Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 19:15:23 (2072)


[19:15]
     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Við eldhúsdagsumræður sl. vor tók ég það fram að þá væri í farvatninu samkomulag við verkalýðshreyfinguna og útlit fyrir að í því samkomulagi yrði fjölgað þrepum í virðisauka svo sem nú hefur gerst. Og ég lét þá þess getið að ég væri í grundvallaratriðum ósammála slíkri gerð en ef það hefði orðið samkomulag eins og blasti við þá hefði ég samt verið í hópi þeirra sem mundu greiða því atkvæði.
    Ég vil minna á þetta vegna þess sem hér hefur ítrekað komið fram. Hvert okkar getur haft skoðun á hver skattastefnan eigi að vera. Einstaklingar og flokkar geta haft mat á því hvort eigi að framselja skattaákvarðanir til þriðja aðila eins og gerist á vissan hátt við slíkt samkomulag sem nú hefur verið gert á vinnumarkaði til að ná samkomulagi um stöðugleika. Og við getum verið með afstöðu til hvort það sé rétt eða hvort við séum sátt við það að vera með fleiri þrep í virðisaukaskatti en þegar samkomulag er orðið og þegar verkalýðshreyfingu hefur verið boðið upp á tvo valkosti og niðurstaðan er sú sem hún varð þá stöndum við að sjálfsögðu við þá niðurstöðu. Ég hefði óskað að valið hefði orðið annað hjá verkalýðshreyfingunni þegar henni var boðið upp á val. Niðurstaðan varð þessi og ég mun rétta upp hönd ef þessi mál eiga ekki eftir að breytast héðan í frá.
    Virðulegi forseti. Þetta er stjfrv. Alþfl. stendur að því. Hver og einn verður að standa fyrir sínum eigin orðum hvort heldur er hér í ræðustóli eða á opinberum vettvangi svo að ég tala ekkert um orð félaga minna í þessum efnum.