Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 17:35:59 (2043)

[17:35]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir svar hans. En ég vil enn á ný segja vegna þessa dæmis hv. þm., sem kann að hljóma mjög skynsamlega, að þá er þetta eitt af stærstu vandamálum okkar, þ.e. að þeir sem stunda löglega veitingastarfsemi kvarta undan því að þeir séu skattlagðir á sama tíma og keppinautar þeirra eru að halda veislur og standa fyrir veitingum í alls konar félagsheimilum um allan bæ og eru hvergi skráðir, afla hvergi heimilda, kaupa vín úr Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og mjög erfitt er að

ná þessari starfsemi. Ef við hækkun vínveitingaleyfið á þeim sem eru ofan jarðar þá eru meiri líkur til þess að fleiri hverfi undir jörðina og stundi á starfsemi sem við köllum svarta.
    Þetta nefndi ég hér til að sýna hversu erfitt er í raun og veru að fást við tilvik eins og þessi sem hér voru nefnd til sögunnar, af því að mér heyrðist hv. þm. vera að nefna þetta sem stórkostlega tekjulind fyrir ríkissjóð. En ég vil þvert á móti benda á að einmitt við slík skilyrði, þegar á að fara að skatta einhverja starfsemi þar sem er auðvelt að færa hana til og fara með hana undir yfirborðið, þar er mesta hættan á framtíðarskattsvikunum. Þess vegna er það ekki alltaf leið að hækka gjöldin, stundum kann jafnvel að vera betri leið að lækka þau.