Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 20:08:42 (2094)


[20:08]
     Ingi Björn Albertsson :
    Virðulegi forseti. Ég skal staldra stutt við í ræðustól en til mín var beint spurningum af hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, sem ég taldi mig ekki hafa tíma til að svara í hinum stutta tíma andsvars.
    Það er rétt sem fram kom hjá þingmanninum að ég hef ávallt talað fyrir því að ég vilji lækka skatta og þingmaðurinn velti því fyrir sér hvernig ég ætlaði þá að fjármagna velferðarkerfið svona eitt og sér. Þetta mál er að sjálfsögðu ekki hér á dagskrá og á ekki að ræða það í botn. En ég skal fúslega verða við því að leyfa þingmanninum að vita hver mín grunnskoðun er í þessu máli. Hún er sú að ég tel að það eigi að skilja eftir hjá fólkinu meira fé heldur en gert er í dag. Með því að skilja eftir meira fé hjá fólkinu, þá eykur fólkið eyðslu og það skilar sér til baka í neyslusköttunum. Það er grundvallarsjónarmið mitt varðandi skatta að það eigi að lækka skatta og það eigi að hvetja til aukinnar neyslu og það eigi frekar að stýra þessu í gegnum neysluskatta. Það var stefna ákveðins flokks hér til skamms tíma meira að segja að fella niður tekjuskatt. Ég vil ekki stíga svo stórt skref, en ég tel að það megi lækka hann og skilja eftir meira fjármagn hjá fólkinu. Ég tel líka að með lægri sköttum minnki hvatinn til skattsvika þannig að það er líka leið til að koma í veg fyrir skattsvikin. Þetta eru mín grundvallarsjónarmið.
    Hitt er svo annað mál að um leið og við gerum þetta og aukum þá um leið kaupmáttinn, þá ýtum við undir frumkvæði fólks, við veitum því meira frjálsræði heldur en það hefur í dag vegna þess að allur almenningur í dag er fangar fjármagnsins, hefur ekki það frelsi sem þarf til þess að skapa eða móta sér nýja stefnu í atvinnulífinu. Það er fangar fjármagnsins. Og þess ber vitni t.d. skuldastaða heimilanna í dag sem vex dag frá degi. Þetta sjá allir og ég trúi því ekki að það sé sjónarmið hv. þm. að eina leiðin út úr þessu sé gamla leiðin að hækka alltaf skatta, að finna nýja skatta hér eða þar eða dreifa þeim út en ekki að lækka þá. Ég tel reyndar að það megi gera hvort tveggja. Það má skoða fjármagnstekjuskattinn út frá ákveðnu sjónarmiði, út frá ákveðnum sjónarhóli. Ég tek ekki undir fjármagnstekjuskatt þar sem almennur sparnaður fólks í bönkunum er skattlagður en þar sem tekið er á hinum svokölluðu bréfum, þá tek ég vissulega undir það. Það má líka mín vegna hækka þrepið á hátekjuskattinn og ná í auknar tekjur þar en ég held að hvorugt þessara atriða skili verulegum tekjum, en mín vegna má fara þá leið.
    Ég tel hins vegar að það eigi að fara varlegar í eyðslu hins opinbera. Ég tel að við bruðlum mjög víða. Það má taka á litlum hlutum eins og dagpeningum, ferðakostnaði, risnu, bílamálum, óunninni yfirtíð, margföldum launum. Menn eru á margföldum launum í vinnutímanum á sínum launum, ef þeir eru settir í nefndir t.d. Hvað skyldu þessir aðilar margir hverjir í embættiskerfinu hafa á tímann þegar þeir eru að vinna nefndarstörf? Ég er viss um að það er gjörsamlega út í hött. Ef menn eru á annað borð í vinnutíma hjá sínum vinnuveitanda, þá eru þeir á þeim launum. Punktur, basta. Ef þeir eru í nefndarstörfum og vinna utan vinnutíma, þá er allt í lagi að greiða fyrir það.
    Ég tel líka að það megi fara að móta opinbera stefnu um það hvernig á að spara í þjóðfélaginu. Það á að hjálpa fólki að spara og það á að kenna því að spara. Við getum litið í kringum okkur, keyrt um bæinn og litið á það hvernig við t.d. notum rafmagn. Hvernig notar þjóðin rafmagn? Það er ljós í hverju einasta herbergi nánast. Það er ljós í opinberum byggingum allan sólarhringinn. Hvernig notum við hitann? Hvernig lækkum við hitann í húsunum? Jú, við löbbum að glugganum og opnum hann. Hvernig notum við bensín? Hvaða bensín kaupum við? Svona má kenna fólki og hið opinbera á að standa fyrir því.
    Hitt er svo annað mál og þá á ég eftir að svara því auðvitað hvernig við ætlum að fjármagna velferðarkerfið um leið að ég get bara bent á tvö atriði þar. Fyrir það fyrsta má skera verulega niður --- og það er ágætt að landbrh. er hér --- fjárframlög til landbúnaðargeirans. Þar eru milljarðar á milljarða ofan, á annan tug milljarða eyðum við í kerfið. Það má skera þar niður nóg til þess að borga þann niðurskurð og meira en það sem við erum að fremja á heilbrigðiskerfinu og velferðarkerfinu. Ég er heldur ekkert frá því að það megi taka upp veiðileyfagjald. Það skilar líka verulegum tekjum. En fólk verður þá líka að hafa kjark til þess að stíga þessi skref. Þetta eru tvö mjög stór skref og mjög stórar upphæðir sem liggja þarna. En hagsmunagæsluhóparnir sem m.a. eiga sæti hér á þingi blokkera það allan tímann.
    Ég tel líka að auðvitað verðum við að finna okkur nýjar tekjur. Við erum alltaf með öll eggin í einni körfu. Við erum með sjávarútveginn. Punktur, basta. Það er nánast ekkert annað. Menn verða að fara að skapa og finna atvinnustefnu, einhvers konar útflutningsleið. Og þá er spurningin: Í hvað á að eyða peningunum? Hvaða leið á að fara? Á að fara í vatnsútflutninginn? Á að fara í lúðueldi? Á að fara í álið? Á að fara í Bláa lónið? Hvert á að fara? En það er alveg sama hvað við veljum, ef við ekki stöndum myndarlega á bak við það, ef við ekki þorum að setja fjármagn í það, ef við þorum ekki að markaðssetja hlutina, þá gengur það aldrei.
    Árið 1988 lagði ég fram fyrirspurn hér á þingi um hversu miklu við hefðum eytt í markaðssetningu á lambakjöti í Bandaríkjunum. Svarið var 2 millj. Ef við ætlum að vera áfram á þessum grundvelli, þá er betur heima setið en af stað farið. Ef menn eru tilbúnir að finna góða hugmynd, hver sem hún er og setja alvörufjármagn í það, 500 millj., milljarð, það kostar það að markaðssetja vörur á alvöru markaði, ef menn eru tilbúnir í það, þá mundi ég styðja slíka hugmynd. Það er engin markaðssetning að láta fjölrita einhver blöð og henda þeim inn á Flugleiðaskrifstofur erlendis eða inn í sendiráðin. Það er sú markaðssetning sem við höfum haft plús það að veita kannski einum, tveim, þrem embættismönnum farmiða eitthvað út í heim og leyfa þeim að dvelja á góðu hóteli og labba um bæinn. Þetta er ekki markaðssetning. Ef menn eru tilbúnir í þetta, þá eru möguleikar. En þeir verða aldrei með því nánasarsjónarmiði sem við höfum haft fram til þessa.
    Það má alveg eins snúa þessari spurningu við og spyrja: Hver er skattastefna Kvennalistans? Hvernig ætlar Kvennalistinn að fjármagna þetta allt? Mér er svo sem alveg sama hvernig hann ætlar að gera það, en ég tel að það megi alveg eins snúa þessu við.
    En þetta mál er að sjálfsögðu ekki hér á dagskrá, hæstv. forseti. Grundvallaratriðið er það í mínum huga, að það á að skilja meira fjármagn eftir í vasa fólksins í landinu. Það mun skila sér til baka í aukinni neyslu og í gegnum neysluskatta.