Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 20:19:46 (2096)


[20:19]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég vil rétt í framhjáhlaupi eftir hina skrýtnu talnaþulu hv. 5. þm. Reykv. Inga Björns Albertssonar leiðrétta það að framlög til landbúnaðarmála séu eitthvað á annan tug milljarða. Þessu er svona fleygt fram án þess að kynna sér staðreyndir. Samkvæmt fjárlagafrv. eru það 6,8 milljarðar og inni í því eru framlög til skógræktar og landgræðslu m.a., en svona er hægt að fleygja hlutum fram.
    Vegna þeirra fyrirspurna sem til mín hefur verið beint m.a. út af 6. gr. þessa frv. og almennt vegna þess virðisaukaskatts sem lagður hefur verið á fólksflutninga, þá vil ég af því tilefni fara nokkrum orðum um innanlandsflugið eins og ég hef hér verið beðinn um. Það er auðvitað rétt sem komið hefur fram, m.a. hjá hv. 1. þm. Austurl., að innanlandsflugið hefur átt undir högg að sækja. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvernig staðan er á þessu ári. Ég hef ekki um það nýjar tölur og hef ekki séð milliuppgjör sem ugglaust hafa verið gerð á innanlandsfluginu. Það liggur á hinn bóginn alveg ljóst fyrir að við erum þar að tala um kannski 200--300 millj. kr. ef við getum miðað við þær tölur sem hafa verið á liðnum árum. Má þó að vera að þar sé um lægri tölur að ræða vegna þess að ýmsum kostnaði hefur verið velt af atvinnurekstrinum einmitt á þessu ári, en hitt er auðvitað laukrétt að með því að virðisaukaskattur verður lagður á fólksflutninga á næsta ári, þá hlýtur að þyngjast róðurinn. Það hefur verið gerð úttekt á því hvaða áhrif virðisaukaskatturinn muni hafa eða sú úttekt er kannski í burðarliðnum. Ég hef ekki fengið hana í hendur en það er verið að vinna að úttekt á því og geri ég ráð fyrir að hún muni liggja fyrir nú innan skamms.
    Það hefur verið reynt að meta það hve mikil hækkunin muni vera. Það er nú svo að ef við tölum um atvinnufyrirtæki, þá hefur virðisaukaskatturinn ekki áhrif til hækkunar hjá slíkum aðilum einfaldlega vegna þess að hann er frádráttarbær sem innskattur. Má vera að í sumum tilvikum kunni þessi breyting að hafa það í för með sér að um lækkun geti orðið að ræða af þeim sökum.
    Á hinn bóginn hefur það einnig í vaxandi mæli tíðkast í innanlandsflugi að farið er að bjóða ýmiss konar sérfargjöld sem hafa mjög komið til lækkunar á slíkum kostnaði og er auðvitað bein afleiðing af þeirri hörðu samkeppni sem flugið á nú í vegna bættra vega. Eins og hv. þm. er kunnugt hefur þessi breyting það einnig í för með sér að stofnkostnaður við fólksflutninga aðra en leigubíla, eða virðisaukaskattur af t.d. kaupum á hópferðabílum eða áætlunarbílum verður frádráttarbær sem ég hygg að ekki hafi verið áður og má vera að það hafi þau áhrif að almenningsvagnar geti lækkað fargjöld. Ég skal ekki um það segja hvaða áhrif það hefur í heildina litið þegar tekið er tillit til allra þeirra breytinga sem orðið hafa á skattlagningu hjá atvinnurekstrinum. Það a.m.k. liggur alveg ljóst fyrir að um verulegar kvartanir hefur ekki orðið að ræða frá þeim hluta.
    Það er líka auðvitað ljóst að þessi breyting mun hafa það í för með sér, og raunar er svo orðið þegar á þessu ári, að innskattur fæst frádráttarbær af fjárfestingu í hótelbyggingum. Í heildina litið hefur þetta að minni hyggju þau áhrif að það þyngist hjá fluginu. Það er mér auðvitað ekki fagnaðarefni en þessi varð niðurstaðan. Það er ekki um marga góða kosti að velja hvernig ætti að reyna að brúa það mikla bil sem er á ríkissjóði og ríkisstjórnin hefur orðið að grípa til margvíslegrar skattheimtu og þyngja skatta meira en ætlað var í fyrstu vegna þess hversu komið var fjárhag ríkissjóðs og vegna þeirrar veltuminnkunar sem orðið hefur í þjóðfélaginu. Þó hygg ég að það sé svo að heildarskattbyrðin, ef hún er mæld sem slík, sé nokkurn veginn óbreytt.
    Það hefur verið sagt að það séu útúrsnúningar af minni hálfu þegar ég vék að því hér áðan að ríkisfjármálin hlytu að draga dám af fortíðinni. Ég man þó ekki betur en hv. 1. þm. Austurl. hafi í þessum sama ræðustól á liðnum árum stundum tekið þann kostinn að skírskota til þess hvert væri ástand ríkisfjármála og hvernig á því stæði. Við getum auðvitað ekki litið á árið 1993 eða árið 1994 sem eitthvert einstakt fyrirbæri, heldur hlýtur ríkissjóður eins og aðrir að bera ábyrgð á þeim skuldbindingum sem hann hefur tekið á sig, hvort sem það er í formi lána sem tekin hafa verið eða ríkissjóður hefur skuldbundið sig til þess að láta í té einhverja þjónustu á viðkomandi ári þannig að það er alveg ljóst að ekki er hægt að horfa á ríkisfjármálin einangruð frá einu ári til annars eins og atvinnuástandið er í þjóðfélaginu, ef tekin eru bæði ytri skilyrði og innri skipti það engu máli. Það er auðvitað útúrsnúningur.
    Ég skal á hinn bóginn ekki fara út í langar umræðu um ferjur og flóabáta. Ég vil aðeins segja það að samkvæmt fjárlagafrv. er verið að tala um 550 millj. kr. Í 16. gr. þess frv. sem hér liggur fyrir stendur:
    ,,Til skattskyldrar veltu teljast fjárframlög og önnur rekstraraðstoð, sem opinberir aðilar veita þjónustufyrirtækjum til að greiða niður skattskylda þjónustu.``
    Ég var erlendis þegar þetta frv. var lagt fram og hafði ekki veitt þessari grein athygli í þeim gögnum sem ég hafði áður fengið. Ég óskaði á hinn bóginn eftir því við fjmrn. að það gerði mér grein fyrir því hvaða áhrif þetta ákvæði, ef að lögum verður, hefur á þörfina á framlögum til flóabáta og annað það sem undir samgöngumál heyrir. Það er alveg ljóst að það verður að taka það inn í fjárlagafrv. hver áhrifin af þessu verða. Ef í ljós kemur að ákvæðið felur í sér verulega aukna þörf á fjárframlögum úr ríkissjóði, þá er ekki um annað að ræða en að áætla fyrir þeim nema menn hugsi sér það að flóabátarnir verði stöðvaðir á miðju ári eða menn taki upp hinn gamla kostinn að standa ekki undir afborgunum og öðru slíku af þeim lánum sem á flóabátunum hvílir. Ég tel þess vegna að það sé mjög brýnt að þessi mál verði grunduð rækilega, ekki aðeins í efh.- og viðskn. heldur einnig í fjárln. og hef þegar gert ráðstafanir til þess að athuga hvernig þessi grein kemur við alla þá þætti sem heyra undir mín ráðuneyti bæði.