Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 15:28:08 (2012)


[15:28]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég kann að hafa tekið of sterkt til orða að ekkert væri gert í málinu og má þar auðvitað nefna hið nýja embætti skattrannsóknarstjóra en það er spurning hvort það er nógu öflugt. En meginspurningin er auðvitað sú: Hvernig stendur á því í svona litlu þjóðfélagi þar sem við höfum yfirsýn yfir heilu bæjarfélögin, það er kannski erfiðara hér í Reykjavík, að skattsvik skuli viðgangast í þeim mæli sem raun ber vitni um og menn meta upp á allt að 11 milljarða kr.? Það ætti að vera miklu auðveldara að hafa yfirsýn yfir þetta hér heldur en í flestum öðrum löndum. Hæstv. fjmrh. nefndi þar m.a. Suður-Evrópu þar sem menn vita um meiri háttar neðanjarðarstarfsemi, m.a. á Ítalíu þar sem neðanjarðarstarfsemi og hagkerfi mafíunnar er náttúrlega alveg gríðarlegt vandamál. Ég efast ekkert um að það er verið að vinna gott starf í skattkerfinu, en það er bara ekki nóg. Það þarf að taka þarna fastar á og það er auðvitað algerlega óþolandi þegar skattbyrði fólks er aukin og fólk er að borga tekjuskatt af sorglega lágum launum, þá skuli fólk í bæjarfélögum úti á landi horfa upp á ákveðnar stéttir manna komast upp með það að borga nánast engan skatt. Og ég trúi því ekki að það sé ekki hægt að taka betur á þessum málum. Það þarf að gerast og það verður að gerast.