Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 16:34:22 (2026)

[16:34]

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Forseti vill skjóta því hér til upplýsingar að haldinn var fundur með formönnum þingflokka í gærmorgun þar sem rætt var um fundahaldið í þessari viku og m.a. leitað eftir samkomulagi um það að þeirri dagskrá sem hér liggur fyrir í dag yrði lokið á þessum degi. Jafnframt beindi forseti því til þingflokksformanna að ef það væru sérstakar óskir um viðveru ráðherra annarra en þeirra sem ættu mál á dagskrá, þá yrði því komið á framfæri áður en fundurinn hæfist til þess að auðvelda snurðulausa umræðu en eins og stundum gerist eru ráðherrar að sinna öðrum störfum á meðan mál eru flutt hér sem ekki heyra undir þá.
    Einnig vill forseti minna á að hæstv. samgrh. hefur varamann og situr ekki á þingi eins og er ( JHelg: Hann hefur þingskyldu að mæta hér.) en hins vegar ætlaði forseti að bæta því við þegar þetta frammíkall kom hjá hv. 2. þm. Suðurl. að það er sjálfsagt að gera honum viðvart og athuga hvort hann getur komið á fundinn.