Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 15:00:38 (2007)


[15:00]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það væri fróðlegt að fá þessa útreikninga hjá hæstv. fjmrh. og við stæðum nú meira á jafnréttisgrundvelli ef við hefðum haft aðstöðu til að skoða þá áður en maður á að koma hér og svara þeim. Af því að hæstv. fjmrh. nefndi lækkun virðisaukaskatts, þá þakka ég honum fyrir. Ég hafði ekki tíma til að fara yfir nema örfá efnisatriði frv. í mínu máli, en það má vel koma hér fram og hefur reyndar gert áður og þar á meðal í fjölmiðlum í tengslum við þessar umræddu breytingar að ég styð þessa breytingu. Ég er einn örfárra manna sem hafa þorað --- liggur mér við að segja --- að vera sjálfum sér samkvæmir og lýsa því yfir. Ég hef alltaf stutt það að matur og lífsnauðsynjar væru skattlagðar á lægra þrepi heldur en aðrar neysluvörur, allt frá 1987 þegar ég barðist hér fyrir upptöku matarskatts og geri enn. Ég vil hins vegar fá að taka þátt í því að reyna að útfæra þá breytingu á þann hátt að hún nái sem best sínum tilgangi. En ég er þeirrar skoðunar að það sé skynsamleg aðferð við að dreifa skattbyrðunum réttlátlega að velja þá vöruflokka, þær lífsnauðsynjar sem eru fjölskyldunum mikilvægastar og þær komast engan veginn af án og hafa á þeim lægri eða enga skatta. Ég hef alltaf verið þessarar skoðunar og ég er það enn. Og ég blæs á þau rök tæknimanna að ekki sé hægt að útfæra hér uppi á Íslandi skattareglur sem gera það sæmilega framkvæmanlegt að haga þessu svona úr því að það er hægt nánast í öllum öðrum löndum. Ég hef ekki fengið neina sönnun fyrir því að við Íslendingar séum þeir aumingjar og svo illa gefnir að við ráðum ekki við þetta úr því að aðrar þjóðir gera það.
    Um það hvort skattar hafi hækkað eða lækkað 10 sinnum meira í tíð fyrri ríkisstjórnar, þá hef ég aðallega, hæstv. fjmrh., verið að ræða hér tilfærsluna. Hún er óumdeilanlega af þessari stærðargráðu sem ég hef nefnt. Það er sjálfsagt rétt að skattar hafi hækkað að raungildi á síðasta kjörtímabili en þeir hafa hækkað áfram nú öfugt við loforð hæstv. ríkisstjórnar og það hefur til viðbótar orðið þessi gífurlega tilfærsla yfir á einstaklingana þannig að skattahækkanirnar gagnvart þeim á tímum lækkandi launatekna eru auðvitað óheyrilegar.