Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 19:46:18 (2079)


[19:46]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er ekki mjög þægilegt þegar ráðherrar svara eingöngu hér í andsvörum og halda engar ræður þannig að það er engin leið að komast að þeim. T.d. svarar hæstv. samgrh. ekki einu orði mínum spurningum um þá alvarlegu stöðu sem flugfélögin eru komin í. Hann kýs að þegja um það. Þýðir það að hæstv. samgrh. er ekkert að hugsa um það?
    Varðandi það sem hæstv. fjmrh. sagði hér, þá sagði hann að nokkrir menn verði ráðnir. Hann veit það ekki. Skattkerfismennirnir segja að það þurfi 26--28 og svo er engu svarað um það. Það á að vera háð persónulegu mati hvað menn halda að skattsvikin muni aukast mikið. Er nú nema von að þetta gangi illa þegar þetta er undirbúið með þessum hætti og lagt fram á þennan hátt? Og það er ekki von, hæstv. fjmrh., að það gangi vel að koma viti í þetta.
    Hæstv. fjmrh. segir að hann styðji fjármagnstekjuskatt. Hann er samt á móti honum. Hann er á móti honum a.m.k. enn sem komið er. (Forseti hringir.) Alþfl. er með þessum breytingum að einhverju leyti en annars er Alþfl. á móti þessu þannig að ég held að hæstv. fjmrh. ætti nú fyrst og fremst að hugsa um ástandið hjá stjórnarflokkunum en vera ekkert að hafa áhyggjur af því þó Alþb. og Framsfl. hafi mismunandi áherslur. Það er ekkert nýtt og ætti ekki að koma ráðherranum á óvart.