Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 14:18:00 (2004)

[14:18]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Hæstv. fjmrh. hefur mælt fyrir þessu frv. og ræddi um það að rétt væri fyrir efh.- og viðskn. að taka ýmis atriði þess til sérstakrar athugunar. Það er nú svo að megnið af þessu máli hefur þegar verið ákveðið og nánast formsatriði að leggja það fyrir Alþingi, mæla hér fyrir því og vísa því til nefndar. Það er hlutverk efh.- og viðskn. að athuga helstu missmíðar á frv. en efnislega eiga nefndin og Alþingi ekkert um málið að segja.
    Sá aðili sem ber ábyrgð á skattamálum í fjmrn. ritaði nú nýlega í rit Félags löggiltra endurskoðenda eftirfarandi sem ég ætla að vísa í og ég held að það sé sannmæli um þetta frv. og í reynd mörg önnur frumvörp að undanförnu og jafnvel á undanförnum árum um skattamál. En hann segir svo:

    ,,Krísupakkasmiðir úti um allan bæ sitja með sveittan skallann dag og nótt í nokkrar vikur við það að yfirbjóða hver annan með hugmyndum um skattabreytingar. Þær enda svo á borði ríkisstjórnar og Alþingis, nánast sem úrslitakostir sem framkvæmdarvaldinu er gert að taka eða hafna og lítt hirt um löggjafarvaldið sem fær það hutverk eitt að lögfesta ákvörðun þeirra sem valdið hafa.``
    Þetta ritar einn æðsti embættismaður fjmrn. og ég held að það sé nokkuð til í því að það séu sannmæli um þetta frv. ef frv. skal kalla. Þetta frv. er að mínu viti enn eitt dæmið um hrákasmíði í skattamálum. Er að hluta til verið að efna ákveðin loforð sem hafa verið gefin og leiðrétta vitleysur sem voru í lagasmíði á síðasta ári og árinu þar á undan.
    Ég ætla í reynd ekki að hafa mjög mörg orð um efnisatriði þessa máls. Það má segja að ríkisstjórnin hafi gefið upp boltann þegar hún ákvað á síðasta ári að skerða barnabætur, skerða húsaleigubætur, það var reyndar gert árið þar á undan, hækka virðisaukaskatt og leggja sérstakt skattþrep á ferðaþjónustu og bækur. Þá var í reynd tekin ákvörðun um að það skyldi tekið upp sérstakt 14%-stig í virðisaukaskatti. Þetta varð til þess að verkalýðshreyfingin sótti á um það í samningunum í vor að það væri rétt að útfæra þetta skattþrep frekar yfir á helstu nauðsynjavöru almennings, þ.e. á matvöru. Um þetta var samið á sl. vori og ríkisstjórnin gekkst inn á það þrátt fyrir yfirlýsingar um annað. Ráðherrar Alþfl. gengust inn á það allir sem einn --- og ég verð nú, hæstv. forseti, að fara þess á leit að annaðhvort utanrrh. eða viðskrh. verði viðstaddur þessa umræðu. Þeir hafa verið að tjá sig um þetta mál úti í bæ í allt sumar og sérstaklega í haust og það er lágmark að þeir sýni Alþingi þá virðingu að vera viðstaddir umræðu hér á Alþingi um málið.
    ( Forseti (GunnS) : Í tilefni af þessari beiðni vill forseti upplýsa að hæstv. utanrrh. er með fjarvistarleyfi en forseti mun gera ráðstafanir til þess að kalla hingað til þings hæstv. viðsk.- og iðnrh.)
    Ég tel rétt, virðulegi forseti, að þessari umræðu verði frestað þar til hæstv. utanrrh. kemur af fundi annarra alþýðuflokka á Norðurlöndum því að ég er viss um að hann hefur eitthvað vitkast á því ferðalagi. (Gripið fram í.) Já, það má vel vera að aðrir hv. þm. séu meiri svartsýnismenn en ég, en ég hef fulla ástæðu til þess að ætla það að hæstv. utanrrh. hafi tiltölulega gott af slíkum kynnum. En hvað um það. Það var gert um það samkomulag á sl. vori og ríkisstjórnin féllst á það. Nú kemur ríkisstjórnin og segir: Við viljum gjarnan breyta þessu til baka ef verkalýðshreyfingin samþykkir það. Við erum ekki vondu kallarnir í þessu máli, við gerðum ekki vitleysuna. Það voru aðilar vinnumarkaðarins sem gerðu þessa vitleysu. Við bara lofuðum þessu.
    Hvers konar framkoma er þetta? Auðvitað ber ríkisstjórnin ábyrgð á þessu máli en ekki verkalýðshreyfingin. Ríkisstjórnin vissi að ef verkalýðshreyfingin ætlaði að bakka út úr þessu máli, þá varð í reynd að segja upp samningum og leggja málið fyrir hvert einasta félag í landinu og það vildi ríkisstjórnin ekki. Ríkisstjórnin ber því ábyrgð á því að taka upp þessa óskynsamlegu breytingu í virðisaukaskattinum sem mun leiða til lækkunar á innfluttum matvælum fyrst og fremst og það er vitað mál að það hefði verið hægt að koma þessum kjarabótum til almennings með miklu einfaldari og skilvirkari hætti. Þar að auki er opnuð ný leið til skattsvika og þau munu aukast og það veit hæstv. ríkisstjórn. Samt vill hún bera ábyrgð á að keyra þetta mál hér í gegnum þingið og stjórnarliðar eiga að fá það hlutverk að rétta hér upp hendur og efh.- og viðskn. á svona fyrir siðasakir að skoða málið í einhverja daga.
    Það er líka vitað mál að það þarf að fjölga í skattkerfinu um 20--30 manns til að koma þessari breytingu á þótt hvergi sé gert ráð fyrir því í útgjöldum fjárlaganna og er það eitt dæmið um ónákvæmnina í fjárlagagerðinni.
    Þetta hlýt ég að gagnrýna og ég lýsi fyrst og fremst ábyrgð á ríkisstjórnina og tel það ómaklegt af henni að vera að koma skömminni í málinu á verkalýðshreyfinguna. Og sérstaklega er það ómaklegt af ráðherrum Alþfl. sem nú upp á síðkastið hafa farið í kappræður um það hvað þetta væri vitlaus ákvörðun á sama tíma og þeir samþykktu það einu hljóði á sl. vori. Er það enn eitt dæmið um hentistefnu þess flokks sem venjulega ásakar aðra um slíka hluti.
    Út af einstökum efnisatriðum í þessu máli má segja að það helsta sem hefur hlotið einhverja vinnu séu ný ákvæði um vaxtabætur. Það mál hefur þó verið undirbúið með þokkalegum hætti en ég er samt ekki á því að þar sé algjörlega rétt að farið. Sem dæmi má taka að ef um er að ræða hjón sem hafa 403 þús. í vaxtagjöld og 3 millj. í tekjur, þá eru í reynd allir vextir umfram 180 þús. kr. greiddir af ríkinu. Þetta kerfi býður upp á það að það er hagstætt fyrir aðila að skulda ákveðnar fjárhæðir hvort sem þörf er á því eða ekki. Og það er jafnframt ljóst að með þessum ákvæðum er að nokkru leyti verið að skerða vaxtabæturnar með því að binda vextina við 7% raunvexti og það boðað að það hlutfall verði lækkað í meðförum þingsins. Ég tel að það hafi verið ótrúlega mikið hringl á undanförnum árum og ég er ekki að undanskilja þá ríkisstjórn sem áður sat í þessum málum. Það eru ekki nema örfáir menn sem skilja það hvað þarna hefur gengið á. Og alltaf er verið breyta þessu út og suður. Ég tel að þær breytingar sem hér er verið að leggja til séu að sumu leyti til bóta, en þó ekki að öllu leyti.
    Ég vildi nota tíma minn til þess að koma aðeins að virðisaukaskattsbreytingunni. Á sl. ári var ákveðið að leggja virðisaukaskatt á ferðaþjónustu og það var ákvörðun sem ríkisstjórnin tók þó ein og óstudd og mér vitanlega voru engir ,,krísupakkasmiðir`` úti í bæ sem hjálpuðu henni við það. Það hefur þó svo illa til tekist í þeirri lagasmíð að nú þarf að flytja margar brtt. við virðisaukaskattslögin til þess að leiðrétta missmíðina frá í fyrra. Menn höfðu t.d. ekki gert ráð fyrir því að einstaklingar kynnu að fljúga til útlanda utan af landi. Það hafði eingöngu verið gert ráð fyrir því að slíkt ferðalag mundi hefjast í Keflavík eða Reykjavík. En nú er sem sagt gert ráð fyrir því að menn geti hafið slíka ferð úti á landi án þess að greiða virðisaukaskatt, t.d. milli Egilsstaða og Reykjavíkur, ef ferðinni er heitið til útlanda. Ef ferðinni er hins vegar heitið til höfuðborgarinnar, þá skulu menn greiða virðisaukaskatt. Þetta er út af fyrir sig eitt nægilegt til þess að sýna fram á fáránleikann í þessum skatti.
    Flest af því sem við neytum innan lands og kaupum hér á landi er með virðisaukaskatti. Það er algjör undantekning að svo sé ekki, en það á við um ferðalög erlendis eins og flugfargjöld til annarra landa. Það er eins og hver önnur neysla sem má segja að ætti að bera virðisaukaskatt eins og önnur neysla í landinu, en vegna samkeppnisstöðu og vegna reglna erlendis þykir ekki rétt að fara út í það, enda mundi það leggja íslensku flugfélögin eða flugfélagið og starfsemi þess í rúst. En það þykir hins vegar við hæfi af núv. hæstv. ríkisstjórn að leggja virðisaukaskatt á flugfargjöld innan lands. Þessi skattur hefur ekkert með að gera að loka götum í kerfinu eða fækka undanþágum sem eru hættulegar vegna skattsvika. Þetta er hreinn skattur á landsbyggðina og þá aðila sem þurfa að sækja þjónustu hingað til Reykjavíkur. Og það er með ólíkindum ef hv. alþm. ætla að samþykkja það og koma á slíku óréttlæti í landinu. Þar að auki er það alveg öruggt að þetta mun hafa mikil áhrif á rekstur flugfélaganna. Stærsta flugfélagið sem flýgur innan lands er nýbúið að kaupa flugvélar fyrir milljarða. Þetta er fyrirtæki sem skiptir miklu máli í okkar þjóðarbúskap. Hafa menn einhverja trú á því að þetta fyrirtæki hefði verið að fjárfesta í dýrum vélum hefðu þeir mátt vænta þess að það yrði lagður virðisaukaskattur á flugfargjöld innan lands? Nú liggur það fyrir að þeir treysta sér sennilega ekki til að setja þennan skatt út í verðlagið, heldur munu verða að taka hann á sig og auka þar með tapið í innanlandsfluginu mjög verulega. Og hvernig heldur hæstv. fjmrh. að það muni enda? Heldur hæstv. fjmrh. að það muni enda með því að fyrirtækið muni blómstra og innanlandsflugið muni halda áfram með óbreyttum hætti? Nei, það er öruggt að það mun breytast og ég spái því að það kunni svo að fara að fyrirtækið telji sig nauðbeygt til þess að leggja innanlandsflugið hreinlega niður og selja flugvélarnar. Og hverjar verða þá tekjur ríkissjóðs af þessu dæmi? Ætli það þurfi þá ekki að endurreikna eitthvað upp nýtt eins og svo margt annað í þessum málum.
    Ég skora því á hæstv. ríkisstjórn að taka þetta mál sérstaklega til endurskoðunar og ítreka tilmæli mín um það að taka til endurskoðunar skatt á ferðaþjónustuna almennt því að það er alveg ljóst að sá skattur mun draga úr tekjum þjóðarinnar og verða þess valdandi að tekjur ríkissjóðs munu lækka. Ég hef áður sagt það að þessi skattur muni trúlega engu skila til ríkisins vegna þess samdráttar sem hann mun valda í þjóðartekjunum. Það verður að sjálfsögðu að hafa það í huga þegar skattar eru lagðir á til hvers þeir leiði í þjóðarbúskapnum.
    Virðulegur forseti. Ég hef stuttan tíma til að fjalla um þessi mál hér í ræðu minni. Ég vil þrátt fyrir allt, þótt þetta frv. sé illa samið og öll tilurð þess með eindæmum, hvetja til þess að það verði reynt að forða þeim slysum sem lögfesting þess mundi leiða til, í fyrsta lagi því mikla slysi að taka upp nýtt þrep í virðisaukaskatti á matvælum sem mun leiða til aukinna skattsvika og til aukins kostnaðar fyrir ríkið á sama tíma og það á að beina þeim mannskap sem er til ráða í að uppræta skattsvik sem eru talin nema 11 milljörðum króna. Að setja nú 20--30 manns í það að búa til eitthvert nýtt kerfi á sama tíma og bráðvantar fólk í skatteftirlit er náttúrlega hlutur sem enginn getur borið ábyrgð á og á að koma í veg fyrir.
    Það slys sem jafnframt á að koma í veg fyrir er skatturinn á ferðaþjónustuna og þá sérstaklega skatturinn á flugið sem mun leiða til þess að fólk mun minnka það að ferðast flugleiðis innan lands sem getur haft þær afleiðingar að þessi þjónusta leggist af eða verði a.m.k. rekin með mun minni og óöruggari flugvélum.
    Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. verði til samstarfs um einhverjar breytingar í þessa átt jafnvel þótt ég þykist vita það að hann sé búinn að binda sig í málinu eins og hæstv. viðskrh., sem nú gengur í salinn, sem samþykkti það í vor að breyta virðisaukaskattkerfinu ásamt utanrrh., kemur síðan á síðustu stundu og segist bara hafa lofað þessu en að öðru leyti hafi hann ekkert með málið að gera og vill koma öllu á verkalýðshreyfinguna. Þetta er ósæmilegt fyrir ráðherra í núverandi ríkisstjórn og væri nær fyrir þá að viðurkenna sín eigin mistök í stað þess að reyna að koma því á aðra. Væri fróðlegt að hæstv. viðskrh. segði nokkur orð um þetta mál hér á Alþingi og mundi endurtaka eitthvað af því sem hann hefur verið að segja úti í bæ þannig að við gætum talað við hann nokkur orð hér um þetta mál.