Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 19:44:35 (2078)

[19:44]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er mjög óþægilegt þegar hæstv. ráðherra heldur sína svarræðu ekki fyrr en við erum búnir að tala okkur dauða, en ég vil benda hæstv. ráðherra á það að ég lagði einmitt áherslu á í mínu máli að ríkisstjórnin væri að draga úr möguleikum til tekjuöflunar með því að leggja skatt á ferðaþjónustuna. Það væri verið að draga úr umsvifum og tekjum í erlendum gjaldeyri og þess vegna væri þetta öfug aðgerð í reynd. Ég benti á það hversu þungur baggi atvinnuleysið væri fyrir ríkissjóð og hversu mikils virði það væri að reyna að auka atvinnu með því að leggja ekki drápsklyfjar á ferðaþjónustuna.
    Hæstv. ráðherra sagði að skattlagningin á framlögin til ferjanna væri til þess að jafna aðstöðu og eftir upplýsingum frá hæstv. samgrh. mun það vera yfir 80 millj. sem á að renna í ríkissjóð af þessum 600 millj. sem eiga að greiðast úr ríkissjóði. Ef það á ekki að bitna á þeim sem þjónustunnar njóta, þá verður að hækka þá upphæð.