Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 16:41:30 (2030)


[16:41]
     Rannveig Guðmundsdóttir (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst það afar skiljanlegt, bæði núna og oft annars og mér hefur fundist það í öll þau skipti sem ég hef setið hér á þingi og hefur verið óskað eftir því í máli sem heyrir undir ákveðinn ráðherra að ráðherrar væru viðstaddir. Það hefur hins vegar verið þannig mjög gjarnan, hvort sem mönnum finnst það gott eða vont, að þeir sitja ekki ávallt hér í sal og þeir sem hafa verið ráðherrar vita það líka þó þeim finnist eflaust eftir á að þeir hafi verið duglegri við að rækja þingstörf en þeir sem nú sinna ráðherrastólum og er ég með þessum orðum að gera þeim upp hugsanlegar skoðanir.
    Það sem ég kom hér í ræðustól til að segja er að ég sat þennan fund í gær með forseta og til að tryggja það að svona staða kæmi ekki upp, þá óskaði forseti eftir því við þingflokksformenn að þeir gengju eftir því við sína þingmenn hvort það væru sérstakir ráðherrar sem óskað væri eftir að væru viðstaddir til að geta tryggt það að þeir væru hér. Þess vegna kemur mér það á óvart þegar talað er um það kl. korter í fimm, þegar við erum búin að vera hér með umræðu í 3--4 tíma, þá sé verið að tala um að fresta af því að það vanti ráðherra. ( SJS: Við bárum þessar óskir fram í byrjun umræðunnar.) Mér finnst það mjög mikilvægt þegar við erum að reyna að koma nýjum og bættum starfsháttum á að einmitt þegar leitað er eftir þessu samstarfi við þingflokksformenn að það nái alla leið þannig að það sé hægt að tryggja stöðu mála hér með viðunandi hætti. Mér finnst mjög mikilvægt að við reynum að koma því á.