Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 19:20:42 (2075)


[19:20]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Það er vonandi að þessari umræðu fari nú senn að ljúka. Þetta segi ég fyrst og fremst af umhyggju fyrir þeim hæstv. ráðherrum sem hér hafa mætt en líður þannig að það er nánast eins og þeir gangi á glóðum elds þegar þeir koma hér inn í þingsalinn yfir þeirri ósvinnu að þurfa nú að koma hér og taka þátt í löggjafarstörfunum eins og þeim ber sem þingmönnum sem ég vissulega held í það minnsta að þeir séu enn sem komið er, þingmönnum og ráðherrum sem vissulega er skylt að fylgjast með og fjalla um þau mál sem eru á þeirra sviði.
    Ég ætla þá að byrja að bera fram að ég vona mjög einfalda spurningu til hæstv. félmrh. og hún er þannig, ég ætla að lesa hér með leyfi forseta 16. gr. í frv. Nú veit ég ekki hvort hún er í ljóðabókinni líka, hvort hæstv. ráðherra geti fylgst með henni þar, en hún hljóðar svona:
    ,,Við 11. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðist svo:
    Til skattskyldrar veltu teljast fjárframlög og önnur rekstraraðstoð, sem opinberir aðilar veita þjónustufyrirtækjum til að greiða niður skattskylda þjónustu.``
    Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað þýðir þessi grein fyrir rekstur á ferjum sem eru styrktar af ríkinu? ( Félmrh.: Ertu að spyrja hann?) Ég er að spyrja ( Samgrh.: Ertu spyrja hæstv. félmrh. eða . . .  ?) hæstv. samgrh. eins og ég tók fram.
    Virðulegi forseti. Nú veit ég ekki hvort hæstv. ráðherra hefur fylgst með mínu máli þannig að ég neyðist því miður til þess að endurtaka það. ( Samgrh.: Ég hef náð þessu öllu saman.) Það er 16. gr., ég vil biðja hæstv. ráðherra að útskýra fyrir okkur hvað hún þýði gagnvart ferjurekstrinum í landinu.
    Virðulegi forseti. Síðan vil ég beina annarri spurningu til hæstv. samgrh. Hvaða vinna fer fram í samgrn. núna til að meta þann kostnaðarauka sem ferðaþjónustan ber þegar virðisaukaskattur leggst á hana af fullum þunga um næstu áramót og hvaða ráðstafanir eru í farvatninu til þess að mæta þeirri hækkun?
    Það er ein spurning til hæstv. félmrh. Félmrh. segir að vaxtabótakerfið muni mæta því sem þeir húsbyggjendur hafa orðið að taka á sig, sem hafa tekið húsbréf með 6% vöxtum, þann mun sem er á þeim og 5% sem nú eru. Við skulum láta þetta liggja á milli hluta, en nú spyr ég hæstv. félmrh.: Hvernig mætir vaxtabótakerfið þeim einstaklingi sem fékk húsbréf að nafnvirði upp á 6 millj. kr. en fékk aldrei í hendurnar nema 4,5 millj. en greiðir síðan samviskusamlega af sínum 6 millj. kr. með sínum 6% vöxtum og sér ekki lengur fram úr því?
    Ég sagði það, hæstv. félmrh., í umræðunum í dag að hér væri að skapast nýr misgengishópur í húsnæðismálum og það væri mjög erfitt fyrir okkur sem erum í stjórnmálum að horfast í augu við það fólk sem lét nánast glepjast til þess að taka húsbréfalán á þessum kjörum og er núna að missa eigur sínar sem það hefur lagt í þessi kaup á móti húsbréfunum.
    Hæstv. félmrh. skuldar þessu fólki skýringar á því, hvernig það eigi að mæta þessu og þetta fólk á afar erfitt með að skilja það af hverju það er að borga af 6 millj. kr. en fékk aldrei í hendurnar nema 4,5. En þetta er nú það kerfi sem hæstv. ráðherra barðist fyrir og hefur varið með kjafti og klóm, ég segi ekki lengur hótunum því að hótanir hæstv. félmrh. eru því miður orðnar algerlega bitlausar því ráðherrann hefur aldrei staðið við þær.
    Að lokum í þessari umræðu gagnvart skattheimtu almennt, þá vil ég beina orðum mínum til hæstv. fjmrh. Núv. ríkisstjórn hefur verið afar tamt að tala um fortíðarvanda og talið sig taka við slæmu búi á nánast öllum sviðum. Nú er ég því ekki sammála en mun ekki fara út í þann rökstuðning hér. En ég ætla að benda á eitt atriði sem núv. ríkisstjórn tók við. Hún tók við til þess að gera einföldu og skilvirku skattakerfi. En mér sýnist að það stefni í það að núv. hæstv. ríkisstjórn takist að umturna því öllu á sínum valdaferli, bæði hvað snertir óbeinu skattana og beinu skattana. Ég vil í því sambandi, með leyfi forseta, leyfa mér að vitna í ágæta greinargerð sem við fengum hér og fjmrn. sendi okkur þingmönnum og er eftir Indriða H. Þorláksson skrifstofustjóra fjmrn. Þar segir hann, með leyfi forseta:
    ,,Þegar litið er til þeirra sjónarmiða sem einkennt hafa mótun tekjuskattskerfisins og þeirra markmiða sem talið hefur verið æskilegt að stefna að, breiður skattstofn, eitt skatthlutfall, lágur jaðarskattur og há skattleysismörk verður ekki hjá því komist að telja tekjuskattskerfið verra en áður og fjarlægara markmiði sínu.``
    Og hvenær skyldi nú skrifstofustjórinn hafa séð ástæðu til þess að setja þessi orð á blað? Það var, virðulegur forseti, að loknum þeim breytingum sem gerðar voru á tekjuskattskerfinu fyrir síðustu jól, í jólatörninni margfrægu þá, og því miður virðist það vera að gerast að það er verið að fara með virðisaukaskattskerfið sömu leið. Mér finnst, virðulegi forseti, að þetta ætti nú að geta verið núv. hæstv. ríkisstjórn eilítið lexía að hún fari ekki með það sem gefinn hlut að það hefur nú allt saman verið til bóta sem núv. hæstv. ríkisstjórn hefur gert.