Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 15:30:03 (2013)


[15:30]
     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég kem hér upp út af orðum hv. 18. þm. Reykv. og reyndar líka vegna þess sem hefur verið sagt hér um vaxtabætur af ræðumanni sem var í ræðustól þar á undan. Þó ætla ég ekki að fara út í umfjöllun um vaxtabæturnar samkvæmt þessu frv. og hefði gjarnan kosið að félmrh. hefði verið hér

ef menn telja sig þurfa útskýringar á því. En aðeins vegna þess að við hv. 18. þm. Reykv. vorum saman að skoða húsbréfakerfið á sínum tíma og áhyggjur manna þá um hvort niðurgreiðsla í gegnum vaxtabótakerfið væri traustvekjandi og eitthvað sem væri hægt að treysta á til frambúðar samanborið við niðurgreiðslur vaxta, þá var það mat okkar allra sem komu að því máli, og ég vil minna á það hér, að það væri stefna allra flokka að vera með sjálfseignarstefnu varðandi íbúðareign þannig að við gætum nokkuð treyst því að vaxtabótakerfinu yrði viðhaldið.
    Hins vegar vitum við að auðvitað þarf að skoða hvernig kerfið virkar best og þess vegna tel ég mér skylt að minna á það sem kemur hér fram í grg. frv. á bls. 17 að sérstök nefnd fór í endurskoðun á frekari tengingu vaxtabóta við tekju- og eignastöðu vaxtabótaþega þannig að kerfið kæmi fremur tekjulægri, yngri og efnaminni til góða. Og ég vil líka benda á að þar kemur líka fram að verið var að skoða að reglurnar væru einfaldar og samræmdar, að til kæmi bætt upplýsingagjöf lánastofnana og það er verið að líta sérstaklega á að þessar bætur verði markvissari og að tekjujöfnun kerfisins verði aukin. Og fyrir mig, miðað við þá stjórnmálaskoðun sem ég hef, legg ég gífurlega áherslu á í þessu efni eins og öðru tekjujöfnunarþáttinn og þess vegna finnst mér að það hljóti að skipta máli með hvaða hætti er verið að taka á breytingum vaxtabótanna en ekki að það er verið að breyta þeim. Þessu vildi ég gjarnan koma til skila, virðulegi forseti.