áhrifum yfir árið. Við teljum reyndar mjög óheppilegt að hverfa alveg frá endurgreiðslunum einmitt um áramót, en þá stendur oft þannig á að er lítið um fisk og allir vita að fiskur er á markaðsverði og það gæti þess vegna komið óheppilega út í verðlagi ef þessi breyting ætti sér stað nákvæmlega um áramótin.
    Það er ljóst að lækkun virðisaukaskatts á matvælum hefur í för með sér ýmsa erfiðleika við framkvæmd og eftirlit. Breytingarnar hafa jafnframt í för með sér töluverðan kostnað vegna undirbúnings, kynningar og útgáfustarfsemi, breytinga á tölvukerfum, starfsmanna- og launakostnaðar auk beins og óbeins kostnaðar við eftirlit og framkvæmd. Framkvæmd og eftirlit með fyrirhugaðri breytingu á virðisaukaskatti má ekki koma niður á framkvæmd og eftirliti skattyfirvalda með öðrum sköttum og gjöldum, svo sem tekjuskatti, staðgreiðslu, tryggingagjaldi og vörugjaldi. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1994 er ekki gert ráð fyrir kostnaði vegna breytinga á virðisaukaskatti en þess getið að málið sé til skoðunar. Nauðsynlegt verður að leita fjárheimildar á árinu 1994 til að standa straum af kostnaði við fyrirhugaðar breytingar og að því er unnið nú í ráðuneytinu þegar ljóst er að búast má við þessari breytingu nú um næstu áramót. Gera má ráð fyrir að nokkur kostnaður hljótist af auknu eftirliti sem nauðsynlegt er vegna þessarar breytingar.
    Víkjum nú nokkrum orðum að tryggingagjaldinu en samkvæmt gildandi lögum greiða atvinnurekendur sérstakt tryggingagjald í ríkissjóð. Gjaldstofninn er heildarlaunagreiðslur þar með talið framlag þeirra í lífeyrissjóð og reiknað endurgjald í einstaklingsrekstri. Gjaldið er í tveimur þrepum. Það eru 2,5% í landbúnaði, sjávarútvegi og iðnaði, en 6% í öðrum greinum nema frá áramótum. Þá lækkar tryggingagjaldið í ferðaþjónustunni eins og kunnugt er.
    Í þessu frv. er gert ráð fyrir að tryggingagjaldið hækki um 0,35%, þ.e. í 2,85% í lægri flokki og upp í 6,35% í öðrum atvinnugreinum. Talið er að gjaldstofn tryggingagjalds verði í kringum 200 milljarðar kr. á árinu 1994. Þar af nema launagreiðslur ríkissjóðs að meðtöldum B-hluta fyrirtækjum 40 milljörðum kr. Samanlagt er talið að hækkun tryggingagjaldsins skili ríkissjóði um 560 millj. kr. á heilu ári. Þar af innheimtast um 550 millj. á næsta ári.
    Í frv. er einnig gerð tillaga um að þær reglur sem gilda um ákvörðun gjaldstofns til útreiknings tryggingagjalds vegna vinnu manns við eigin rekstur verði skýrari. M.a. er lagt til að sett verði lágmark fyrir þau laun sem tryggingagjald reiknast af. Þetta er gert m.a. vegna þess að nýlega hefur fallið dómur og til þess að skapa ekki réttaróvissu þótti rétt að setja lágmark ef um fulla vinnu er að ræða.
    Samkvæmt gildandi lögum um tekjustofna sveitarfélaga greiða olíufélög 1,3% landsútsvar af heildarsölu olíu og olíuvara annarri en gasolíu og svartolíu. Þessi álagning er talin nema nálægt 140 millj. kr. á næsta ári að öðru óbreyttu. Áður hefur komið fram í ræðu minni að í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir að landsútsvarið félli niður á næsta ári en á móti hækkaði vörugjald af bensíni úr 90% í 97%. Þetta er hluti af tekjuöflun ríkisins til að standa undir framlagi úr ríkissjóði til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Áhrif þess á verðlag eru talin óveruleg ef nokkur þar sem gjaldið kemur í stað niðurfellingar landsútsvars og fyrirtækin ættu þess vegna að standa jafnt eftir sem áður.
    Eins og áður hefur komi fram í minni ræðu er lagt til að bifreiðagjald verði hækkað sérstaklega, m.a. til að fjármagna lækkun virðisaukaskatts af matvælum og á sú hækkun að skila ríkissjóði um 450 millj. kr. í viðbótartekjur. Gert er ráð fyrir að grunngjaldið hækki heldur minna, eða um tæplega 30%, úr 4,35 kr. á hvert kg í 5,62 kr. miðað við hálft ár. Álagið er hins vegar hækkað úr 50% í 65% þannig að gjald fyrir hvert kg umfram 1000 kg hækkar um rúmlega 40%. Að meðaltali er hækkunin tæplega 33% sem svarar til svona 2.500 kr. á meðalbifreið.
    Nokkrar umræður hafa orðið upp á síðkastið um verðlagsáhrif af þessu, en í greinargerð með frv. er því haldið fram að verðlagsáhrifin séu hverfandi vegna þess að niður falli ákveðið tryggingagjald, þ.e. slysatryggingagjald vegna ökutækja. Þetta hefur verið vefengt m.a. af Félagi ísl. bifreiðaeigenda. Við nánari skoðun málsins kemur í ljós sem sagt er í frv. að um er að ræða tvöfalda innheimtu á þessu ári þannig að hluti af þessum kostnaði bifreiðaeigenda fellur niður en gera má þó ráð fyrir að eftir sitji um 1.000 kr. eða þar um bil, eða 40% á ári, sem hefur auðvitað áhrif í verðlagi og áhrif á útgjöld fjölskyldna, en þó eru þau útgjöld mjög óvís því að þessi þjónusta er flutt yfir til tryggingafélaganna. Það er þó rétt að það komi fram að um er að ræða upphæðir sem verulega ganga upp á móti þeirri hækkun sem bifreiðagjaldið hækkar um.

    Í yfirlýsingu stjórnvalda sem gefin var í tengslum við gerð kjarasamninga sl. vor kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir að gosdrykkir og sælgæti lækki í verði til jafns við aðrar matvörur, en þess verður þó gætt að raska samkeppnisstöðu þeirra sem minnst.
    Í fjárlagafrv. var miðað við að virðisaukaskattur á gosdrykkjum, ávaxtasafa, sælgæti og fleiru yrði lækkaður í 14% en á móti kæmi samsvarandi hækkun á vörugjaldi þannig að verðið héldist sem næst óbreytt. Nú er lagt til að samsvarandi áhrifum verði náð með því að halda virðisaukaskatti á þessum vörum óbreyttum. Á móti lækka vörugjöld á þessar vörur nokkuð. Þá eru lögð vörugjöld á nokkrar samkeppnisvörur sem verða í lægra þrepi virðisaukasatts og þannig dregið úr áhrifum af hækkun virðisaukaskatts á verð þeirra.
    Þessar vörur eru taldar upp í frv. og má þar nefna að í frv. er lagt til að vörugjald á gosdrykkjum lækki úr 25% í 18% en þessar vörur verði í hærra þrepi virðisaukaskatts. Virðisaukaskattur af kaffi og te lækkar í 14% en hins vegar verður 6% vörugjald lagt á þá flokka og aðra skylda flokka. Það sama gildir um sælgæti en eins og allir vita er mjög lítill munur í sjálfu sér á því og erfitt að finna landamerki á milli sælgætis annars vegar og ýmiss konar sætinda og þess háttar matvöru, t.d. sætabrauðs ýmiss konar, sem fæst í bakaríum hins vegar. Þetta er gamalkunnugt vandamál úr fjmrn.
    Lækkun vörugjalda kostar ríkissjóð að óbreyttu um 370 millj. kr. Á móti vegur fyrirhuguð álagning 6% vörugjalds sem skilar um 110 millj. kr. Auk þess er gert ráð fyrir að hækka 9%-vörugjaldsflokkinn upp í 10%, en í þessum flokki eru fyrst og fremst snyrtivörur og byggingarvörur. Þessi hækkun skilar um 75 millj. kr. tekjuauka. Auk þessara breytinga er lagt til að lagðir verði tollar á feiti og olíur, eftir því sem heimilt er samkvæmt gildandi GATT-samningum. --- Ég vil biðja hv. nefndarmenn í efh.- og viðskn. að kanna það mál vel því að það skiptir auðvitað miklu máli að hér sé farið að með þeim hætti að við gerum þetta innan viðkomandi heimilda. --- Tollarnir verða almennt á bilinu 7--18% nema 70--90% á smjörlíki en þá er einnig gert ráð fyrir að jöfnunartollur sem gildir nú á smjörlíki verði niður felldur en þessi tollur komi í staðinn. Áætlaðar viðbótartekjur vegna þessara breytinga eru taldar um 20 millj. kr. Þegar upp er staðið lækka tekjur ríkissjóðs um 165 millj. kr. vegna þessara breytinga. Verðlagsáhrifin verða í samræmi við þetta, þ.e. heldur til lækkunar.
    Ég mun ekki, virðulegi forseti, fara yfir einstök atriði í frv. heldur taka hér stærstu atriðin. Þó vil ég benda á að gert er ráð fyrir því að sérstakt skatthlutfall verði á félögum með ótakmarkaða ábyrgð þótt almenna reglan sé sú að atvinnurekstur falli í 33% skatthlutfallið. Þetta er gert vegna þess vanda sem af því hlýst þegar skatthlutfallið er lækkað af atvinnurekstri en ekki af einstaklingum því að margvíslegur rekstur er í höndum einstaklinga og ekki sjáanlegt að hægt sé að gera mun á skatthlutfalli þeirra sem reka fyrirtæki sín í einkarekstursformi og hinna sem nota annaðhvort sameignarfélagsformið eða samlagsformið þegar um er að ræða samlagsfélög og a.m.k. einn eigenda hefur ótakmarkaða ábyrgð. Þetta var nokkuð vandasamt en að ráði endurskoðenda var það þrautalendingin að fara þessa leið.
    Ýmislegt fleira mætti tína til úr frv. sem eru leiðréttingaratriði, tæknileg atriði, en ég hvet hv. nefnd til þess að kanna þau og sé ekki ástæðu til þess að gera mikið mál úr þeim hér við 1. umr. þessa máls.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, aðeins geta þess sem ég sagði í upphafi að þessar breytingar eru fluttar til þess að uppfylla loforð ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga annars vegar og einnig sem hluta af þeirri miklu breytingu sem varð fyrir ári síðan þegar skattar voru færðir af fyrirtækjum og yfir á heimili og fólk í landinu. Tilgangurinn með þeirri breytingu var að styrkja samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, að koma í veg fyrir aukið atvinnuleysi og freista þess að efla atvinnulífið á þann veg að við kæmumst með hægari móti út úr þeim efnahagserfiðleikum sem við höfum lent í. Þetta frv. fyllir út í þá mynd og til viðbótar gerist það að skattar munu á næsta ári lækka mjög verulega eða um rúmar 1.200 millj. kr. ( SJS: Það á alltaf að lækka skattana.) ( SvG: . . .  það borgi sig að tala lengur.) Vegna frammíkalls hv. fundarmanna sem eru nýkomnir af fundi Alþb. og hafa þar í sinni siðbót fundið útflutningsleiðina, þá vil ég taka það sérstaklega fram að ég hlakka til þess þegar þeir koma hér í ræðustólinn núna, eftir að hafa haldið hverja ræðuna á fætur annarri í fyrra og sagt að tekjuskatturinn væri að hækka og skattar væru að hækka, og halda því fram að þessir sömu skattar séu að lækka því að ef þeir vilja vera samkvæmir sjálfum sér, þá hljóta þeir að láta það koma mjög skýrlega fram í sínu máli.
    Að svo mæltu, virðulegi forseti, legg ég til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.