Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 19:58:16 (2088)


[19:58]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Vissulega eru til fleiri en ein hlið. Ég studdi þá aðgerð að leggja niður aðstöðugjaldið af fyrirtækjunum sem var það óréttlátasta skattform sem hægt er að hugsa sér á rekstur. En það er ekki þar með sagt að það hafi alveg átt að hætta að skattleggja fyrirtæki eins og hæstv. ríkisstjórn hefur túlkað það.
    Hæstv. ráðherra sagði að það væru fleiri sjónarmið en skattaleg þegar verið væri að breyta skattalögum. Það er alveg rétt. Það koma inn ýmis pólitísk sjónarmið. En því miður, hæstv. ráðherra, þá eru nú ekki miklar líkur á gæfulegri niðurstöðu þegar grundvallarbreytingar eins og lækkun á skattleysismörkum eru teknar á krísufundi hjá meiri hluta efh.- og viðskn. einhvern tíma á milli kl. 8 að kvöldi og miðnættis þegar allt er komið í óefni eins og var á síðasta vetri og tíminn var runninn út. Við höfum akkúrat skólabókardæmi um það fyrir okkur hverju slík vinnubrögð skila.