Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 20:03:56 (2090)

[20:03]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þetta var merkileg ræða en ansi held ég nú að fólkinu --- sem ég tek fram að er dæmi sem ég bjó bara til hér og nú --- sem stendur í þeim sporum finnist þetta nú rýrt svar. Ég endurtek spurningu sem ég bar fram beint til hæstv. ráðherra: Hvernig mætir vaxtabótakerfið afföllunum af húsbréfunum? Því svaraði ráðherrann ekki. ( Félmrh.: Ég svaraði því víst.) Þá hefur það farið fram hjá mér því að samkvæmt mínum skilningi er ekki tekið tillit til þess í útreikningum vaxtabóta. Og ef þetta er rangur skilningur hjá mér, þá bið ég hæstv. ráðherra að koma hér upp og leiðrétta mig hvað það snertir.
    Það rak sig einnig hvað á annars horn í ræðu hæstv. ráðherra. Það varð að afnema 86-kerfið vegna þess að það fór svo illa með fólkið, það bar svo mikil afföll af eftirstöðvum sinna eigna o.s.frv. En síðan í lok ræðunnar segir hæstv. ráðherra: Það varð að afnema kerfið vegna þess að það var svo dýrt fyrir ríkissjóð. Ríkissjóður þurfti að borga svo mikið af lánunum að það blasti ekkert við annað en gjaldþrot. Þarna rekur sig heldur betur hvað á annars horn.
    Það var eitt enn afar athyglisvert sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra viðurkenndi það að í offorsi sínu við að knýja fram húsbréfakerfið var það keyrt áfram áður en til var fjármagn til þess að fjármagna það, áður en það var tímabært, meðan enn var verið að fjármagna eldra kerfi, sem þýddi það einfaldlega að afföllin fóru í þær hæðir sem þau voru. Þannig var hæstv. ráðherra í raun að viðurkenna stór mistök varðandi það hvernig haldið var á málum þegar húsbréfakerfið var sett á fót.