Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 18:18:17 (2057)

[18:18]

     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki verða til þess að lengja þessar umræður mikið. En ég vil fyrst segja það, vegna orða hv. þm. Svavars Gestssonar þegar hann var að ræða um sjálfseignarstefnu Sjálfstfl. eða eiginhúsnæðisstefnu, eins og hann kallaði það, að þá tek ég undir það með hv. þm. að það er búið að eyðileggja þá stefnu. Hv. þm. átti sinn þátt í að gera það ásamt þeirri ríkisstjórn sem nú situr við völd. Það var gert með því að leggja slíkar álögur á eigið húsnæði að það svarar varla kostnaði fyrir fólk að standa í slíkum fjárfestingum. Það hefur verið gert með of háum eignarsköttum. Það hefur verið gert með ekknasköttum. Það hefur verið gert með þjóðarbókhlöðuskatti og það hefur verið gert með fasteignagjöldum að sjálfsögðu, þannig að það má með vissu segja að það séu allir orðnir leiguliðar, sumir hjá íslenska ríkinu en aðrir hjá fasteignaeigendum. Þannig að fólk er að borga í dag fyrir meðalstórt raðhús til að mynda í kringum 20 þús. kr. á mánuði til ríkisins að meðaltali. Og ef menn bæta eðlilegu viðhaldi við þetta, þá er þetta orðið ansi nærri því sem kostar að leigja á markaðnum, þó að það sé enn svolítið í land að vísu. Þannig að ég er alveg sammála hv. þm. að, eins og hann kallar það, eiginhúsnæðisstefnan er fyrir bí og menn þurfa verulega að hugsa sinn gang áður en þeir fara út á þá braut.
    Ég verð einnig að segja það að ég er hálfvonsvikinn með þann uppgjafatón sem er í hv. formanni efh.- og viðskn. Ég þekki hann að allt öðru heldur en uppgjöf. Ég þekki þennan ágæta nefndarformann minn sem mikinn baráttumann. En hann lýsti því yfir í sinni fyrstu ræðu að þetta væri algerlega vonlaust mál, við þetta væri ekkert hægt að eiga, það frv. sem við erum hér að ræða um. Hann sagði svona nánast orðrétt að fyrir siðasakir mundi nefndin skoða málið í nokkra daga. Ég er þessu alfarið ósammála. Ég tel að nefndin hafi öll tök á málinu, hún geti breytt því eins og henni þóknast og það sé síðan Alþingis að taka afstöðu til þeirra breytinga sem þaðan berast. Þannig að ég vil ekki framselja það vald sem nefndin hefur án þess að reyna þá alla vega að stíga aðeins í ístaðið. Þaðan af síður vil ég verða einhver leikari í einhverjum leikþætti sem á að standa í nokkra daga. Annaðhvort tökum við þetta verk og vinnum það af alvöru eða við getum alveg eins sleppt því.
    Ég vil líka taka undir þá gagnrýni sem komið hefur varðandi framsetningu þskj. í svokölluðu bandormslíki. Ég get alveg tekið undir það að mér finnst það ekki til fyrirmyndar og auðvitað ætti að flytja þetta sem sérstök frumvörp hvert og eitt. En það er orðið að veruleika og því verður ekki breytt. En það er hins vegar ekki til fyrirmyndar og ekki til eftirbreytni og vonandi gerist það ekki of oft aftur.
    Hér hefur aðeins verið minnst á ákaflega vinsælan skatt, skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, sem mér til mikillar furðu var sendur til félmn. fyrir örfáum dögum, sem er auðvitað skattamál og átti að sjálfsögðu að fara beint til efh.- og viðskn. en ekki félmn. En ég ætla ekki að fara að setja á einhverja tölu um þann skatt. Ég hef margoft gert það og menn vita nákvæmlega hver tónninn er í þeirri ræðu og hver mín afstaða til þessarar skattlagningar er. Skatturinn eins og hann er lagður til núna er auðvitað nákvæmlega jafnslæmur og hann hefur alltaf verið. Það skiptir verslunina engu máli hvort það heitir ríkið eða hvort það heita sveitarfélög sem eru að leggja þessar álögur á verslunina eða skrifstofurnar, þannig að skatturinn sem slíkur er nákvæmlega jafnslæmur. Þar af leiðandi hef ég auðvitað nákvæmlega sömu skoðun á skattinum og ég mun ekki greiða honum atkvæði, þannig að það liggur alveg klárt fyrir.
    Ef menn vilja fara þá braut að skattleggja atvinnuhúsnæði, þá á auðvitað að skattleggja allt atvinnuhúsnæði í landinu og þá á að skattleggja það allt eins, ef menn vilja á annað borð fara þá braut og þá undanskiljum við engan. Við undanskiljum t.d. ekki bændur. Það mætti skoða það. En að hafa slíka mismunun getur ekki gengið og það get ég ekki samþykkt. Og mér finnst hlægilegt nánast að hlusta á menn. Hér flutti hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon smátölu um þennan skatt hér áðan og tilnefndi til að mynda hinn mikla gróða og hina góðu stöðu verslunarinnar í landinu. Þetta er auðvitað slík fásinna að það nær engu tali.
    Ég orðaði það bæði á síðasta þingi og þar áður að menn horfðu alltaf á þetta með einhverjum kringluaugum, að verslun í landinu væri bara Kringlan. Þetta er auðvitað rangt. En það má bæta við það sem ég sagði þá að verslanir í Kringlunni í dag berjast líka í bökkum. Þetta eru örfáar verslanir í landinu í dag sem standa upp úr og hafa einhvern hagnað af sínum rekstri. Þess vegna er auðvitað alveg til skammar nánast að vera enn að mismuna þessari atvinnugrein. Það ætti frekar að verðlauna verslunarstéttina vegna þess að verslunarstéttin hefur lækkað vöruverð í landinu og það er óumdeilanlegt. Fyrir því eru til opinberar upplýsingar. Verslunin hefur tekið á sig ýmsar álögur. Verslunin tók til að mynda á sig gengisfellinguna síðustu, án þess að elta henni út í verðlagið, svo að eitthvað sé nefnt. Ég vil því að það komi alveg skýrt fram að þessa skattlagningu mun ég ekki styðja frekar en hin fyrri ár.
    Í því frv. sem við erum hér að ræða, og ég ætla ekki að ræða efnislega, ég kom aðallega hér upp til að ræða örlítið um virðisaukaskatt og smágat sem mér finnst vera í því kerfi. En áður en ég kem að því finnst mér tilvalið, úr því að við erum að hreyfa við tollalögum, að við skoðum það nú einu sinni í alvöru að taka upp svokallaða fob-tollun. Í landinu í dag viðgengst það að tollað er eftir kerfi sem er kallað cif-tollun. Það þýðir að vara er að sjálfsögðu tolluð, en jafnframt er tollaður allur annar kostnaður, svo sem flutningsgjald, tryggingar, pökkun, innanlandsflutningar erlendis og hvaða nöfnum sem tjáir að nefna það. Allt er þetta tollað. Auðvitað á að tolla bara vöruna og ekkert annað og þarna er þá komin ein leiðin enn til þess að lækka vöruverðið í landinu. Auðvitað er óeðlilegt að leggja toll á tryggingu. Það er óeðlilegt að leggja toll á pökkun. Það er óeðlilegt að leggja toll á hvað eina annað en vöruna sjálfa. Þetta eigum við auðvitað að taka upp og ég vona að hv. efh.- og viðskn. sé tilbúin að gera það. Ég hef að vísu tekið þetta upp þar áður, en fyrir mjög daufum eyrum. En það þýðir ekkert annað en reyna áfram.
    Það hefur aðeins verið deilt á og menn skiptast á skoðunum um það hvort rétt sé að fara út í þessa lækkun á matarskattinum eða ekki. Ég styð alfarið þá hugmynd og hef alltaf barist gegn matarskattinum sem slíkum. Ég styð alfarið að það sé farið með þetta niður í það þrep sem um er talað í frv. og auðvitað eiga helstu nauðsynjavörur heimilanna að vera í því þrepi og miklu lægra þrepi heldur en þarna er. En þetta er þó áfangi í áttina og auðvitað er dýrt að fara með það neðar. En það mætti útvíkka þetta. Þarna erum við einungis að tala um matvöru eða drykkjarvöru og annað slíkt. Þarna ættum við að fara að fordæmi Breta og taka inn barnafatnaðinn líka. Þá erum við komnir með nánast flóruna á helstu nauðsynjum heimilanna og þá gætum við verðið hnakkreistir og stoltir yfir okkar virðisaukaskattskerfi. Og ég geri eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, ég blæs á það að það sé ekki hægt að framfylgja þessu kerfi með tveimur stigum eða þremur, ef menn vilja kalla 0-stigið stig. Ég blæs á það. Að sjálfsögðu er það hægt og við vitum að aðrar þjóðir eru með allt upp í 5, 6, 7 stig og ég veit ekki betur en það gangi þokkalega. En hér er vantraustið svo ríkjandi að menn leita alltaf eftir því slæma í öllu. Það eru svindlarar á öllum kerfum, hvort sem það er eitt kerfi, hvort sem það var söluskattur með einu stigi eða vaskur með 2--3 eða einhver annar skattur. Auðvitað eru alls staðar til skattsvikarar og það þýðir ekkert að afgreiða ákveðin skattkerfi út úr heiminum bara af því að það er möguleiki á að svindla á kerfinu. Þannig að ég styð þetta alfarið. En mér leiðist að heyra hv. þm. Kvennalistans koma hér trekk í trekk upp og gagnrýna það að ekki sé gert nóg í skattsvikamálum, án þess að leggja fram eina einustu tillögu. Það er enginn vandi að koma hér upp og segja: Það er ekkert gert. En það væri æskilegt að heyra eins og eina litla tillögu, þó það væri ekki meira. Einfaldasta lausnin er auðvitað að segja bara: Fjölga mannskap. Ég er ekki viss um að það sé rétta leiðin. Það er vafalaust nauðsynlegt. Ég held að rétta leiðin sé fyrst og fremst sú að kalla á stefnubreytingu og breytingin á að felast í því að láta tittlingaskítinn eiga sig og fara eftir stórlöxunum.
    Hér þekkjum við dæmi um það að menn eru eltir vegna þess að þeir hafi keypt eina Mackintosh-dós inn á aðalfund eða menn eru að borga kaffi fyrir aðalfundinn. Hvað er kerfið að eyða tíma í svona smotterí? Á meðan synda stórlaxarnir allir í burt. Þetta er auðvitað það sem verður að taka á.
    Menn þykjast líka vera hér að verja innlenda framleiðslu. Það má vel vera rétt. En menn verða að hugsa um það að fólk í landinu neytir vörunnar sem er seld hér og stór hluti af neysluvörunni er innflutt vara og af hverju má hún ekki lækka? Af hverju má ekki hugsa um neytendur í þessu landi? Ég styð þetta alfarið af því að ég vil lækkun á vöruverði. Hér voru í dag, eins og bent var á af hv. þm. Jóni Helgasyni, fulltrúar atvinnulífsins, sem komu með fríðan hóp ungra stúlkna og sungu fyrir okkur og afhentu merki í tilefni þessa átaks hér, Íslenskt, já takk. Ég styð alfarið íslenskt, já takk og það gera allir. En fólk verður líka að hafa efni á því að styðja það. Hvað á fólk að gera með tóma budduna sem stendur frammi fyrir tveimur vörum í matvöruversluninni, annarri íslenskri, hinni útlendri og útlenda er miklu lægri. Hvað segir buddan? Hún segir: Ég verð að kaupa innfluttu vöruna, en viljinn segir: Mig langar að kaupa hina. Þannig að menn verða þá að auka kaupmáttinn um leið og þeir ætla að taka þátt í íslensku átaki af einhverri alvöru en ekki bara hafa orðin tóm.
    Ég vil líka taka undir gagnrýnina á virðisaukaskatt á fólksflutninga. Menn hafa talað hér nokkuð um það og ég hef ekki miklu við það að bæta. Auðvitað er þetta skattur á landsbyggðina og kemur mjög misjafnlega niður á fólki og ég ætla ekki að bæta neinu við það öðru en því að þetta er, eins og ég benti á hér á síðasta þingi, jafnframt skattur á íþróttahreyfinguna. Og íþróttahreyfingin kemur inn á nánast hvert einasta heimili í landinu, ég fullyrði a.m.k. 70--80% heimila í landinu, þannig að þetta er veruleg íþynging á heimilin og þetta er veruleg íþynging á íþróttahreyfinguna í landinu. Og ég man það á síðasta þingi að kallaði ég sérstaklega til hv. þm. Suðurl. því að þetta er auðvitað fyrst og fremst og ekki síst skattur á Vestmanneyinga og ég fór þá með dæmi. Í Vestmannaeyjum eru tvö félög, Týr og Þór. Árið 1992 eyddi annað félagið 12 millj. bara í flug og menn geta reiknað út frá því hvað þetta er þá mikil íþynging á það eina félag, að maður tali ekki um þau bæði og að maður tali ekki um alla hreyfinguna í heild. Ég held að menn ættu aðeins að líta á þetta og ég skal svo sannarlega taka undir það með einhverjum sem hafa áhuga á að reyna að breyta þessu.
    Virðulegi forseti. Ég sagði hér í upphafi að ég ætlaði að fjalla fyrst og fremst um virðisaukaskatt og örlitla glufu sem er í því kerfi. Sú glufa er ráðuneytismönnum að fullu ljós vegna þess að ég tók það upp í efh.- og viðskn. á síðasta þingi en fékk engin viðbrögð við henni. Hún gengur út á það að menn gera út á hærri innskatt en útskatt. Það má kalla þetta öfugan virðisaukaskatt. Ég var að dunda við það hérna áðan í sæti mínu að reyna að búa til dæmi og ég ætla að fara aðeins yfir það.
    Ef við segjum að maður kaupi vöru inn á 100 kr., þá leggur hann VSK á hana 24,5% sem gerir þá 124,50 kr. Sem sagt VSK innskattur 24,50 kr. Eðlileg álagning 25% kemur vörunni upp í útsöluverð 156 kr. Varan er seld á 156 kr. og greiddur þá af henni VSK sem er 19,68%, sem sagt 32 kr. útskattur. Mismunurinn sem er greiddur í ríkissjóð á innskatti og útskatti er því 8 kr. Þetta er dæmi 1.
    Í beinu framhaldi af þessu og þá mega menn gjarnan hafa í huga það verðstríð sem er núna í gangi t.d. á Akureyri milli Nettó og Bónus. Dæmi 2. Sama vara keypt inn á 100 kr. 24,5% VSK, 124,50 kr., 24,50 kr. innskattur. Síðan kemur verðstríðið. Varan er seld á 70 kr. í því dæmi sem ég tek hér. Af því er greiddur svo 19,68% VSK, sem sagt 14 kr. Hvað skeður þá? Þá er kominn 10 kr. mismunur á innskatti og útskatti þannig að ríkið þarf þarf að endurgreiða 10 kr. í VSK í staðinn fyrir að fá 8 kr. Þetta er það sem er að gerast í dag. Þetta er glufa í kerfinu sem ráðuneytið vill ekki horfa á. Þessari glufu verður að loka.
    Hvað eru menn að gera? Það eru fyrst og fremst og fremst þeir stóru og sterku sem eru með þessum hætti og með þessari glufu að reyna að drepa af sér samkeppni minni aðilanna, fyrst og fremst. Og þá er spurning: Hvernig á að loka fyrir þetta? Á að banna mönnum að selja undir innkaupsverði? Það held ég að sé hæpið, ég held að það sé ekki hægt. En er hægt að skylda menn til að skila einhverjum virðisauka? Það er hægt. En það er líka hægt að segja sem dæmi: Þú mátt ekki selja undir innkaupsverði fyrr en eftir einhvern tiltekinn tíma frá því að þú keyptir vöruna inn. Kannski er það best, ég veit það ekki. Þetta eru hugmyndir sem ég hef velt upp. En þetta er kerfi sem verður að skoða vegna þess að kerfið virkar þarna öfugt og menn eru að gera út á kerfið. Það er þess vegna sem ég tek þetta hér upp og nýti mér þetta tækifæri þegar virðisaukaskattur er til umræðu.
    Ég hef auðvitað ýmsar athugasemdur fram að færa við það frv. sem hér liggur frammi og ég mun koma þeim á framfæri í hv. efh.- og viðskn. Ég get vel tekið undir áhyggjur manna vegna vaxtabótanna. Ég get tekið undir með mönnum sem hafa áhyggjur af þeim gjöldum sem verið er að leggja á bifreiðaeigendur. Ég vil skoða vörugjaldið betur þannig að það eru ýmsir þættir þarna sem orka tvímælis og þurfa frekari skoðunar við.