Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 16:11:35 (2018)


[16:11]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er um við að ræða frv. til laga um breytingar í skattamálum. Það hafa komið fram ýmsar athugasemdir og ég ætla að reyna að fara ekki nákvæmlega í það sama og aðrir. Ég vil þó nefna þennan 14% virðisaukaskatt og benda á að það er alls ekki verið að koma honum á núna í fyrsta sinn. 14% virðisaukaskattur var ákveðinn í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár og 14% virðisaukaskattur var settur á orkuveiturnar, var settur á húshitun um síðustu áramót. Raunar niðurgreiddur að hluta til aftur vegna mikils þrýstings bæði stjórnarliða og stjórnarandstæðinga.
    Það var líka settur á 14% virðisaukaskattur núna um mitt ár á blöð, bækur, afnotagjöld útvarps og sjónvarps og fleira og það á að setja um næstu áramót 14% virðisaukaskatt á ferðaþjónustu sem ákveðið var í fyrra og til viðbótar á nú að setja ýmis matvæli í 14% virðisaukaskatt. Mér finnst það svolítið sérkennilegt að í fyrra þegar verið var að ræða um þennan 14% virðisaukaskatt, þá fannst ríkisstjórninni og hennar fylgismönnum ekki nokkur vandkvæði á því að koma honum á. Þá var ekki talað um hversu erfitt skatteftirlitið yrði. Það var ekki talað um hversu erfitt væri með tölvur og hvað þyrfti að breyta í forritum og fleira og fleira, alla þá erfiðleika sem yrðu í sambandi við 14% virðisaukaskattinn. Nú er það allt í einu óskaplegt vandamál að það skuli eiga að koma 14% virðisaukaskattur á matvæli. Það er rætt um að það verði svo erfitt um frádráttinn, innskattinn og fleira í þeim dúr, en það er líka innskattur hjá orkuveitunum og það er líka innskattur hjá blaðaútgáfu og bókaútgáfu. Og þar voru engin vandamál. En af því að nú á að lækka virðisaukaskattinn, það er ekki verið að taka upp nýja gjaldskrá eins og var með 14% virðisaukaskattinn sem ákveðinn var í fyrra, en þessi skattur núna á matvæli, þar er verið að lækka. Það er verið að lækka úr 24,5% niður í 14% og þá er það allt í einu alveg óskaplegt vandamál, kostar 30 stöður og breytingar á tölvum og fleira að framfylgja þessu máli.
    Ég vildi nú vekja athygli á þessu vegna þess að mér finnst að það hafi verið nokkuð einlitt tekið á því að þetta valdi erfiðleikum. Auðvitað veldur það einhverjum erfiðleikum. Það fer ekki hjá því. En þetta er bara það sem ríkisstjórnin var byrjuð á að gera, ég vil vekja athygli á því. Hún var búin að ákveða þetta í fyrra að setja á virðisaukaskatt í þremur áföngum, um áramót í fyrra, um mitt ár núna og á næstu áramótum, 14% virðisaukaskatt á ýmsum kostnaðarliðum sem ég hef nefnt hér áður.
    Virðisaukaskattur á ferðaþjónustu, sem var ákveðinn á síðasta ári, hefur nokkuð verið ræddur hér en á að koma til framkvæmda nú um áramótin. Ég verð að segja að af öllu sem er nú verið að setja virðisaukaskatt á, þá er það nú eitt af því alfurðulegasta. Að setja á þessa atvinnugrein sem virðist vera sú eina sem virkilega er í vexti. Það eru bundnar vonir við það að greinin muni bæta atvinnuástandið, að þetta sé sú atvinnugrein sem muni skapa fleiri atvinnutækifæri á næstu árum og það er verið að skattleggja hana. Það er líka verið að skattleggja þá sem búa úti á landi og þurfa að sækja þjónustu og annað hingað til Reykjavíkur og þeir sem búa lengst í burtu eru skattlagðir mest.
    Það er rétt að rifja það upp að fyrir allmörgum árum var söluskattur á innanlandsfargjöld í flugi og það kom fljótlega í ljós að þetta var landsbyggðarskattur. Þeir sem bjuggu lengst í burtu frá Reykjavík og þurftu að sækja hingað til Reykjavíkur með innanlandsfluginu borguðu hæsta gjaldið að sjálfsögðu vegna þess að það var dýrasta fargjaldið og þá bættist við mesti söluskatturinn ofan á það fargjald. Þegar menn gerðu sér þetta ljóst var hætt að hafa söluskatt á fargjöldunum heldur var tekinn upp flugvallarskattur, það var tekið flugvallargjald, fast gjald á allt flug. Það var sama hvort menn flugu frá Stykkishólmi eða frá Egilsstöðum. Það var sama gjaldið. Nú á aftur að fara í þetta sama far, þ.e. leggja virðisaukaskatt á innanlandsfargjöldin og aftur þurfa þeir að greiða mest sem búa lengst í burtu. Og þá skyldi maður halda að í tengslum við þetta væri afnumið þetta flugvallargjald sem sett var á í staðinn fyrir söluskattinn því að virðisaukaskatturinn er arftaki söluskattsins, en það var ekki gert. Flugvallargjaldið verður áfram og nú leggst virðisaukaskatturinn ofan á þetta allt saman. Tvísköttun, það er orðið.
    Síðustu vikurnar hefur mikið verið rætt um íslenska framleiðslu og hvetja menn til að kaupa íslenskt, til að ferðast innan lands. Íslenskt, já takk hefur verið slagorðið. Nú kemur í ljós að það á að leggja þennan skatt á innanlandsflugið. Það á ekki að leggja hann á erlenda flugið, það er ekki hægt vegna samkeppnisaðstöðunnar. Og hvað eru menn þá að segja með þessu? Ekki að ferðast innan lands, ekki að nota innlendu fargjöldin heldur að nota fargjöldin erlendis. Sem sagt, ekki íslenskt, já takk, heldur erlent, já takk segir ríkisstjórnin. Menn skulu ferðast erlendis. Þá þurfa þeir ekki að borga virðisaukaskatt á fargjöldin. Það verður sem sagt ódýrara að ferðast til Englands, til Írlands eða hvert menn fara nú til að kaupa inn, innkaupaferðirnar, það verður ódýrara heldur en að ferðast innan lands, frá Egilsstöðum til Reykjavíkur t.d. og versla þar sem meira úrval væri af íslenskum vörum. Ég held að menn ættu að athuga hvort þetta er boðskapur ríkisstjórnarinnar með þessu frv.
    Ég vil einnig gera að umtalsefni nokkuð sem er ekki í þessu frv. Það er vaxtaskatturinn. Vaxtaskattinum er nefnilega frestað. Það átti að leggja á 10% nafnvaxtaskatt samkvæmt tillögum nefndar sem hefur skoðað það mál en því er frestað. Það er alltaf svo óskaplega erfitt að setja á vaxtaskatt. Það virðist vera erfiðara eftir því sem það tekur fleiri ár að undirbúa það. Hér hefur verið gagrýnt að það sé verið að leggja fram frv. núna sem eigi að taka gildi um áramót með alls kyns skattabreytingum, en það virðist ekki vera neitt mál þó þarna sé verið að breyta einum sjö lagabálkum í skattamálum en að setja vaxtaskatt á, fjármagnsskatt, það gengur ekki. Það þarf margra ára undirbúning að áliti ríkisstjórnarinnar.

    Það er vissulega alveg rétt að það þarf að vera góður fyrirvari en við höfum kannski látið okkur nægja svipað eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði hér áðan að breytingar væru lagðar fram og samþykktar í maí þegar þær ættu að taka gildi um áramót. Það væri þó alla vega miklu betra heldur en það sem nú er verið að tala um. En að það þurfi mörg ár til að koma á fjármagnsskatti get ég engan veginn samþykkt.
    Í þessu frv. er líka verið að leggja fram ýmsar breytingar á vörugjöldum. Vörugjöldin koma að mestum hluta á næstunni í staðinn fyrir tolla og fyrst og fremst er það vegna inngöngu okkar í EES. Það hefur þó nýlega komið fram í fréttum að það sé orðið mjög vafasamt að heimilt sé að breyta tollum í vörugjöld á þann hátt sem ríkisstjórnin hefur gert sl. ár frá því að frv. um inngöngu okkar í EES var samþykkt. Það er orðið mjög vafasamt að hægt sé að breyta bara þessu orði tollar yfir í vörugjöld og halda áfram að innheimta tolla sem núna heita vörugjöld af ýmsum þeim vörum sem áttu að hafa betri samkeppnisstöðu eftir EES-samninginn. Þannig að ég held að þær æfingar sem ríkisstjórnin er að gera hér með þessu frv. um vörugjaldabreytingu séu hæpnar í meira lagi. Og þrátt fyrir það fullyrðir hæstv. fjmrh. að það hafi orðið skattalækkun hjá ríkisstjórninni sem má til sanns vegar færa ef horft er nákvæmlega á tölurnar, en það hefur ekki orðið skattalækkun hjá hinum almenna launþega, það hefur orðið hækkun. Það er búið að færa aðstöðugjaldið yfir á launþega þannig að þó að tekjuskatturinn hafi lækkað og heildarskattheimta ríkisins sjálfs hafi lækkað eins og hann segir hér réttilega, hæstv. fjmrh., þá hefur ekki lækkað skattheimta á einstaklingum. Hún hefur nefnilega aukist og hún hefur aukist jafnt og þétt á hverju einasta ári síðan hæstv. ríkisstjórn tók við en skattheimtan hefur færst af fyrirtækjunum yfir á einstaklinga. Og þau fyrirtæki sem rekin eru af einstaklingum og sameignarfyrirtækin líka sem venjulega eru með ábyrgð einstaklings eða einstaklinga, þau halda áfram sömu skattprósentu. En fyrirtækin, hlutafélögin t.d., lækka niður í 33% þannig að sífellt er verið að færa ábyrgðina af rekstri ríkissjóðs yfir á einstaklingana.
    Það er kannski líka athugandi að skoða það að frá árinu 1988 hafa verið afskrifaðir 15 milljarðar í skattkerfinu samkvæmt úttekt Ríkisendurskoðunar. Og skyldu þessir milljarðar af sköttum hins íslenska ríkis vera hjá einstaklingum? Nei. 15 milljarðar hafa verið afskrifaðir hjá fyrirtækjum og nú eru fyrirtækin verðlaunuð með því að það er lækkuð á þeim skattprósentan. En einstaklingarnir sem standa sig yfirleitt í því að borga sína skatta fá aftur á móti hækkun.