Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 14:37:34 (2005)


[14:37]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Það er nú þannig að í raun og veru ætti að vera sexfaldur ræðutími í þessu máli því að hér eru á ferðinni sex frumvörp. Ég held að ég hljóti að neyðast til þess, hæstv. forseti, að gera í upphafi míns máls athugasemdir við það hvernig þetta mál er fram borið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Ég kann satt best að segja æ verr við þann sóðaskap sem farinn er að viðgangast við framsetningu lagafrumvarpa af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og ég tel að hér taki steininn úr. Í dag mun vera 30. nóv. og hér er á ferðinni ósköp venjuleg afgreiðsla skattafrumvarpa sem þurfa að ná afgreiðslu flest væntanlega fyrir áramót eða a.m.k. í upphafi árs eins og jafnan hefur verið á þessum tíma og ekkert mikið seinna á ferðinni út af fyrir sig heldur en stundum hefur verið. Þess vegna hlýtur maður að spyrja: Hvers vegna eru þá ekki með

venjulegum hætti lögð hér fram frumvörp með þeim aðskilnaði sem er á lögbókinni sjálfri? Af hverju er hér ekki flutt frv. um tekjuskatt og eignarskatt, frv. um virðisaukaskatt, frv. um bensíngjald, frv. um tollalög, frv. um vörugjald o.s.frv.? Hér er ef ég man rétt á ferðinni breyting á sex og þó líklega frekar sjö lögum því að hér sé ég að þetta tekur einnig til breytinga á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. þannig að þetta eru þá líklega orðin sjö frumvörp sem hér eru sett saman í einn bandorm. Ég t.d. man ekki eftir því fyrr að tollskráin og vörugjöld væru tekin með frumvörpum um tekjuskatt og eignarskatt svo að dæmi sé tekið, og hafa þó oft tengst saman ýmsar breytingar á þessum málum eins og gefur að skilja. Þessi bandormagerð er afar ógeðfelld og ég kann því æ verr hvernig þetta er að þróast. Ég hlýt að beina þessum orðum mínum ekki síður til hæstv. forseta og forsætisnefndar þingsins. Hefur það aldrei hvarflað að forustu þingsins að taka þetta mál upp og ræða við hæstv. ríkisstjórn? Ég sé ekki annað en við séum á góðri leið með að leggja hér niður öll mörk á milli laga og eftir skamma hríð, haldi svo fram sem horfi, komi ráðherrarnir gjarnan með einn bandorm á ári, sulli þar saman öllu sem undir þá heyri og í sumum tilvikum taki jafnvel forsrh. að sér að flytja mál fyrir nokkra aðra ráðherra í einum allsherjarbandormi. Þetta er ekki snyrtilegt, hæstv. fjmrh. ( Gripið fram í: Þetta er sullur.) Þetta er að verða mikill sullur og mikill óþrifnaður af þessu.
    Ég fullyrði það að þetta einfaldar heldur ekki á nokkurn hátt vinnuna að þessum málum og hefur engan sjáanlegan tilgang að mínu mati annan en þann að ef ríkisstjórnin telur sig með þessu ná einhvers konar billegri málsmeðferð, ódýrari málsmeðferð hér í gegnum þingið með hluti sem er búið að ákveða úti í bæ og atkvæðavélarnar renna svo hér á þinginu, þá sé einfaldara fyrir þær að rétta upp höndina einu sinni heldur en sjö sinnum. Það kann að vera svo. En mér finnst þetta ekki snyrtilegt og meina þetta í fullri alvöru, hæstv. forseti. Ég vil að á þessu sé tekið.
    Menn hafa svo sem látið sig hafa ýmislegt og sætt sig við það stundum þegar t.d. í bráðabirgðalögum hefur verið breytt mismunandi efnisákvæðum og það hefur svo komið hér inn í þingið í einum pakka sem slíkt, en ég sé enga haldbæra ástæðu fyrir því að standa svona að þessu. Menn geta sagt að þetta tengist kjarasamningum út af fyrir sig, en það er engin réttlæting fyrir því að leggja til hliðar öll venjuleg og vönduð vinnubrögð við lagasetningu og framlagningu frumvarpa á Alþingi, bara alls ekki hreint þó að það tengist einhverjum ytri atburðum.
    Í öðru lagi, hæstv. forseti, gefst ekki tími til, a.m.k. ekki í þessari umræðu sem er takmörkuð, að fara ítarlega í einstaka efnisþætti, enda er eins og ég segi um sjö mismunandi lagafrumvörp að ræða og þyrfti nokkurn tíma til að fara yfir það allt. Ég ætla þess vegna að hlaupa mjög hratt yfir sögu og ræða í fyrsta lagi breytingar á skattprósentum við álagningu tekjuskatts og eignarskatts og þá bæði á einstaklinga og lögaðila. Hér er á ferðinni hækkun á tekju- og eignarskatti einstaklinga, hæstv. fjmrh., eða hvað? Hæstv. fjmrh. er að vísu alltaf að lækka skatta og kemur ekki svo hér í ræðustólinn að hann haldi ekki ræðu um það hvað hann sé að lækka mikið skatta. Og ég skil ekki annað, ef hann fær að vera lengi í embættinu, en að það verði orðið skattlaust himnaríki hér á Íslandi um aldamót ef svo heldur fram sem horfir En samt er þetta nú þannig, hæstv. fjmrh., að fyrsta efnislega greinin í frv. er um skattahækkun. Hún er um hækkun á tekjuskatti einstaklinga um 0,35 prósentustig og ég dreg þá frá þá breytingu sem fylgir einhliða tilfærslu á 1,5 prósentustigum úr tekjuskatti yfir í útsvar, sem er engin breyting, hæstv. fjmrh., vegna þess að almenningi er alveg nákvæmlega sama hvort 1,5% af þessu er útsvar eða tekjuskattur. Það skiptir menn bara engu máli þegar þeir eru að borga þetta. Og þá er þetta þannig að álagningartalan á næsta ári í tekjuskattinum verður 33,15%. En fyrir daga niðurfellingar aðstöðugjaldsins var þessi tala 32,8%. Þarna er á ferðinni 0,35% hækkun. Síðan færist 1,5% yfir í útsvarið sem verður þá, miðað við álagningarprósentuna eins og hún mun standa fyrir upp á 7,04%, 8,54% og reyndar mun þakinu verða lyft meira eða um 1,7% þannig að fræðilega geta sveitarfélögin lagt á útsvar upp á 8,74%. Það þýðir að heildarprósentan verður á næsta ári 41,69%. Og ég fullyrði að hún hefur ekki sést hærri í tíð staðgreiðslu tekjuskatts þannig að að þessu leyti er hæstv. fjmrh. að slá enn eitt metið. Og þetta er skattlagningin miðað við 57 þús. kr. skattleysismörk eða eitthvað þar um bil, ef ég man rétt. Og ég vil segja: Þetta þarf að athuga, þetta er óheyrileg skattlagning á laun sem eru undir 60 þús. kr. á mánuði, að skattprósentan skuli komin þarna upp undir 42%.
    Það er alveg ljóst, hvað sem hæstv. fjmrh. segir um skattalækkanir og skattalækkanir ekki, að það er að eiga sér stað núna á þessu ári og því næsta einhver stórkostlegasta tilfærsla í skattkerfinu sem átt hefur sér stað sennilega nokkurn tíma, tilfærsla frá fyrirtækjum og yfir á einstaklinga. Hún er af stærðargráðunni 5 milljarðar kr. eða svo og munar um minna. Nú má auðvitað ýmislegt um þetta segja og menn geta haldið hérna hjartnæmar ræður um vanda atvinnulífsins og allt það. Hann er vissulega mikill, sérstaklega í ákveðnum greinum en sú aðferð sem valin er þarna, að lækka skatta á öllum fyrirtækjum jafnt og færa hann yfir á einstaklinga og þar á meðal ekki síst lágtekjufólk, er að mínu mati vafasöm svo ekki sé meira sagt.
    Það koma fram í ágætri ræðu sem skrifstofustjóri fjmrn. sendi okkur alþingismönnum ýmsar athyglisverðar hugleiðingar sínar um skattamál á Íslandi og ein er sú að upp úr þessum snillingi veltur það að merkilegt nokk séu skattgreiðslur fyrirtækja hér með því allra lægsta sem þekkist í OECD-ríkjunum, hinum þróuðu og efnahagslega vel megandi ríkjum, eða um 1% af vergri landsframleiðslu á sama tíma og meðaltalið er um 3% í OECD. ( Gripið fram í: Veistu um afkomuna?) Það kemur auðvitað ýmislegt inn

í það, hv. frammíkallandi, og stjórnarmenn í KEA og aðrir slíkir geta haldið hér ræður um afkomu fyrirtækja fyrir mér. Það breytir ekki því að útkoman er þessi. Og það segir líka sína sögu um rúmar skattareglur eins og þær hafa verið gagnvart fyrirtækjum á undanförnum árum, t.d. fáránlegar reglur um tilfærslu á uppsöfnuðu tapi milli fyrirtækja sem fengu hér og hafa fengið fram á síðustu ár að leika lausum hala í þeim efnum, geta keypt sér upp tap og komist þannig hjá því að borga tekjuskatt árum saman, jafnvel áratugum saman. Sum best stæðu fyrirtæki landsins hafa ekki borgað krónu í tekjuskatt árum saman af því að þau hafa keypt upp tap einhverra gjaldþrota fyrirtækja svo sem Nútímans sem þeir framsóknarmenn gáfu út á sínum tíma, hv. frammíkallandi. Með slíkum aðferðum er auðvitað hægt að sýna tölur af þessu tagi.
    Það sem er að þessari breytingu er að hún var gerð án nokkurs samhengis við afkomu fyrirtækjanna. Það var alveg ljóst að ein aðalröksemdin fyrir þessari niðurfellingu aðstöðugjaldsins voru erfiðleikar í sjávarútvegi. En þegar upp er staðið, þá er það þannig að það eru fyrst og fremst fyrirtæki í þjónustu, það eru verslunarfyrirtæki, það eru olíufyrirtæki, það eru þjónustufyrirtæki og það eru fjármálafyrirtæki sem höfðu borgað einhvern tekjuskatt. Og það er hann sem er núna verið að lækka, úr 45% niður í 33% í tveimur áföngum. Þessari skattbyrði er allri velt yfir á einstaklinga. Á sama tíma eru svo skattfrelsismörkin lækkuð, jaðarskattprósentan hækkuð. Þannig er útkoman. Það er því þjarmað að einstaklingunum þarna á alla enda og kanta. Og ætli það sé ekki nálægt því að vera þannig að í staðinn fyrir skattfrelsismörk upp á 57 þús. kr. á mánuði núna sem hæstv. fjmrh. og skattalækkari, Friðrik Sophusson, ætlar að reikna út, ættu þau að vera um 63 þús. ef þau væru framreiknuð frá því sem þau voru þegar hann tók við, hæstv. fjmrh. Og ef farið væri 6--8 ár aftur þá væru skattfrelsismörkin núna framreiknuð líklega 70 þús. kr. á mánuði. Þannig er nú búið að fara með þetta. Ég held að það hljóti að eiga sinn þátt í þeim miklu greiðsluerfiðleikum sem fjöldi fólks á nú við að stríða.
    Ég hef ekki, hæstv. forseti, tíma til a.m.k. í þessari umferð að fara rækilega yfir það sem hæstv. ríkisstjórn hefur staðið fyrir í skattamálunum almennt, en það er alveg ljóst að þarna hefur átt sér stað alveg gríðarleg skattþynging á miðlungstekjufólki í landinu vegna þess að til viðbótar þessum tilfærslum með lækkun skatta á fyrirtæki upp á 4--5 milljarða kr., lækkun skattfrelsismarka, hærri jaðarskattsprósentu og hækkun útsvars nú á næsta ári, þá koma alls konar gjöld og skattar, nefskattar, en það mundi ég kalla skítaskatta, hæstv. iðnrh., sem búið er að velta yfir á almenning. Því að skólagjöldin, gjöld í heilbrigðisþjónustunni, lækkun á endurgreiðslu tannlæknakostnaðar hjá barnafjölskyldum o.s.frv., þetta leggst auðvitað allt á þetta sama fólk. Það eru að mínu mati skítaskattar, hæstv. iðnrh., sem Alþfl. ber alla pólitíska ábyrgð á.
    Ýmislegt fleira er hér á ferðinni, hæstv. forseti, sem ástæða væri til að nefna í þessari umferð. Hv. 1. þm. Austurl. hefur þegar efnt upptöku virðisaukaksatts á ferðaþjónustu sem reynar er ekki efni þessa frv. en kemur til framkvæmda núna um áramótin ásamt ýmsum fleiri breytingum, leifum af breytingum frá fyrra ári og sama á við um 400 millj. kr. skerðingu vaxtabóta. Þetta eru auðvitað hlutir sem eru ákaflega óskynsamlegir og óréttlátir svo ekki sé meira sagt. Það er auðvitað alveg yfirgengilegt að hæstv. ríkisstjórn skuli með þessum hætti vega sérstaklega að þeirri einu grein sem hefur einhverja sæmilega vaxtarmöguleika nú um stundir í íslensku atvinnulífi. Ferðaþjónustan er þannig t.d. eitt örfárra ljósa í myrkrinu á yfirstandandi ári og er ætlað að hún skili 15--18% aukningu gjaldeyristekna inn í þjóðarbúið á þessu ári. Og hverjar eru þakkirnar frá hæstv. ríkisstjórn til ferðaþjónustunnar sem þannig er að leggja meira af mörkum inn í þjóðarbúið? Jú það er að skella á hana virðisaukaskatti. Það eru viðbrögð hæstv. ríkisstjórnar. Og margt í því er náttúrlega svoleiðis gjörsamlega út öllu korti, eins og þessi upptaka virðisaukaskatts á flugfargjöld innan lands, að maður bara trúir því ekki að menn séu með fullri meðvitund þegar þeir taka ákvörðun um svona hluti.
    Eitt af því sem allir eru sammála um að sé mikilvægt í uppbyggingu ferðaþjónustunnar er að dreifa álaginu af henni betur um landið, það er að reyna að gera sem flest og helst öll byggðarlög í landinu fullgilda þátttakendur í þessari grein. Og hver er undirstaða þess? Það eru flutningar á ferðafólkinu út um landið og þá gjarnan með flugi. Og hvað þýðir svona ákvörðun t.d. fyrir ferðaþjónustu á Höfn í Hornafirði og í því héraði sem er mjög háð því að vera fóðrað með flugi í eins dags ferðir og fleiri inn á það svæði? Þetta þýðir að menn þar neyðast til þess að hætta eða rýra sína afkomu, annað tveggja, um 8--9%. Það er mat þeirra sem standa í þessum rekstri að flugfargjöldin þurfi að hækka a.m.k. þetta mikið vegna þess að hlutföll milli innskatts og útskatts í þeim rekstri eru þannig.
    Ég vil líka vekja athygli á því, hæstv. forseti, sem mér finnst alveg furðanlega lítið hafa verið rætt og það er að þessi virðisaukaskattur á líka að takast upp á allar almenningssamgöngur, þar með talið rekstur Almenningsvagna hér á höfuðborgarsvæðinu. ( ÓÞÞ: Og ferjurnar.) Og ferjurnar. Er búið að sjá fyrir því í fjárlagafrv., hæstv. ráðherra, að hækka framlög ríkisins sem nemur þessu eða á að velta þessu yfir á Vestmanneyinga og Grímseyinga og aðra slíka sem eru gjörsamlega háðir ferjusamgöngum? Svo ætla ég að óska íhaldinu í Reykjavík alveg sérstaklega til hamingju með því að hefja kosningaárið með því að hækka fargjöld Strætisvagna Reykjavíkur um ein 8--9% til þess að mæta upptöku virðisaukaskatts sem hæstv. fjmrh. og skattalækkari Friðrik Sophusson ætlar nú að gera um áramótin. Það er glæsilegt upphaf á kosningabaráttu íhaldsins í Reykjavík að þurfa að hækka almenningsfargjöldin sem þessu nemur. Eða hvað? Ætlar borgin að taka þetta á sig? Og er fjárhagur hennar þá þannig að hún fari létt með það, eða hvað? ( ÓÞÞ:

Þetta er hlutafélag.) Þetta er að vísu orðið ,,aktieselskab`` já, en það er nú sama. Það kemur út á eitt. Það rekur sig væntanlega ekki á loftinu, hv. þm. Ólafur Þórðarson. Þetta er auðvitað alveg ótrúlegt satt best að segja.
    Hér er enn verið að gefast upp við skattlagningu fjármagnstekna og það átti svo sem ekki að skila miklu á næsta ári en 150 millj. þó samkvæmt töflum hér í bókinni og einum 500 millj. á ársgrundvelli þegar allt væri komið. Nú er verið að gefast upp við þetta. Það er sá eini skattur sem aldrei tekst að koma á og endalaust þvælist undan mönnum að leggja á. Og það er ákaflega táknrænt, finnst mér, það er ákaflega táknrænt við þessar aðstæður að því er frestað.
    Ég tel að t.d. þessi lækkun á tekjuskattsprósentu fyrirtækjanna sé hreint rugl við þessar aðstæður, hreint rugl. Ég tel að það sé ekki svo vel statt hjá okkur þjóðarbúið að það sé ástæða til þess að hlífa þó þeim aðilum sem hafa haft það góða afkomu og þrátt fyrir rúmar frádráttarreglur af ýmsu tagi á undanförnum árum, svo sem framlög sem áður mátti leggja í fjárfestingarsjóði, arðgreiðslur og annað því um líkt, hafa verið að borga einhvern tekjuskatt, að það eigi nú sérstaklega að fara að hlífa þeim við því. Ég sé enga ástæðu til þess við þessar ástæður, ekki ef valkosturinn er sá að velta þessari skattbyrði af fullum þunga yfir á almenning og þar á meðal lágtekjufólk. Þegar búið er að lækka skattfrelsismörkin jafnharkalega eins og raun ber vitni, þau eru nú líklega einum 12--14 þús. kr. lægri en þau voru að raungildi fyrir 6--8 árum síðan, þá er það auðvitað út úr öllu korti að standa svona að málunum.
    Ég hefði gjarnan viljað, hæstv. forseti, að hæstv. félmrh. kæmi hér því að hér er á ferðinni ákvæði um vaxtabætur sem ástæða væri að ræða við hæstv. félmrh. Nú ætla ég ekki að fara út í mikla umræðu um þá efnisþætti sem eru í 9. gr. frv. um vaxtabætur. Það er nokkuð flókið mál að skoða hvernig það kemur út, en fljótt á litið virðist vera að ef ætlunin er að skerða vaxtabætur hvort sem er, þá sé þetta ekki endilega óskynsamlegasta leiðin í þeim efnum að reyna að finna einhver tekju- og eignamörk sem bæturnar eyðist út við að ofan. En hitt er alveg ljóst að sú breyting sem gerð var í fyrra og tekur gildi nú um áramótin og mun gilda um þetta efni á árinu 1994 er afar harkaleg vegna þess að hún er að verulegu leyti flöt skerðing á vaxtabótum. Og nú eru þær aðstæður uppi t.d. að hluti af þeim sem bera vaxtakostnað situr uppi með eldri lán á hærri vöxtum en nú er farið að veita og þá á ég ekki síst við þá sem tóku þessi fínu húsbréf að láni hér fyrir nokkrum árum síðan. En eins og kunnugt er voru það húsbréf sem áttu að frelsa þjóðina fyrir nokkrum árum þegar hæstv. félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir tók trú á húsbréf og talaði ekki um annað í nokkur missiri eftir að hún hætti að tala um kaupleiguíbúðir og áður en hún fór að tala um sameiningu sveitarfélaga. Og hvernig var nú staðan? Hvernig fór það með húsbréfin? Það fór þannig að afföllin fóru yfir 20% og þau eru með 6% raunvöxtum. (Gripið fram í.) Og Alexander, við skulum ekki fara út í það.
    Ég var t.d. að reikna út dæmi hjá ungum hjónum sem tóku húsbréfalán núna í ágústlok. Þau fengu á sig 11% afföll, þau tóku 4,5 millj. að láni, þau skulda 4,5 millj. í húsbréfum með 6% vöxtum, en þau fengu 4 millj. og 20 þús. í hendurnar og þetta sitja þau eftir uppi með á 6% vöxtum en núna fá menn lán á 5% vöxtum og bréfin seljast jafnvel á yfirverði. Hvað ætlar Alþfl. að gera við þennan aðstöðumun sem þarna er að skapast á örfáum vikum vegna þess að menn keyrðu þetta kerfi áfram auðvitað í tómum fáránleika? Ég er alveg sannfærður um að þegar upp verður staðið og húsbréfakaflinn gerður upp í húsnæðismálum Íslendinga, þá verður hann einhver ljótasti hluti sögunnar og er þá langt til jafnað. Og hann er á ábyrgð Alþfl. alveg sérstaklega. Hvert er framlag Alþfl. og hæstv. félmrh.? Það er að leggja hérna fyrir okkur skerðingu á vaxtabótum. Ekki eitt einasta svar um það hvernig eigi að jafna aðstöðumun þessara hópa sem munu á næstu árum ef ekkert verður að gert búa við bersýnilega ósanngjarnan mun hvað þetta snertir. Og hæstv. félmrh. er að sjálfsögðu ekki hér til að svara fyrir þessa hluti.