Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 18:56:39 (2067)


[18:56]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Út af orðum síðasta ræðumanns sem hann beindi að vaxtabótakerfinu þá taldi ég mig hafa svarað því áðan. Hv. þm. sagði að ég hefði sagt þegar þessi skerðing kom til fyrir ári síðan að þetta væri ekki endanleg niðurstaða og það er einmitt það sem við erum að fjalla um núna. Þetta var ekki endanleg niðurstaða og það sem ég lagði áherslu á, úr því að þessi skerðing þurfti að koma til, var að henni væri þó háttað með þeim hætti að hún kæmi sem minnst við tekjulægstu hópana og þá sem væru með meðaltekjur og það er einmitt það sem við erum að fjalla um núna.
    Varðandi 6% vextina þá höfum við farið yfir það hér hvers vegna ekki er hægt að breyta þeim vöxtum. Við þyrftum að leysa út öll útgefin húsbréf á móti til þess að geta lækkað þarna vextina og það yrði það mikið hringl í kerfinu að það mundi hreinlega skemma það og mætti þá spyrja með sama hætti ef vextir einhvern tíma í framtíðinni hækkuðu hjá þeim sem væru með 5% bréf hvort við ættum þá aftur að innleysa þau og hækka vextina. Það sjá því allir að þetta gengur ekki upp. Og ég hef líka sýnt fram á að að 90% hluta er þessi 1% mismunur bættur hjá þeim hópum sem eru með lágar tekjur og meðaltekjur. Mér finnst að þetta liggi ljóst fyrir og auðvitað er það þannig að þegar við búum við atvinnuleysi og tekjur fólks dragast saman, þá skerðist það greiðslumat sem fólk hefur fengið. Það liggur alveg í augum uppi en ég minni á að ríkisstjórnin hefur mætt þessu gagnvart fólki sem hefur búið við langvarandi atvinnuleysi með því að koma til móts við það með skuldbreytingum, bæði gegnum Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna.
    Varðandi lækkun á matvæli sem þingmaðurinn nefndi og afstöðu Alþfl. til þess þá liggur hún alveg skýr fyrir. Alþfl. hefur fært rök fyrir því að hann telur heppilegra og hann telur að það gagnist betur tekjulægri hópunum að verja þeim miklu fjármunum sem fara í niðurgreiðslu á matvælum með öðrum hætti. Og hann hefur sýnt fram á að það gagnast betur tekjulægri hópunum. Og ég veit ekki betur en t.d. BSRB sé því sammála.