Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 15:34:28 (2015)


[15:34]
     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég býst við að allir geti tekið undir þessi orð að það væri æskilegt að allar meiri háttar aðgerðir, hvort sem það eru skattbreytingar eða aðrar breytingar á kerfi eða einhverju sem fólk vill ganga út frá, séu ekki gerðar eins og er lenska hjá okkur að það verði að gera þær í tengslum við fjárlagafrv. í desember. Og það er það sem allir þekkja sem hafa verið í stjórnarflokki, eini flokkurinn sem ekki hefur þurft að taka þátt í því er Kvennalistinn, vegna þess að þetta er það sem er að gerast ár eftir ár. Það er verið að taka á málum og allt of mikið um að þetta sé gert hverju sinni tengt fjárlagafrv. Og ég vildi óska þess að við ættum eftir að upplifa það að taka á viðamiklum málum við rólegri aðstæður. Stundum hef ég haldið fram að við þyrftum að vera að vinna þessa hluti og skattabreytingar ættu ekki að vera heimilaðar síðar á árinu en í maí til þess að það sé tryggt að þetta sé vel skoðað.
    Ég treysti því að við munum fá mjög góðar upplýsingar í efh.- og viðskn. varðandi vaxtabætur og ýmsa útreikninga og við munum geta skoðað þetta þar, virðulegi forseti. Mig langar að nefna það þó að hv. 18. þm. Reykv. hafi ekki nefnt afföllin að auðvitað hafa afföll af húsbréfum feykilega mikið að segja inn í vaxtapólitíkina í húsbréfum. Þegar þetta kerfi var unnið þá var gengið út frá því að hér eins og annars staðar mundi framboð og eftirspurn geta lagað sig að stöðu þessara mála á markaði hverju sinni. Það verður að segjast eins og er, að ég hafði mjög miklar væntingar um að fólk mundi halda að sér höndum þegar afföll væru meiri og bíða eftir því hvernig kerfið hverju sinni aðlagar sig að eftirspurn og framboði. Það hefur ekki gerst. Við höfum of mikið haldið okkur við það að fara í breytingar á húsnæðismarkaði alveg óháð því hver staðan er miðað við þessa tölu sem við höfum þekkt frá ári til árs.