Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 18:14:24 (2055)


[18:14]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Samkvæmt texta þessa frv. er það svo að hjón sem hafa 7 millj. kr. í tekjur ná vaxtabótum, enda sé eign þeirra ekki hærri en 4,9 millj. kr. nettó. Það er með öðrum orðum að mínu mati svo að það er bersýnilega svigrúm til þess að bæta betur en gert er í tillögum ríkisstjórnarinnar stöðu þeirra sem eru með þessi okurháu húsnæðisbréf frá liðnum tíma og mér sýnist að það sé reyndar óhjákvæmilegt með hliðsjón af þeim upplýsingum sem fram komu í máli hæstv. félmrh. Ég tel að það hafi komið á daginn að það hafi verið óhjákvæmileg nauðsyn að kalla hæstv. félmrh. hér á þennan fund til þess að geta fengið upplýsingar um þá nýju skýrslu sem hún var að gera grein fyrir áðan og ég þakka út af fyrir sig fyrir það að hún skuli hafa gert grein fyrir henni. En mér sýnist augljóst að jafnvel innan þess kerfis sem hún er hér með og ríkisstjórnin þá sé svigrúm til þess að bæta stöðu þeirra sem lægstir eru í tekjum frá því sem ella væri, þó að hitt sé auðvitað ljóst að í rauninni ætti ríkisstjórnin að skila til baka vaxtabótaskerðingunni allri, af því að húsbréfakerfið var tekið upp á þeim forsendum að hér yrði haldið uppi fullum vaxtabótum.