Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 15:26:22 (2011)


[15:26]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er eitt atriði sem kom fram í málflutningi hv. þm. sem ég vil gera athugasemd við og það eru nánast síðustu orðin sem hv. þm. lét falla þar sem var sagt að skattkerfið væri óréttlátt, skattar á einstaklinga hefðu hækkað en ekkert væri gert til þess að stemma stigu við skattsvikum. Af þessu tilefni vil ég að það komi hér skýrt fram að líklega hefur aldrei fyrr verið tekið jafnhart á skattsvikum. Við gerum mun annars vegar á skatteftirliti þar sem farið er yfir framtöl þeirra sem telja fram. Það hefur verið gert með miklu ákveðnari og beittari hætti nú en nokkru sinni áður og í öðru lagi hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins, sem er sjálfstætt embætti, lagt sig í líma við það að ná til svokallaðrar svartar atvinnustarfsemi þannig að aldrei fyrr hefur jafnmikið verið gert í þessum efnum og einmitt nú.
    Þegar menn tala um 11 milljarða verða menn að hafa það í huga að það er mjög svipuð upphæð og gengur fram hjá skatti í okkar nágrannalöndum og talsvert lægri upphæð en í suðlægum löndum eins og kemur rækilega fram í skattsvikaskýrslu þeirri sem skilað var til ríkisstjórnarinnar sl. haust. Með þessu er ég ekki að segja að það eigi að réttlæta skattsvikin, heldur einungis að segja hér að það er rangt og það á ekki halda því fram því að það er bókstaflega rangt að ekki sé tekið á skattsvikum hér á landi. Núverandi ríkisstjórn hefur lagt sig fram í þeim efnum eins og hún hefur getað og með frekari aðgerðum heldur en nokkru sinni fyrr hafa verið notaðar.