Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 19:59:39 (2089)

[19:59]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Til mín var beint einni spurningu af hv. 6. þm. Norðurl. e. sem snerti afföll í húsbréfakerfinu. Hv. þm. tók þar tiltekið dæmi um 6 millj. kr. fasteignaveðbréf sem hefði verið skipt og viðkomandi hefði fengið 4,5 millj. Mér finnst hv. þm. einfalda málið mjög og eins og ég hef orðið vör við hjá fleiri framsóknarmönnum en honum sem hafa rætt um afföll af húsbréfunum, þá er eins og það hafi aldrei verið til áður í húsnæðiskerfinu. Þetta tiltekna dæmi er örugglega frá þeim tíma þegar var verið að fjármagna tvö kerfi, 86-kerfið sem framsóknarmenn héldu mjög í, þannig að lánsfjárþörfin var mikil og á sama tíma var einnig verið að fjármagna greiðsluerfiðleikalán vegna erfiðleika sem fólk átti í við að greiða niður af skammtímalánum sem það þurfti að taka vegna 86-kerfisins. En hv. þm. verður að gera sér grein fyrir því að afföllin hafa verið áður í húsnæðismálum og líka í 86-kerfinu. Það er orðinn töluverður munur á þegar fólk sem var að selja íbúð fékk 75% út á einu ári og það vaxtalaust, og það eru vissulega afföll. Fólk fékk síðan afganginn, 25% með handhafabréfum með föstum vöxtum sem verðbólgan rýrði oft verulega á fjórum árum sem það fékk þetta handhafaveðbréf. Fólk þurfti að bíða í 2--3 ár eftir að fá lánafyrirgreiðslu í húsnæðiskerfinu, og þurfti þá oft að lifa á einhverjum skammtímalánum í bönkum til að koma sér upp húsnæði og borga þar oft vanskil, lögfræðikostnað og fleira. Fólk þurfti að bíða. Loksins þegar það

fékk lánið var það úthlutað í tveimur eða þremur hlutum þannig að fólk þurfti oft og iðulega að fleyta sér á skammtímalánum. Síðan varð veruleg hækkun á fasteignaverði á þessum tíma sem mig minnir að hafi verið 10% sem þýðir náttúrlega ekkert annað en afföll upp á sennilega 500--600 þús. á meðalíbúð. Mér finnst því hv. þm. setja málið fram eins og aldrei hafi verið afföll í húsnæðismálum áður og það er auðvitað alrangt.
    Síðan vil ég geta þess sem er nauðsynlegt að fram komi að þegar fólk er að kaupa íbúð og seljandi er að fara í önnur fasteignaviðskipti, þá gengur þetta upp á pari hjá þeim sem eru að kaupa þegar þetta gengur í innri fjármögnun í næstu fasteignaviðskipti. Afföllin hafa orðið þegar um er að ræða að verið er að byggja íbúð eða kaupa nýbyggingar. Þá hefur orðið um afföll að ræða þegar fólk hefur þurft að selja bréfin. En þá vil ég geta þess að vaxtabótakerfið hefur komið til hjá þeim sem eru að byggja sjálfir.
    Ég held að það sé nauðsynlegt að menn hafi heildarmyndina af þessu þegar menn einfalda bara málið og tala um afföll í húsbréfakerfinu. Ég held að það sé enginn sem vilji ganga aftur til fyrri tíma þegar 86-kerfið var, enda væri í þessu tiltekna dæmi sem hv. þm. dró upp af 6 millj. kr. láni varla um að ræða kaup á íbúð sem var undir 10 millj. kr. og þá hefði viðkomandi fengið í þessu 86-kerfi 2--3 millj. ef hann hefði verið að kaupa sambærilega eign og þurft þá að fjármagna sig á skammtímalánum kannski með 9--10% vöxtum þannig að þar hefði ekkert verið um að ræða annað en afföll einnig. Þetta finnst mér að menn þurfi að hafa í huga. Það var nauðsynlegt að hverfa frá þessu kerfi einmitt vegna þess að það lá fyrir álit Ríkisendurskoðunar hvert stefndi með Byggingarsjóð ríkisins ef við hefðum haldið áfram þessu kerfi þar sem stefndi í gjaldþrot í kerfinu eða þá að ríkissjóður hefði þurft að leggja fram tugi milljarða kr. í bein ríkisframlög til þess að halda því kerfi á floti. En mér finnst mikilvægt að menn hafi alla myndina fyrir sér þegar verið er að ræða afföll í húsbréfakerfinu.