Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 16:44:00 (2032)


[16:44]
     Kristín Ástgeirsdóttir (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Það er ljóst að í upphafi þessarar umræðu var þess óskað að ákveðnir ráðherrar yrðu hér til staðar en þeir hafa ekki látið sjá sig frekar en fyrri daginn og ég hlýt að vekja athygli á því vegna orða síðasta ræðumanns að eftir að það fyrirkomulag var tekið upp að raða málum niður á daga eftir ráðuneytum, þá hefur það gerst að ráðherrar eru hér vægast sagt sjaldséðir. Þó að þeim beri skylda til þess að sækja þingfundi eins og okkur hinum þá láta þeir sig hverfa. Og hér er einmitt um að ræða mál sem er mjög víðtækt og nær til margra ráðuneyta. Við erum að tala hér um frv. sem meira og minna er orðið til í kjölfar ákveðinna kjarasamninga og m.a. heyra þessir samningar undir forsrh. Hann hefur verið í forsvari fyrir þessa samninga meðan aðrir ráðherrar hafa í rauninni gagnrýnt inntak þeirra harðlega. Og það er ekki nema eðlilegt að við förum þess á leit að þessir ráðherrar komi hér og taki þátt í umræðunni. Eins og hér hefur komið fram, þá er margt mjög óljóst í þessu frv. og meira að segja er ákveðnum atriðum vísað beint til nefndarinnar, þ.e. það sem snýr að vaxtamálum og viðmiðun við vexti í kjölfar þeirra breytinga sem þá áttu sér stað. Við hljótum að þurfa að fá skýringar hjá þessum ráðherrum á þeirra sjónarmiðum, ella eigum við von á því sem hér hefur gerst trekk í trekk að þessu frv. verði breytt, það tætt sundur og saman og nýjar tillögur komi dag eftir dag eins og gerst hefur hér á undanförnum árum. Og það er ekki nema eðlilegt að við krefjumst þess að fá hér skýringar fyrir fram til þess að við getum farið að vinna að málinu af einhverri skynsemi.