Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 16:35:30 (2027)


[16:35]
     Halldór Ásgrímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Það má vel vera að það hafi verið gert samkomulag um þessi mál og ekki skal ég verða til þess að rjúfa það samkomulag. Hitt er svo annað mál að hæstv. fjmrh. lýsti því yfir í upphafi valdaskeiðs síns að nú væri orðin mikil breyting á í ríkisstjórninni því nú væri ekki lengur einn fjmrh., nú væru komnir tíu fjármálaráðherrar. Nú þyrfti hver fjmrh. að sjá um sína hluti og ég skildi það svo að með því væri hæstv. fjmrh. að lýsa því yfir að nú ætti hver ráðherra að verja öll þau mál sem hann varðaði. ( Fjmrh.: Niðurskurðinn.) Er það bara gjaldamegin sem sagt, þeir eru fjármálaráðherrar gjaldamegin en ekki teknamegin? Þetta voru viðbrögð hæstv. fjmrh. Þetta varðar að sjálfsögðu ekkert störf efh.- og viðskn. Þetta varðar pólitíska umræðu um málið. Það er ekki ætlun mín að reyna á nokkurn hátt að tefja framgang þessa máls í efh.- og viðskn., enda reikna ég með því að úrslit þess séu þegar ákveðin og ég lýsti því reyndar yfir í upphafi míns máls að ég gengi út frá því að það væri búið að ákveða þetta mál. En hitt er svo annað mál, að ráðherrar Alþfl. hafa talað á móti þessu máli úti í bæ og er þá undarlegt þó stjórnarandstaðan vilji eiga orðastað við þessa menn jafnvel þótt hæstv. fjmrh. komi hér og segi að orð þeirra séu marklaus? Hann sagði hér áðan að þrátt fyrir yfirlýsingar ráðherra Alþfl. ef ég þýði það þá rétt, það voru ekki nákvæmlega hans orð, þá hef ég umboð til þess að fara með þetta mál og ríkisstjórnin stendur heils hugar að baki því. Eiga menn þá sem sagt ekkert mark að taka lengur á ráðherrum Alþfl.? Og þeir sjá sér ekki einu sinni fært að vera hér viðstaddir til þess að segja það sjálfir, heldur þarf hæstv. fjmrh. að segja hér frá því. ( Fjmrh.: Hefur þingmaðurinn alltaf tekið mark á þeim ráðherrunum í öllum málum?)