Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 15:36:30 (2016)


[15:36]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um það frv. sem liggur frammi eða í raun þá syrpu af frumvörpum sem hér er. Ég get mjög tekið undir það að þetta eru afar óæskileg vinnubrögð og

í því frv. sem við höfum í höndunum hérna er öllu hrært saman, einföldum tæknilegum lagfæringum á skattakerfinu, grundvallarbreytingum í skattamálum og síðan breytingum á lögum um tolla og vörugjöld. Þessu er öllu saman slengt hér fram í einum pakka þegar eftir eru samkvæmt starfsáætlun þingsins einir 10 starfsdagar til jóla. Og það sér hver maður hvílík fásinna þetta er þegar það svo bætist ofan á að hér er um að ræða veigamestu þættina sem ríkisstjórnin telur sig vera búna að ganga frá í samningum við aðila úti í bæ. Ber ég þó mikla virðingu bæði fyrir verkalýðshreyfingunni og Vinnuveitendasambandinu en það er bara einu sinni svo eins og ég hef sagt hér áður úr ræðustól að það eru ekki þessir aðilar sem setja lög. Það getur enginn sett lög um skatta eða lagt á skatta annar heldur en Alþingi. Og það verður hæstv. ríkisstjórn að fara að læra og umgangast Alþingi með eilítið meiri virðingu en núverandi ríkisstjórn hefur gert. Það varð um það sátt á haustdögum að bæta vinnubrögð Alþingis með breytingum á þingsköpum og ég vil leyfa mér að fullyrða að almennt hafa þingmenn verið staðráðnir í að leggja sig fram í þá veru að bæta vinnubrögð Alþingis. Það er einn aðili sem hefur algerlega brugðist í þessu tilfelli og það er hæstv. ríkisstjórn. Þar á bæ hefur ekkert breyst, ekki frá því sem hefur verið á fyrri árum hennar og svo að núv. ríkisstjórn njóti sannmælis frá því sem því miður hefur allt of oft tíðkast. En þessi tilraun til breytinga á starfsháttum Alþingis er dæmd til þess að mistakast ef ríkisstjórnin er ekki tilbúin til þess að spila með. Og ég vil nefna hér það sem ég nefndi í umræðunni um störf þingsins fyrir nokkrum dögum að í öllu því ferli þegar hæstv. ríkisstjórn var að ,,semja`` lög með aðilum vinnumarkaðarins, sem hófst á sl. vori, þá sá hæstv. ríkisstjórn aldrei tilefni til þess að kalla efh.- og viðskn. þingsins saman sem samkvæmt þingsköpum fjallar um skattamál og kynna fyrir henni hvað væri verið að gera. Og það er kannski fátt annað sem sýnir betur í hnotskurn hvern hug ríkisstjórnin ber til Alþingis og hvaða skilning hún hefur á því hvernig löggjafarsetning á að fara fram.
    Hæstv. fjmrh. hefur talað mikið um skattalækkanir. Það er að vísu hægt að leika sér með tölur fram og aftur og fara þar í alls konar leikfimi og það hefur verið afar sérstætt að heyra þegar hæstv. fjmrh. hefur verið að tala um tekjuskattinn og sagt að fyrst er að lækka um 1,5% og síðan er hann hækkaður aftur um 0,35%. Þeir vinnumenn hans úr fjmrn. kunna þetta miklu betur. Þeir segja bara einfaldlega að skatthlutfallið til ríkisins hafi lækkað um 1,15% en einstaklingarnir bera þetta allt saman áfram því að það er mikil leikfimi að tala um það að breyta um form og ákveða endanlega að niðurfellingu aðstöðugjaldsins verði mætt með hækkun útsvars en ekki með skattheimtu ríkisins sem ríkið borgaði aftur til sveitarfélaganna eins og er á þessu ári að tala um þær leikfimisæfingar sem einhverjar skattbreytingar gagnvart almenningi í landinu. Það þarf vægast sagt mikið hugmyndaflug og ég leyfi mér að fullyrða að það er ekki til sá skattgreiðandi sem gerir nokkuð með þann málflutning. Og það er því miður það sem einkennir þessar aðgerðir allt of mikið. Það er verið að hæra fram og aftur með skatta og gjöld, tryggingagjald, virðisaukaskatt, aðstöðugjaldið, tekjuskattinn og allt er þetta sett fram í einum pakka sem Alþingi á að gera svo vel og taka við og afgreiða á örfáum dögum á jólaföstunni.
    En það er önnur hlið á þessu skattalækkunartali, hæstv. ráðherra, sem hv. 18. þm. Reykv. nefndi áðan. Hún er sú að það hefur verið að gerast sem sagan segir okkur að hefur nánast alltaf gerst þegar sjálfstæðismenn fara með ríkisfjármálin, fara með fjmrn., að bilið á milli tekna og gjalda er að breytast, ekki þannig að það sé að minnka heldur er það að aukast og við erum að horfa nú á fjárlagafrv. með áður óþekktum tölum um halla ríkissjóðs. Og það er kannski það sem telur, það eru útgjöldin sem telja. Væntanlega reiknar hæstv. fjmrh. með því að útgjöld ríkisins verði einhvern tíma að greiða og ég vil, virðulegi forseti, setja þetta mál eilítið í samhengi við þá vaxtalækkun sem núv. hæstv. ríkisstjórn gumar mikið af þessa dagana þó að þar hafi ekkert annað verið gert en reyna að sjá til þess að það héldist sama bilið á milli vaxta hér á landi og í okkar viðskiptalöndum. En nú hefur, hæstv. ráðherra, ekkert annað gerst heldur en að eftir þessa lækkun er sama bilið, vextir eru enn jafnmikið hærri hér og þeir voru fyrir ári síðan eða svo. Það var einhvern veginn þannig að hæstv. núv. ríkisstjórn á Íslandi trúði eiginlega miklu meira á markaðskerfið í fjármagnsheiminum og hvernig það stýrði vöxtunum heldur en nokkur önnur ríkisstjórn hér á vesturhveli. Það var ekki fyrr en nú fyrir skömmu að það rann upp fyrir henni það ljós að vextir ráðast ekki alfarið af markaði. Þeir ráðast í bland af markaðsaðgerðum og stjórnvaldsaðgerðum hvort sem menn vilja nú kalla það handafl eða handayfirlagningu eða hvað sem við viljum nefna þær kúnstir. En ég nefni þetta í þessu samhengi vegna þess að efh.- og viðskn. var á mánudaginn var á fundi uppi í Seðlabanka með bankastjórn Seðlabankans þar sem farið var yfir stöðuna í peninga- og vaxtamálum. Þar kom skýrt fram það álit bankastjórnar Seðlabankans að ef halli ríkissjóðs yrði viðvarandi eins og stefndi í núna, þá héldu þessar aðgerðir ekki og þá væru þær dæmdar til þess að mistakast. En að mati hæstv. ríkisstjórnar skiptir það kannski ekki öllu máli, bara ef hægt er að hanga á þessu fram á vor og sprengjan spryngi ekki framan í andlitið á okkur fyrr en eftir borgarstjórnarkosningar í Reykjavík að vori.
    Það er nú einu sinni svo að það lítur út fyrir að nánast allar aðgerðir núv. ríkisstjórnar miðist orðið við þann tímapunkt og þann ásetning að reyna að halda meirihlutavöldum í Reykjavíkurborg frekar en hvernig viðkomandi stjórnvaldsaðgerðir koma við landshag í heild.
    Ég vil einnig nefna það sem hér hefur verið sagt að á þeim tíma sem núv. ríkisstjórn hefur setið, þá hefur hún lagt á þjónustugjöld í áður óþekktum mæli. Nú ætla ég ekki að blanda mér í þær deilur hvort það séu skattar eða ekki. En það liggur í hlutarins eðli að sú þjónusta, sem menn hafa ætlast til og vilja að hið opinbera veitti, hefur ekki lækkað. Það er bara farið að innheimta á annan hátt fyrir henni

og þetta segir mér það að ríkisstjórnin hefur gefist upp við að spara. Hún hefur bara farið í það velta kostnaðinum yfir á aðrar herðar. Það er enginn sparnaður til að mynda í heilbrigðiskerfinu að velta kostnaðinum annars vegar yfir á herðar neytandans og hins vegar að loka heilu deildunum í sjúkrahúsum. Þetta er einfaldlega afleiðing þess að menn eru búnir að gefast upp við að halda utan um kostnaðinn og það endurspeglast rækilega í núv. fjárlögum.
    Ég ætla að lokum varðandi þetta atriði að nefna eitt sem mér finnst vera eitt mesta óheillaverk sem núverandi ríkisstjórn hefur unnið. Það er lækkun á skattleysismörkunum sem var gengið í á jólaföstu á síðasta ári og það er nú kannski eitthvert besta skólabókardæmi um það hvernig á ekki að vinna að skattagerð. Sá dagur, sem ég man nú ekki hver var en minnir að hafi verið 16. des., þegar efh.- og viðskn. sat á fundum frá hádegi og fram til miðnættis. Við í minni hlutanum að vísu vikum af fundi um áttaleytið. Meiri hlutinn sat síðan til miðnættis þegar við í minni hlutanum vorum kölluð inn til þess að tilkynna okkur hver væri niðurstaðan, hvað ætti að bera á borð fyrir almenning. Þá komu þessi ósköp upp úr pokanum að til þess að sauma dæmið saman, þá fundu menn ekki aðra leið í tímahraki undir miðnætti rétt fyrir jól en að lækka skattleysismörkin. Og mikið óskaplega get ég tekið undir með þingmanninum sem nefndi það áðan að það ætti að banna að gera skattleysisbreytingar seinna á árinu en í maí. Það var hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir. Ég held að menn ættu nú að fara að vinna að slíkum breytingum og menn verði þá að sauma fjárlögin saman á annan hátt en þann að geta hrært fram og til baka með skattana alveg fram á Þorláksmessu.
    Virðulegi forseti. Nefndin á eftir að fjalla um þessi mál áfram, svo ég haldi nú áfram að benda á það hvernig starfsháttum hér er háttað, þó svo að það séu ekki nema þrír formlegir fundir eftir hjá nefndinni það sem eftir lifir fram að jólum. Og nefndin á einnig eftir að fjalla um tekjuhlið fjárlaga með fleiri þáttum þannig að allt ber þetta að sama brunni hvað snertir vinnubrögð.
    Það hefur verið rætt um vaxtabæturnar og ég vil hnykkja á því hér að við erum að horfa á að það er að myndast nýr misgengishópur gagnvart húsnæðismálum og húsnæðislánum, þ.e. sá hópur sem hefur tekið húsbréf með hæstum afföllum. Og það verður ekkert þægilegt fyrir okkur sem erum í stjórnmálum að horfast í augu við þetta fólk, sem margt er að missa sínar íbúðir og mun missa þær á næstu árum, fólk sem hefur nánast verið blekkt til þess að kaupa sér húsnæði með þessum ofurkjörum sem þarna er um að ræða.
    Ég var þeirrar skoðunar að þegar virðisaukaskatturinn var settur á hefðu átt að vera tvö þrep, það lægra á matvælunum. Af reynslu síðustu ára og hvernig þetta mál hefur snúist, þá hef ég skipt um skoðun hvað þetta varðar og tel að það miðað við þá aðstöðu sem við höfum núna væri affarasælast að halda sig sem mest við eitt þrep og þá núllskattinn þar sem menn telja að það ætti við eins og til að mynda í ferðaþjónustunni en mæta lækkun á matvælum þá með niðurgreiðslum á móti. Fyrir þessu liggja að mínu mati í dag veigamikil rök sem hér hafa verið tíunduð af fyrri ræðumönnum og ég mun ekki fara í frekar.
    Ég ætla að koma aðeins að þeim stóra hópi Íslendinga sem eru bifreiðaeigendur og virðast vera orðnir einhver vinsælasti skattstofn sem hægt er að finna. Það eru held ég ekki að verða aðrir en þeir sem drekka mikið af brennivíni sem eru orðnir drýgri ríkinu í skattheimtu en þeir sem eiga bíla. Þetta kemur sérstaklega þungt niður á þeim sem vegna atvinnu sinnar, búsetu eða annarra aðstæðna þurfa að eiga fleiri en einn bíl og ef til vill sæmilega öflugan bíl því að þá margfaldast þungaskatturinn. Til að mynda fjölskylda sem á og þarf að eiga tvo bíla, einn jeppa og lítinn fólksbíl, þá eru menn að tala um skattlagningu, bara þennan þungaskatt, upp á 30--40 þús. kr. á ári.
    Ég vil nú beina því til hæstv. ráðherra ef ríkisstjórnin telur að hún þurfi að hækka bifreiðaskatta til að mæta lækkun á virðisaukaskatti á matvæli, hvort það væri ekki skynsamlegra að tengja þessa skattlagningu notkuninni og hækka bensíngjaldið aðeins meira og þá þungaskattinn, þ.e. þungaskattinn á dísilbílum heldur en hækka kílóagjaldið á bifreiðasköttunum eins og hér er gert ráð fyrir. Það er svo annað mál að sú leikfimi að tengja þessa skattheimtu hverja við aðra er að verða afar kúnstug eins og það að nú sé verið sé að hækka bifreiðagjöldin til þess að mæta að hluta til lækkun á virðisaukaskatti. Ef menn halda áfram í þessari röksemdafærslu, þá er ég ekkert hissa þó að ríkisstjórnin kæmi næst og segði: Nú skuluð þið eta bílana okkar, þannig að þetta er mikil leikfimi. En ég vil vekja athygli á því að hér er farið að skattleggja bifreiðaeign mjög ótæpilega. Ég vil í því sambandi beina einni spurningu til hæstv. ráðherra þó að það tengist þessu ekki nema óbeint. Hvað líður vinnu að breytingu á þungaskatti dísilbíla? Þetta er orðið að mínu mati afar brýnt. Mesta þróunin í nýjum bílvélum er á dísilvélum í til þess að gera litla bíla. Þær vélar eru nánast mengunarfríar en vegna úreltra og gamalla skattalaga hér á Íslandi fer þessi þróun algerlega fyrir ofan garð og neðan hjá okkur.
    Virðulegi forseti. Ég hef þetta ekki fleira í þessari umferð en ég vil þó að lokum ítreka þetta við hæstv. ráðherra. Alþingi Íslendinga er að fá þennan bandorm til umfjöllunar núna. Það eru 10 starfsdagar eftir eða eitthvað í þá átt til jóla. Hjá efh.- og viðskn. sem á að fjalla um þetta veigamikla mál og ber samkvæmt þingsköpum að skoða málið ofan í kjölinn eru eftir þrír formlegir fundir á þeim tíma. Og það sér hver maður að þetta eru vinnubrögð sem eru á engan hátt líðandi og að mínu mati, eftir þá breytingu sem varð á þingsköpunum í haust, eiga alþingismenn að rísa mjög kröftugt upp á móti vinnubrögðum sem þessum.