Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 15:57:29 (2017)


[15:57]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Áður en þingfundur hófst í dag komu hingað í húsið fulltrúar atvinnuvega- og launþegasamtaka til þess að kynna átak sem þeir hafa gert til að hvetja til kaupa og neyslu á íslenskum vörum. Það er vissulega alltaf þörf á að gera slíkt en áreiðanlega hefur þörfin sjaldan verið brýnni en einmitt nú vegna þess hvað áhugi núv. hæstv. ríkisstjórnar hefur verið mikil fyrir því að reyna að auka innflutning til þess að drepa niður neyslu á íslenskum vörum og eins og við vitum hefur það gengið lengst þegar gerðir sumra ráðherra í því skyni hafa verið dæmdar lögbrot.
    Það frv. sem hér er verið að fjalla um snertir líka atvinnulífið í landinu og hvernig kemur þá viðhorf ríkisstjórnarinnar fram þar? Það hefur verið bent á að hér er raunverulega um mörg frumvörp að ræða og ég ætla ekki að tefja umræðuna með því að víkja að mörgum þeirra en vil fyrst og fremst vekja athygli á einu sem snertir ferðaþjónustuna og fleiri hafa reyndar vikið að. Það verður að segjast eins og er að ríkisstjórnin virðist vera ótrúlega fundvís á að finna álögur til að leggja á ferðaþjónustuna í þessu frv.
    Hér var vakin athygli áðan á t.d. 16. gr. frv. þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Til skattskyldrar veltu teljast fjárframlög og önnur rekstraraðstoð, sem opinberir aðilar veita þjónustufyrirtækjum til að greiða niður skattskylda þjónustu.``
    Nú á virðisaukaskattur að leggjast á ferðaþjónustuna í ríkum mæli og m.a. á samgöngur og ég sé ekki að það sé hægt að skilja þessa grein öðruvísi en svo að þau framlög ríkisins sem veitt hafa verið vegna ferjusamgangna, þar sem ekki er unnt eða erfitt er um aðra flutninga annað en flug, verði þar með að skattstofni. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort það sé réttur skilningur og líka hvort gert hafi verið ráð fyrir þessu í fjárlagafrv. nú, ef það væri svo að hluti af framlaginu væri tekinn beint til baka.
    Hér hefur verið bent á það hvernig virðisaukaskatturinn leggst á mannflutninga, bæði á sjó, í landi og í lofti og lýsinguna á þessari skattlagningu höfum við heyrt gefna með því að kalla þetta landsbyggðarfjandsamlegan átthagaskatt. Það er athyglisvert að það hefur varla nokkur stjórnarliði utan höfuðborgarsvæðisins sést hér til þess að vera við þessa umræðu. Hæstv. samgrh. sem þetta mál snertir hefur ekki talið ástæðu til að vera hér við. Bent hefur verið á að það væri æskilegt að ýmsir ráðherrar væru viðstaddir þessa umræðu og mér finnt að það hefði ekki verið síst ástæða fyrir hæstv. samgrh. að vera það. Það er á mörgum liðum sem sú skattlagning kemur fram. Hún leggst nú í fyrsta skipti á gistingu og samkvæmt athugun sem gerð hefur verið og byggð á reikningum nokkurra hótela fyrir árið 1991, þá nemur þessi nýi skattur 7,2% af gistitekjum þeirra eins og þær voru á því ári þegar frá hefur verið dregin lækkun tryggingagjalds og fleira sem hægt er að færa þar til frádráttar. En skattlagningin tekur á sig margar furðulegar myndir. T.d. er veitingahúsum ætlað að selja tilbúinn mat með 24,5% virðisaukaskatti en ef tilbúinn matur er seldur út úr verslun þá á að vera 14% virðisaukaskattur á honum. Hæstv. ráðherra vék að því að það ætti að reyna að bæta þetta með einhverjum hætti en að mati fulltrúa ferðaþjónustunnar, eða þeirra sem best þekkja til, þá nemur það aðeins hluta af hinu nýja álagi fyrir utan erfiðleikana sem þetta veldur.
    Í síðustu viku var ég á kynningarfundi sem boðað var til af starfsmönnum samgrn. ásamt fleiri aðilum sem eru að vinna að sameiginlegu átaki í ferðaþjónustu. Þetta heitir ,,Íslandsferð fjölskyldunnar 1994``. Það er vissulega góðra gjalda vert að reyna að örva ferðalög Íslendinga um eigið land og að því vilja margir aðilar vinna. En það virðist vera kaldhæðnislegt að á sama tíma og þeir sem þarna standa að verki eru að kynna sínar hugmyndir þá leggur hæstv. ríkisstjórn fram frv. á Alþingi sem leggur hvern steininn af öðrum í götu fólks sem vill ferðast um landið. Það hefur verið bent á það hér að það eru innlendu ferðalögin sem fyrst og fremst eru skattlögð en hin erlendu ekki. Vissulega eru rök fyrir því að það er ekki hægt en það hlýtur þá að leiða til þess að ýta undir ferðalög til útlanda en ekki um eigið land.
    Ég vonast til þess að þingmenn utan af landi sem styðja hæstv. ríkisstjórn geri sér grein fyrir því hversu mikið ranglæti er fólgið í þessari skattlagningu á ferðalögum vegna þess að hingað þurfa þeir sem úti á landi búa að sækja svo margvíslega þjónustu. Að nota slíkan aðstöðumun sem grundvöll að skattlagningu finnst mér vera fráleitur hlutur. Það er að sjálfsögðu rétt að undanþágur geta valdið erfiðleikum í skatteftirliti. En þegar um er að ræða hrein skil þannig að skattlagningin jafnvel veldur erfiðleikum í framkvæmd eins og því að það á að fara að sundurgreina hvort maður ferðast innan lands til þess að komast til útlanda eða ekki, þá er augljóst að það eru aðrar ástæður sem þarna liggja að baki.
    Ég skal ekki fjölyrða mikið meira um þetta frv. en eitt af því sem hæstv. fjmrh. nefndi var hækkun bifreiðagjalds en sagði að á móti félli niður slysatryggingagjald ökumanna og því ættu verðlagsáhrif þessara breytinga á bifreiðagjöldum að vera hverfandi. Á það hefur hins vegar verið bent að frá slysabótum hafa bæturnar sem þessi trygging veitir verið dregnar og því muni iðgjöld trygginganna hljóta að verða að hækka sem þessu nemur. Ég skal ekkert segja hvernig það kemur inn í verðlag. Ég hélt að það hlyti að gera það og það eykur álögur á þá sem þær eiga að greiða.
    Ég skal svo ekki tefja þessa umræðu meira að sinni þó að vissulega séu mörg atriði í þessu frv. sem ástæða væri til að vekja athygli á.